Hafís í júní 2007
Talsvert var um hafístilkynningar í júní, en hæg vestlæg átt var ríkjandi á Grænlandssundi fyrstu 3 vikur mánáðarins.
Landhelgisgæslan fór tvisvar sinnum í ískönnunarflug, 14. og 21. júní. Í fyrri ferðinni varð vart við gisinn ís V og NV af Vestfjörðum. Ísinn var næst landi um 19 sml NNV af Kögri og 33 sml N frá Deild. Í seinni ferðinni sást gisinn ís NV og N af Vestfjörðum og Húnaflóa og teygðu sig tvær ístungur suður af ísröndinni. Ísinn var gisinn sem fyrr segir og virtist bráðnandi. Ísröndin var þennan dag næst landi 25 sml N af Kögri, 35 sml VNV frá Riti, 34 sml NNV frá Skagatá og 27 sml NNA frá Horni. Tilkynningar frá skipum um ís bárust 8. júní, þá um ísrönd VNV af Vestfjörðum og svo aftur þann 21. er tilkynnt var um ísrönd norður af Húnaflóa. Viðvörun var send út í framhaldi af þessari tilkynningu þar sem hætta þótti á að íshrafl gæti borist nær landi með skammvinnri norðanátt þann 23. Þann 22. til 27. júní bárust 6 tilkynningar um dreifðan ís norður af Vestfjörðum og Húnaflóa.
Hægviðri eða hæg vestanátt var ríkjandi á Grænlandssundi fyrstu 3 vikur mánaðarins, en eftir það var hæg norðaustlæg eða breytileg átt ríkjandi.