Vík í Mýrdal
Staðsetning: 63°25.211'N, 19°00.587'V, hæð yfir sjó 15 m
Í september 2007 var veðurfarsstöðinni í Vík í Mýrdal breytt í skeytastöð sem sendir skeyti kl. 9, 18 og 21. Úrkomumælingar eru gerðar kl. 9 og 18, eins og á öðrum skeytastöðvum. Athugunarmaður er Guðný Helgadóttir og hefur hún athugað veðrið í Vík síðan 1972, eða í 35 ár.
Veðurfarsstöðin í Vík var stofnsett 1925. Þar var lengst af athugað þrisvar á dag, kl. 9, 15 og 21 (fyrir 1960 var athugað kl. 22 en ekki 21). Vík er, ásamt Vestmannaeyjakaupstað, hlýjasta veðurstöð landsins árið í heild, en ívið hlýrra er í Vík en í Vestmannaeyjum á sumrin, en kaldara á vetrum. Mjög úrkomusamt er í Vík, ársmeðalúrkoman var 2333 mm á árunum 1971 til 2000.
Hæsti hiti sem mælst hefur í Vík eru 28,5°C, 11. ágúst 1939. Af ýmsum ástæðum er þessi tala grunsamleg, en næsthæsti hiti sem mælst hefur á staðnum er 25,0°C, 21. júní 1939, daginn áður en hitamet Íslands mældist á Teigarhorni. Þar á eftir fylgja 24,4°C úr hitabylgjunni miklu í ágúst 2004.
Lægsti hiti í Vík er -16,9°C sem mældist aðfaranótt 1. apríl 1968, en þá var fádæma kalt um land allt.
Vík á sér reyndar enn lengri athugunarsögu, því Sveinn Pálsson læknir athugaði þar frá 1809 til dauðadags (1840). Mælingar Sveins í Vík voru þó mjög stopular og lögðust að mestu af 1812, þó hann hafi haldið veðurdagbók áfram. Sveinn mældi einu sinni 25°C hita í Vík, 15. ágúst 1810, en mælirinn var ekki í skýli og óvíst hvort hann var varinn beinni eða óbeinni geislun. Lægsti hiti sem Sveinn Pálsson mældi í Vík var -14,6°C, 28. janúar 1811.
Úrkomusamasta árið í Vík var 1926 með 2887 mm, litlu minna mældist 1950 (2858 mm) og 1959 (2855 mm). Þurrasta árið var 1952 með 1662 mm, litlu meira mældist 1963 (1694 mm). Mesta sólarhringsúrkoma sem fallið hefur á réttan úrkomusólarhring (til kl. 9 á mælidag frá kl. 9 daginn áður) er 150,3 mm, 9. september 1933. Er það minna en búast má við miðað við ársúrkomu og fullvíst að stöðin á meira inni.
Vík átti lengi sólarhringsúrkomumet landsins, 215,8 mm, sett á annan dag jóla 1926. Eins og nefnt var að ofan er úrkomumagn sólarhrings ætíð miðað við athugun kl. 9 að morgni. Svo vildi hins vegar til í Vík að það byrjaði að rigna kl. hálf tólf (að þáverandi ísl. miðtíma) að kvöldi 25. Um morguninn voru 122,5mm komnir í mælinn. Áfram rigndi linnulítið og kl. hálf tólf að kvöldi 26., sólarhring eftir að úrfellið hófst, mældi veðurathugunarmaðurinn úrkomuna aftur og höfðu þá 93,3mm bæst við morgunathugun. Þetta met er því ekki alveg sambærilegt við önnur sem ætíð eru fengin með mælingunni frá kl. 9 til 9. Stöðin í Vík byrjaði að athuga 1925. Mikil skriðuföll urðu í þessu úrfelli og lá m.a. við að manntjón yrði þegar skriða féll á tvo bæi að Steinum undir Eyjafjöllum.