Greinar
Teigarhorn í Berufirði.
Teigarhorn í Berufirði.

Hæsti hiti á Íslandi - Teigarhorn 22. júní 1939

Íslensk veðurmet 1

Trausti Jónsson 11.7.2007

Hiti hefur aðeins sex sinnum verið bókaður 30°C eða hærri á Íslandi. Þessi tilvik eru:

  • Teigarhorn 24. september 1940 (36,0°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Möðrudalur 26. júlí 1901 (32,8°C), ekki viðurkennt sem met,
  • Teigarhorn 22. júní 1939 (30,5°C),
  • Kirkjubæjarklaustur 22. júní 1939 (30,2°C),
  • Hallormsstaður júlí 1946 (30,0°C) og
  • Jaðar í Hrunamannahreppi júlí 1991 (30,0°C)
  • Hvanneyri 11. ágúst 1997 (30,0°C), sjálfvirk stöð

Að auki hefur nokkrum sinnum frést af meira en 29°C stiga hita. Það var á Eyrarbakka 25. júlí 1924 (29,9°C), Akureyri 11. júlí 1911 (29,9°C), á sama stað 23. júní 1974 (29,4°C), á Þingvöllum 30. júlí 2008 (29,7°C), á Kirkjubæjarklaustri 2. júlí 1991 (29,2°C), á Egilsstaðaflugvelli 11. ágúst 2004 (29,2°C) og daginn áður í Skaftafelli (29,1°C). Einnig fór hámark í 29,1°C á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði 10. júlí 1911.

Mælingar þessar eru mistrúverðugar, við lítum nú á tilvikin hvert fyrir sig. Í einu tilviki eru tölurnar frá sama degi, 22. júní 1939. Sú staðreynd að 30°C náðust á tveimur veðurstöðvum og að háþrýstimet var sett í sama veðurkerfi dregur talsvert úr líkum á því að 30 stiga hitinn hafi eingöngu mælst vegna þess að eitthvað hafi verið bogið við mæliaðstæður.

Því er hins vegar ekki að neita að ákveðin óvissa fylgir, því mælum var komið fyrir á nokkurn annan hátt en nú er. Samanburðarmælingar sýna mælaskýlið á Teigarhorni hlýrra yfir daginn (0,5°C - 1,5°C) en síðara skýli og vitað er að það var óheppilega staðsett. Litlar fréttir eru af skýlinu á Kirkjubæjarklaustri.

Mjög heitt var um allt land, nema þar sem sjávarloft lá við ströndina. Þótt hámarkshiti hafi mælst að meðaltali meir en 1°C of hár á í veggskýlinu á Teigarhorni, þegar samanburður var gerður á skýlunum, er ekki þar með sagt að sú ályktun eigi við um þá daga sem hiti er mestur.

Þýskir háloftaathugunarmenn sendu loftbelg upp frá Reykjavík í þoku snemma morguns. Óvenjulegur hiti var í háloftunum. Daginn áður var sett annað met, þá mældist hæsti loftþrýstingur sem vitað er um í júní hér á landi (1040,4 hPa í Stykkishólmi).

Hitabylgjur voru bæði óvenju margar sumarið 1939 og gætti í fleiri landshlutum en venjulegt er. Ekki var þó bara hlýtt. Um 10. júní gerði t.d. næturfrost víða inn til landsins og snjóaði langt niður í hlíðar fjalla og til heiða. Kaldir dagar komu einnig snemma í júlí og þá varð líka næturfrost á fáeinum stöðvum. Það var þann 19. júní sem hlýja háþrýstisvæðið nálgaðist landið. Hlýindin héldust í nokkra daga en færðust dálítið til milli landshluta eftir því hvort hafgolu gætti eða ekki, þ.e. hvar miðja hæðarinnar miklu var þann eða hinn daginn. Á Kirkjubæjarklaustri komu fjórir dagar í röð með yfir 20 stiga hita. Hinn 20. júní varð hámarkshitinn 21,6°C, 28,0°C þann 21., 30,2°C þann 22. og 26,6°C 23. júní.

Frá Teigarhorni í Berufirði
Hitammælaskýli á Teigarhorni.
Mynd 2. Hitamælaskýli á húsvegg á Teigarhorni í Berufirði 24. júlí 1959. Ljósmynd: Þórir Sigurðsson.
Aftur upp

Athugunarmaðurinn á Teigarhorni, Jón Kr. Lúðvíksson, las 30,3°C af mælinum þennan dag. Með færslunni fylgdi eftirfarandi pistill: „22. þ.m. steig hiti hátt eins og skýrsla sýnir. Var vel að gætt að sól náði ekki að hita mælira. Tel ég því hita rjétt mælda". Þegar hámarksmælirinn var tekinn í notkun sýndi hann 0,2°C of lágan hita, hámarkið var því hækkað um 0,2°C í útgefnum skýrslum.

Engin leiðrétting var á hámarksmælinum á Klaustri. Daginn áður varð hiti á Teigarhorni mestur 24,0°C, en daginn eftir 19,9°C. Hitinn á Teigarhorni stóð stutt, kl. 9 um morguninn var hann 14,3°C, 26,6°C kl. 15 og 14,9°C kl. 21 (miðað er við núverandi íslenskan miðtíma). Um miðjan daginn var vindur af norðvestri, 3 vindstig, mistur í lofti, en nærri heiðskírt.

Á Kirkjubæjarklaustri fór hiti niður í 11,5°C aðfaranótt 22., kl. 9 var kominn 23,4°C hiti, kl. 13 var hitinn 27,6°C og 25,8°C kl. 18. Norðanátt var um miðjan daginn, 3 vindstig, gott skyggni og nærri heiðskírt. Á Norðurlandi var hinn 21. júní víðast hlýjasti dagurinn. Á Akureyri fór hiti þá í 28,6°C í hægri vestanátt 22. júní fór hiti þar í 26,5°C.

Á Fagurhólsmýri var hámarkshiti þann 22. 28,5°C og er það methiti á þeirri stöð. Heldur svalara var vestanlands og sumar næturnar var þoka. Hiti komst þó í 20°C á Rafmagnsstöðinni við Elliðaár og í 18,7°C á Veðurstofunni þann 23. en svalara var í Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Hæsti hiti í Stykkishólmi þessa daga var 14,8°C þann 24. Inni í Dalasýslu fór hiti yfir 20°C flesta daga (23,6°C á Hamraendum þann 25) og sömuleiðis inn til landsins í Húnaþingi og Skagafirði (25,0°C á Mælifelli og 24,0°C í Núpsdalstungu, hvoru tveggja hinn 21. júní). 

Mjög hlýtt var einnig norðaustanlands þó ekki hafi verið um met að ræða á þeim slóðum. Eins og oft er í vestlægri eða norðvestlægri átt náði þokubræla Vesturlands ekki til Suðurlandsundirlendisins og Þingvalla. Í þeim landshluta var hiti víða yfir 20°C, jafnvel marga daga í röð.

Aftur upp

Met 1940?

Hitametinu frá Teigarhorni í september 1940 (36,0°C) er því miður ekki hægt að trúa eins og á stendur. Í veðurskýrslunni frá Teigarhorni í september 1940 stendur eftirfarandi: „24. þ.m. kom hitabylgja. Stóð stutt yfir. Hún kom á tímabili kl. 3-4, en stóð aðeins stutta stund. Sjómenn frá Djúpavogi urðu hennar varir útá miðum út af Berufirði". 

Á venjulegum athugunartímum var hiti sem hér segir: Kl. 9, 5,2°C, kl. 15, 13,1°C og 12,7°C kl. 22. Vindur var hægur af norðvestri og hálfskýjað eða skýjað. Hvergi annars staðar á landinu varð sérstakra hlýinda vart og almennt veðurlag gefur ekki tilefni til að vænta mætti mets. Einnig aukast efasemdir þegar í ljós kemur að eitthvað ólag virðist á fleiri hámarksmælingum á stöðinni í þessum mánuði. 

Því er hins vegar ekki að neita að stundum hegðar náttúran sér með einhverjum ólíkindum og erlendis eru dæmi um hitamælingar sem ekki eru taldar geta staðist. Þekktasta tilvikið er e.t.v. 70°C sem að sögn mældust í Portúgal snemma í júlí 1949. Þá var sagt að fuglar hefðu fallið dauðir úr lofti og frést hefur af 60°C í Texas 14. júní 1960. Þá grillaðist maís á stönglum að sögn (óvíst með poppkornið). Má vera að eitthvað ámóta komi fyrir hérlendis síðar en þangað til verða 36 stigin á Teigarhorni að liggja á lager. 

Met 1901?

Möðrudalsmetið (32,8°C) frá 26. júlí 1901 er trúlegra, en það er samt bara úr óþekktu veggskýli sem enn er ekkert vitað um hvar eða hvernig var hengt upp. Líklegra væri að hitinn hafi í raun verið 23°C. Ekkert einstaklega hlýtt var annars staðar á landinu þennan dag. 

Aftur upp

Hallormsstaður 1946

Metið á Hallormsstað 17. júlí 1946 (30,0°C) má e.t.v þakka skýlinu en vitað er að það var mjög lélegt um þær mundir, sömuleiðis var langoftast lesið í heilum og hálfum gráðum. Hiti kl. 15 þennan dag var 27,0°C og um hádegi var hiti á Egilsstöðum 24,0°C en þar voru engar hámarksmælingar.

Akureyri 1974 og 1911

Hitametið frá Akureyri 1974 (29,4°C) hefur þann kross að bera að skýlið stendur á bílastæði sem varla er hægt að telja staðalaðstæður. Á athugunartíma mældust hæst 26,5°C kl. 15. 

Frá Akureyri 1968
Frá Akureyri 1968
Mynd 3. Akureyri í júlí 1968. Stöðin var nýflutt frá gömlu lögreglustöðinni við Smáragötu upp í Þórunnarstræti. Heldur eyðilegt var í kringum stöðina til að byrja með en síðan greri svæðið upp, nema bílastæðið, það var malbikað. Byggðin þéttist einnig. Ljósmynd: Flosi Hrafn Sigurðsson.

Eldra hitametið frá Akureyri var sett 11. júlí  1911 (29,9°C) í óþekktu skýli svipað og í Möðrudal 1901, en rétt er að taka fram að enginn hámarksmælir var á staðnum heldur mældist þessi mikli hiti kl. 16 (15 skv. eldri tíma). Þetta var ekki venjulegur athugunartími en af athugasemd athugunarmanns má skilja að hann hafi fylgst með mælinum öðru hvoru þennan dag. Því er ekki víst að hámarkshitinn hafi verið öllu meiri. Sama dag mældist hiti á Seyðisfirði 28,9°C kl. 17, hámarkið er trúlega aðeins hærra. Methiti varð víða um norðan- og austanvert landið þessa daga og því rétt að trúa þessum tölum. Hiti komst í 29.1°C á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði í sömu hitabylgju.

Hvanneyri 1997

Í hitabylgjunni í ágúst 1997 mældist hámarkshiti á sjálfvirku stöðinni á Hvanneyri 30,0°. Sjálfvirkir mælar eru yfirleitt öllu vakrari en kvikasilfursmælarnir og algengt er að þeir sýni ívið hærri hámarkshita en kvikasilfursmælar á sömu stöð. Hámarkshiti á Hvanneyri var mældur 27,0°C á kvikasilfursmæli í hefðbundnu skýli yfir sama tíma. 

Met á sjálfvirkri stöð 2008

Mikil hitabylgja var víða um land í lok júlí 2008. Hiti komst í 29,7°C á Þingvöllum þann 30. Þetta er hæsta viðurkennda hámark á sjálfvirkri stöð á landinu. Methiti varð víðar um suðvestanvert landið m.a. í Reykjavík.

Met 1991?

Í hitabylgjunni í júlí 1991 komst hiti á Kirkjubæjarklaustri í 29,2°C eins og áður sagði (þann 2.). Nokkrum dögum síðar (8.) var talan 30,0°C rituð sem hámark í athugunarbók á Jaðri í Hrunamannahreppi. Sama dag mældist hámark í Hjarðarlandi í Biskupstungum 25,3°C og hiti kl. 15 var 21,8°C á Jaðri. Mjög ótrúlegt má telja að hiti á Jaðri hafi í raun náð 30 stigum þennan dag. Að auki var nokkur óreiða á veðurathugunum þessa daga og mikið um ósamræmi í athugunum. Talan hefur því ekki verið tekin trúanleg. 

Aftur upp

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica