Greinar
Þetta litskrúðuga kort sýnir vindsniða eins og hann var aðfaranótt 3. september 2008. Ef vel er að gáð má finna landakort í bakgrunninn. Labrador er efst á kortinu og norðurhluti Suður-Ameríku neðar. Á kortið eru merktir tveir hitabeltisstormar, táknið er eins og að tölustafirnir 6 og 9 séu skrifaðir ofan á hvorn annan. Sá sem er við Hispanjólu heitir Hanna, en sá sem er austast á myndinni er Ike. Litir kortsins sýna vindsniðann og hér er hann mismunur vindhraða, annars vegar í 925 til 700 hPa þrýstiflötum og hins vegar í 300 til 150 hPa-flötunum. Blái og svarti liturinn sýna svæði þar sem hann er lítill eða enginn, en verður því rauðari sem sniðinn er meiri. Hvítlituðu örvarnar sýna stefnu sniðans. Mikill sniði fer mjög illa með fellibylji. Hanna lifir í þrengslum milli svæða þar sem sniðinn er mikill. Hún getur orðið að fellibyl ef hún losnar við sniðastrengina. Ike býr hins vegar við góð sniðaskilyrði - en rautt svæði er þó á leið austur í átt til hans og gæti ógnað tilveru hans síðar. (Mynd frá cimss/noaa.)