Hæsti hiti í Reykjavík
Íslensk veðurmet 8
Hæsti hiti sem mælst hefur við staðalaðstæður í Reykjavík er 24,8°C, 11. ágúst 2004. Þá mældust 25,7°C á sjálfvirkan mæli í Veðurstofureit. Þá mældist einnig hæsti hiti á höfuðborgarsvæðinu, 27,7°C, á Miðdalsheiði.
Hitabylgjan óvenjulega í ágúst 2004
Metið var sett í óvenjulegri hitabylgju sem stóð dagana 9. til 14. ágúst 2004. Mörg hitamet féllu þá um allt suðvestanvert landið, inn til landsins í öðrum landshlutum, sem og á miðhálendinu. Einnig féllu met norðan til á Vestfjörðum og á Ströndum.
Óvenjulegir hitar voru í háloftunum þessa daga og meðalhiti í neðstu 6 kílómetrum lofthjúpsins hefur aldrei orðið hærri yfir Keflavík síðan samfelldar háloftaathuganir hófust þar 1952.
Í Reykjavík var veðurstöðin ýmist inni í hlýja loftinu eða þá mun svalara sjávarlofti utan af Faxaflóa. Miklar hitasveiflur urðu við umskiptin og gengu þau hvað eftir annað fram og til baka yfir borgina. Það var athyglisvert að litlu virtist skipta hvort nótt var eða dagur, þann 9. var heita loftið ráðandi frá kl. 9 til 11 um morguninn, þann 10. aftur á móti frá kl. 4 til 7 að morgni og aftur frá kl. 23 um kvöldið, þann 11. réði hlýja loftið að mestu fram yfir kl. 18 og þann 12. frá kl. 9 til 15.
Hæsti hiti á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík var 0,9°C hærri en á þeirri mönnuðu (25,7°C) þó aðeins fáir metrar séu á milli þeirra. Um ástæður þessa munar verður ekki fjallað hér.
Við lestur eldri metalista kemur í ljós að þessi hitabylgja er í hópi þeirra almestu sem yfir landið hafa gengið síðan mælingar hófust og er sambærileg við hitabylgjurnar í júní 1939 og í júlí 1944 og 1991. Einnig er óvenjulegt hversu marga daga hitabylgjan stóð. Hiti komst yfir 20 stig í fjóra daga í röð í Reykjavík sem mun einsdæmi. Þann 9. 20,7°C, þann 10. 20,9°C, þann 11. 24,8°C og þann 12. 22,2°C. Tvisvar er vitað um 20 stig þrjá daga í röð, það var í júlí 1939 og í ágúst 1893. Landssamanburður við eldri hitabylgjur er erfiður.
Aftur uppGamla hitametið 1976
Næsthæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík síðan Veðurstofan tók til starfa var 9. júlí 1976, 24,3°C. Hiti var kominn upp í 20° strax fyrir hádegi (20,5° kl. 12), kl. 15 var hitinn 22,4° og 24,1° kl. 18. Kl. 21 var hiti enn 20,6°. Vindskafin netjuský þöktu himininn að meira en hálfu leyti en lágský voru engin. Mistur var í lofti og nokkuð ákveðin austanátt. Um hádegið var vindhraði 9,3 m/s en síðar um daginn var vindur hægari. Aldrei þessu vant var hlý austanáttin hafgolunni sterkari. Daginn eftir var léttskýjað en austanáttin dottin niður og vindur blés hægur af vestri, mistrið var þykkara, en hitinn komst aðeins í 16,7 stig. Það var reyndar strax milli 9 og 10 um morguninn. Síðdegis var hitinn 12 - 15 stig. Tveimur dögum síðar (þann 12.) tókst næstum að rjúfa 20 stiga múrinn aftur, en þá var aftur austanátt, reyndar með meiri lágskýjum og nokkrum rigningardropum. En hiti komst í 19,6 stig.
Aðrir hlýir dagar í Reykjavík 1961 til 2007
Sumarið 1976 voru liðin sextán ár síðan hiti fór síðast í 20 stig í Reykjavík, en það var 8. júlí 1960. Þann 5. ágúst 1969 munaði þó sáralitlu, hiti fór þá í 19,9 stig. En 1976 þurfti ekki að bíða alveg jafnlengi eftir næstu 20 stigum, eða aðeins rúm 4 ár. Óvenjuleg hlýindi gerði dagana 30. og 31. júlí. Hiti fór í 23,7 stig fyrri daginn en 23,0°C hinn seinni. Nóttin er sú hlýjasta sem vitað er um í Reykjavík. Lágmarkshiti var 18,2°C.
Auk hitabylgjunnar miklu 2004 hefur hiti eftir 1980 komist í 20 stig í eftirtalin skipti: 27. júlí 1990 (20,4°C), 6. júlí 1991 (20,0°C), 7. júlí 1991 (22,1°C), 9. júlí 1991 (23,2°C), 31. júlí 1991 (20,7°C), 3. júlí 1995 (20,5°C), 11. júní 2002 (22,4°C), 21. júní 2004 (20,3°C) og 13. júlí 2007 (20,5°C). Í síðastnefnda skiptið var hiti hæstur eftir kl. 18 og því er talan skráð sem hámark næsta dags á eftir.
Árin 1949 til 1960
Á fyrri árum Veðurstofunnar komst hiti öðru hvoru upp í 20 stig. Í júní 1949 gerði óvenjulega hitabylgju eftir kalt og hretasamt vor. Þá komst hiti í Reykjavík í 20 stig tvo daga, 20. (20,2°C) og 22. (20,4°C), litlu kaldara var 21. (19,3°C). Þann 17. júlí 1950 komst hiti í 23,1 stig, 6. júní 1954 í 20,7°C, þann 2. júní 1955 í 20,5°C og 20,9°C hinn 20. júlí 1958. Síðasttalda hámarkinu var náð eftir kl. 18 og í „Veðráttunni“ segir því að hámarkið hafi orðið hinn 21., en það stafar af því að 20,9°C voru lesin af hámarksmælinum kl. 9 um morguninn, en hámarksmælar eru stilltir af kl. 9 og 18. Rétt er að benda óvönum lesendum „Veðráttunnar“ á þennan ókost hámarksuppgjörsins. Í maí 1960 komu óvenjuhlýir dagar, hiti komst hæst í 20,7 stig þann 14. og hiti fór einnig í 20,1 stig þann 8. júlí 1960.
Árin 1920 til 1948
Á þriðja áratug aldarinnar náði hiti 20 stigum aðeins einu sinni. Það voru 20,3 stig 6. júlí 1927. Síðan liðu 7 ár þar til 1934 að hiti komst tvisvar í 20 stig, 8. júlí (20,1°C) og 16. ágúst (20,1°C). Júlímánuður 1936 var óvenjuhlýr og komst hiti þá tvo daga upp í 20 stig. Fyrst hinn 4. (21,9°C) og síðan þann 13. (20,0°C). Hinn 11. júlí árið eftir (1937) fór hiti í 20,4°C. Sumarið 1939 er lengi í minnum haft. Þá komst hiti í 20 stig í Reykjavík 6 sinnum, 11. júlí (20,0°C), 24. júlí (21,9°C), 25. júlí (21,6°C), 26. júlí (22,1°C), 31. ágúst (21,4°C) og 3. september (20,1°C). Hámarkið þann 24. júlí kom eftir kl. 17 (18 skv. núverandi tímaskipan) og skráðist því á 25., en hiti þann dag komst hæst í 21,6°C (sem er nokkuð gott). Á afmælisdegi Reykjavíkur 1941 komst hiti í 20,2 stig. Góð hitabylgja kom síðari hluta júlímánaðar 1944 og þá náði hiti í Reykjavík 20 stigum bæði þann 20. (20,0°C) og þann 21. (20,3°C). Rigningasumarið 1947 kom ein stutt hitabylgja á Vesturlandi meðan á Snorrahátíð í Reykholti stóð. Hiti komst þá í 20 stig í Reykjavík bæði 21. (20,3°C) og 22. (20,1°C).
Á árunum 1920 til 1931 voru mælingar í Reykjavík gerðar í skuggsælum bakgarði við Skólavörðustíg, en í september síðara árið var flutt í Landsímahúsið við Austurvöll (Saga Veðurstofu Íslands, bls. 66). Þar var mælum komið fyrir á þaki hússins. Þó þessi staður hafi verið óheppilegur af mörgum ástæðum er ekki víst að hann hafi stuðlað að því að hámörk hafi hækkað á sólardögum á sumrin. Þó meðalhiti ársins hafi líklega verið ívið of hár í þessu mælaskýli miðað við nútímaútfærslu er engin sérstök ástæða til að ætla að hæsti hiti ársins hafi verið eitthvað grunsamlegur á þessum Landsímahússárum. Frá 1945 var veðurstöðin í nokkur ár við Sjómannaskólann í svipuðum aðstæðum og nú eru við Veðurstofuhúsið. Árið 1950 flutti athugunarstöðin á flugvöllinn og 1973 á núverandi stað við Bústaðaveg.
Aftur uppReykjavíkurstöðin fyrir 1920
Saga veðurstöðvarinnar í Reykjavík fyrir 1920 er nokkuð köflótt. Á árunum 1865 til 1920 virðast hámarkshitamælar ekki hafa verið notaðir. Fyrir 1880 var ekkert veggskýli notað, en mælunum komið fyrir á norðurvegg húsa, síðast á Menntaskólahúsinu. Ýmislegt bendir til þess að vandræði hafi verið með sólgeislun sem varpaðist óbeint á mælana. Þrátt fyrir þetta eru hámörk tímabilsins 1871 til 1879 ekkert sérstaklega ótrúverðug.
Veggskýli var komið á Menntaskólann vorið 1880, en í lok ársins 1884 getur verið að sett hafi verið upp fríttstandandi skýli við Aðalstræti. Í því var hitasíriti sem gekk meira og minna til 1907. Skýlið var komið upp á Bergstaðastræti 1909, en ekki er vitað hvenær stöðin var flutt. Hitasíritinn var stilltur af með samanburði við lágmarksmælingar á þessum árum. Trúlega eru mælingar hans ekki fjarri lagi og á móti kemur að lesið var af síritanum á klukkustundar fresti og líklegt að hann hafi þess vegna ekki alltaf náð ítrasta hámarki dagsins.
Um skeytastöðina í Reykjavík 1907 til 1920 er fjallað í pistlinum um lágmarkshita í Reykjavík, en til viðbótar því er rétt að geta þess að hiti um miðjan daginn var þá yfirleitt í hærra lagi miðað við hita árla morguns, þó árshámörk séu mjög trúverðug.
Hlýir dagar 1871 til 1919
Á árunum 1871 til 1919 fór hiti nokkrum sinnum yfir 20 stig. Það gerðist aðeins einu sinni á árunum 1871 til 1890, það var 18. ágúst 1876, en þá var hitinn á hádegi (u.þ.b. 13:30 eftir núverandi tímahætti) 21,6 stig. Þetta var, fram til 2004, hæsti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í ágúst, óvenjuheitt var þá víða um land.
Sumarið 1891 komu margir hlýir dagar. Hiti fór fyrst í 20. stig hinn 9. júní (22,3°C), síðan 24. júní (24,7°C), 25. júní (20,4°C) og að lokum 17. júlí (20,7°C). Mælingin þann 24. var hæsti hiti í Reykjavík frá 1871 þar til nýja metið kom í ágúst 2004. Óvissa er þó í kvörðun síritans sem og því að umbúnaður í mælaskýli er ekki þekktur. Kl. 17 þennan dag var hiti 24,2°C og alls ekki er útilokað að hefði hámarksmæling farið fram hefði hún rofið 25°C stiga múrinn.
Þrír mjög heitir dagar komu í ágúst 1893, 11. (20,2°C), 12 (21,1°C) og 13. (20,1°C) og óvenjuheitir dagar voru í upphafi júlímánaðar 1894, þann 1. (20,8°C) og 2. (23,8°C). Síðari dagurinn er einn af þeim hlýjustu í Reykjavík þegar litið er á sólarhringinn í heild því meðalhiti dagsins var 18,8 stig. Hiti fór í 20 stig strax kl. 7 um morguninn og var yfir 20 stigum samfellt fram yfir kl.18 og var yfir 23 stigum frá því fyrir kl. 12 þar til eftir kl. 16. Sannarlega óvenjulegur dagur.
Nú varð aftur lengra á milli 20 stiga daga. Þeir næstu komu 26. maí 1901 (20,2°C), 26. júlí 1903 (20,6°C), 19. maí 1905 (20,7°C), 24. júní 1911 (21,6°C), 15. ágúst 1912 (20,9°C), 14. ágúst 1914 (20,3°C) og 31. júlí 1918 (21,2°C). Svo þurfti að bíða í 9 ár eftir 20 stigum eins og fram kom að ofan.
Aftur uppEnn eldri mælingar
Jón Þorsteinsson landlæknir athugaði hita í Reykjavík (um tíma í Nesi við Seltjörn) á árunum 1820 til 1854. Mælar hans voru, eftir því sem næst verður komist, heldur lægra yfir jörð en nú tíðkast, auk þess sem þeir voru ekki í neinu skýli. Jón var með hámarksmæli um tíma, en síðar fylgdist hann (eða staðgengill hans) með mælunum mestallan daginn og skráði hæsta gildi sem hann sá.
Hiti fór alloft í 20 stig á tíma Jóns, það oft að stappar nærri fullvissu að mælar hans hafi sýnt of hátt miðað við núverandi staðalaðstæður í sólskini um miðjan daginn. Hann mældi hins vegar hæsta hita sem mælst hefur í Reykjavík. Það var dagana 18. og 19. júlí 1842. Fyrri daginn var hámarkshitinn 22°R og hinn síðari 21°R. Fyrri talan jafngildir 27,5 stigum á Celsíus, en hin síðari 26,3 stigum. Sennilegt er að þessir tveir dagar séu í raun meðal þeirra allra heitustu í Reykjavík. Veðrið var „hámarkavænt“, suðaustan strekkingsvindur og léttskýjað. Svo vill til að fleiri mælingar voru gerðar á landinu þessa daga. Á Ofanleiti í Vestmannaeyjum mældist hiti 14°R, í Odda mældust 26°C, 29°C á Valþjófsstað í Fljótsdal, 25°C á Hvammi í Dölum og 25°R á Melum í Melasveit. Síðasta talan jafngildir 31,3°C. Vel má vera að mælirinn á Melum hafi í raun verið Celcíusmælir, slíkur ruglingur kom fyrir. Rasmus Lievog í Lambhúsum athugaði hæst 24,7°C 10. júlí 1789.
Aftur upp