Greinar
Mynd 1. Vindmælar við flugvöllinn á Sauðárkróki (skeytastöð númer 360 1954-1978). Vindhraðamælir og vindáttarmælar frá Flugmálastjórn eru á hliðarslá á staurnum. Líklega er það Leifur Steinarsson, starfsmaður Veðurstofu Íslands, sem er uppi í staurnum. Myndin er tekin við uppsetningu mælisins 16. júlí 1968. Þessi mælir var síriti af teljaragerð, við ákveðinn fjölda snúninga þokaðist penni upp um eitt hak á síritablaði sem komið var fyrir á sérstökum sívalningi sem stjórnaðist af klukku. Því hraðar sem mælirinn snerist því fleiri urðu hökin og því lengri samfelld lína. Eftir 10 mínútur féll penninn niður í grunnstöðu, þá hafði sívalningurinn snúist lítillega þannig að til urðu nýjar línur, 144 alls, þar til skipt var um blað eftir sólarhring. Mælar flugmálastjórnar, sem nefndir eru, voru svonefndir skífumælar, þ.e. augnabliksgildi vindáttar og vindhraða var lesið af skífu inni í „flugturni“. Þær mælingar voru sjaldnast skrifaðar niður og hafa ekki varðveist svo vitað sé.