Greinar

Vatnafarsforsíða

Notkun korts um hlutfallstölu rennslis

Á kortinu er að finna upplýsingar frá nokkrum vatnshæðarmælum víða um land. Litur mælisins á kortinu gefur til kynna hvort rennsli árinnar sé mikið, lítið eða venjulegt. Ef bendillinn er færður yfir merki mælisins fást meiri upplýsingar um hann:

  • nafn vatnsfallsins þar sem mælirinn er
  • nafn mælistaðarins
  • stærð vatnasviðs í km²
  • tímasetning nýjustu gagna
  • rennsli í m³/s
  • mat á rennsli
  • vatnshæð í cm
  • vatnshiti í °C ef hann er mældur
  • hlutfallstala rennslis í %

Ef rennsli er truflað af einhverjum ástæðum kemur það fram og hlutfallstala rennslis er ekki reiknuð. Ef smellt er á punkt mælistaðar birtist línurit með gögnum þess mælis. Þaðan er hægt að fara og sjá línurit með gögnum frá öðrum vatnshæðarmælum í kerfi Veðurstofu Íslands.

Hlutfallstala rennslis

Með því að bera nýjustu rennslisgögn saman við rennsli sama dags undanfarin ár má sjá hvort rennslið er óvenjulítið, venjulegt eða mikið. Á myndinni, sem sýnir hlutfallstölu rennslis, eru nýjustu upplýsingar um rennsli bornar saman við upplýsingar um meðalrennsli sama dags og dagsins á undan og eftir, sem til eru í gagnasafni Veðurstofu Íslands.

Hlutfallstala rennslis segir til um hve oft rennsli er minna en það er núna. Ef rennslið í Ölfusá 10. mars 2009 er til dæmis 342 m³/s og hlutfallstala rennsli er 45% þá merkir það að meðaldagsrennsli 45% daganna 9. til 11. mars er minna en 342 m³/s.

Ef hlutfallstala rennslis er 25%-75% er rennslið sagt vera innan venjulegra marka og hvorki mikið né lítið. Ef hlutfallstala rennslis er yfir 75% er rennsli mikið, en lítið ef hlutfallstalan er undir 25%.

Rennsli er ekki flokkað með hlutfallstölu ef nýjustu gögn eru eldri en 12 klst. og eru þá merkt með tómum hring á kortinu.

Vatnshæðarmælar mæla vatnshæð eins og nafnið gefur til kynna. Rennslið í ánum er síðan mælt við mismunandi vatnshæð og samband fundið milli vatnshæðar og rennslis sem notað er til að reikna rennslið þegar vatnshæðin er þekkt.

Á veturna, þegar ís safnast í árfarvegi, raskast þetta samband milli rennslis og vatnhæðar og þá er ekki hægt að reikna rennsli þótt vatnshæðin sé þekkt. Þegar þetta á við er rennsli sagt vera ístruflað og merkt grástrikuðum hring á kortinu.

litaskali




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica