Grímsstaðir á Fjöllum
Staðsetning: 65°38.539'N 16°07.249'V, hæð yfir sjó 384 m
Þó að veðurstöðin á Grímsstöðum á Fjöllum sé nú opinberlega hundrað ára hófust veðurathuganir á vegum dönsku veðurstofunnar þar fyrr, eða þann 1. júlí 1881, og stóðu þá samfellt út apríl 1883. Þá þegar sást að veðurfar á þessum slóðum var nokkuð ólíkt flestum öðrum stöðvum sem höfðu athugað fram til þess tíma, en því miður missti stöðin af frostavetrinum fræga 1880-1881. Mesta frost í þessari syrpu var -31,1 stig, en það var í mars 1882 og í júní sama ár komst hitinn í 20,9 stig, en sumarið 1882 var eitt hið ömurlegasta sem komið hefur um landið norðanvert. Þó meðalhiti sumarsins (júní til september) hafi ekki verið nema 4,8 stig á Grímsstöðum, var hann enn lægri í Grímsey á sama tíma, 2,9 stig. Sami meðalhiti var þetta sumar á Akureyri og á Grímsstöðum.
Næst segir af athugunum á Grímsstöðum 1. janúar 1907. Þá var nýbúið að leggja ritsíma frá útlöndum til Seyðisfjarðar og unnið var að lagningu línu til Reykjavíkur. Fyrstu veðurskeytin frá Íslandi bárust frá Seyðisfirði seint í september 1906 og um áramótin fengu veðurspámenn í nágrannalöndunum fyrst beinar fréttir frá uppsveitum á Íslandi. Frá Reykjavík fréttist ekkert fyrr en tæpum fjórum vikum síðar.
Í árslok 1908 féllu skeytasendingar niður í þrjá mánuði og skömmu síðar var Grímsstaðastöðin dubbuð upp í að verða ein af svokölluðum aðalstöðvum á Íslandi (Hovedstation). Sumarið 1909 fór Dan B. la Cour, sem síðar varð forstjóri Dönsku veðurstofunnar og heimsþekktur vísindamaður, í eftirlitsferð um Ísland og kom m.a. að Grímsstöðum. Hann bar staðarmönnum vel söguna, en fannst staðsetning loftvogarinnar einkennileg, því fara þurfti upp í rúm til að lesa af. Það var að sögn til að halda barnaskara frá tækinu og ekki annað að sjá en að la Cour þætti þetta skynsamlegt.
Úrkomumælingar hófust sumarið 1910, en voru svo stopular allt fram til 1936 að ekki hefur tekist að búa til árssummur og trúverðugar mánaðasummur eru aðeins á stangli. Fyrr á árum (fyrir 1960) var oft lítið hugað að úrkomumælingum í mjög löngum þurrkaköflum og alveg þurrir mánuðir eru því fleiri en trúverðugt er. Segja má að öll mánaðagildi sem eru undir 1 mm heildarúrkomu þurfi varúðar við, ekki aðeins á Grímsstöðum heldur einnig annars staðar. Mánaðameðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum °C 1907 til 2012 fylgir.
Sigurður Kristjánsson er einn fárra athugunarmanna sem stóð vaktina í meir en 50 ár, byrjaði 1907, en lést í fullu starfi 1959.
Athugunarmenn á Grímsstöðum:
-
Guðmundur Árnason 1881-1883
-
Sigurður Kristjánsson 1907-1959
-
Aðalbjörg Vilhjálmsdóttir 1959-1985
-
Gunnlaugur Ólafsson 1985-1990
-
Sigríður Hallgrímsdóttir frá 1990
Nokkur útgildi á Grímsstöðum:
Lægsti hiti: -38,0°C 21. janúar 1918 (kuldamet Íslands).
Hæsti hiti: 28,1°C 12. júlí 1911
Mesta sólarhringsúrkoma: 44,8 mm 15. september 2010.
Kaldasti mánuður: janúar 1918 -16,4°C
Hlýjasti mánuður: júlí 1991 12,3°C
Kaldasta ár: -1,8°C 1979
Hlýjasta ár: 2,6°C 1933
Þurrasta ár: 241 mm 1939 (ársummur úrkomu vantar alloft)
Votasta ár: 544 mm 1961
Þurrasti mánuður: Nokkrir mánuðir hafa verið úrkomulausir á Grímsstöðum, sá síðasti var maí 1977.
Votasti mánuður: 130,9 mm, ágúst 1936
Sjá einnig fróðleikspistil um mesta mælt frost á Íslandi.
Sjá Grímsstaða getið vegna fannfergis í tíðarfarsyfirliti nóvembermánaðar 2012.