Alþjóðaveðurdagurinn 2008
Mikilvægi veðurathugana og mælinga
Alþjóðaveðurdagurinn 23. mars hefur verið haldinn hátíðlegur hjá veðurstofum víða um heim ár hvert frá stofndegi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO þennan dag 1950. Í ár er dagurinn tileinkaður veðurathugunum undir kjörorðinu "Jörðin skráð og skoðuð til bættrar framtíðar" (Observing our planet for a better future) og er þá vísað til mikilvægis veðurathugana og mælinga.
Með þessu er WMO að leggja áherslu á vísindalegt og fjárhagslegt mikilvægi framlags þeirra stofnana sem starfa að veður- og vatnafræðilegum athugunum og öðrum verkefnum á þeim sviðum úti um allan heim.
Veðurathuganir í 350 ár
Fyrstu skrefin til kerfisbundinna athugana og mælinga á veðrinu voru stigin um miðja 17. öld og árið 1654 var fyrsta alþjóðaveðurathugunarkerfið sett á laggirnar. Sjö stöðvar, þar af þrjár á N-Ítalíu, auk Parísar, Varsjár, Innsbruck og Osnabruck, voru reknar í 12 ár með samræmdum aðferðum og mælitækjum til veðurathugana.
Mjög er mismunandi hversu lengi eða samfellt veðurathuganir voru gerðar á einstökum stöðum víðs vegar um heiminn næstu tvær aldirnar eða svo. Til eru staðir sem eiga sér meira en 250 ára samfellda veðurathuganasögu en segja má að reglulegt og samhæft athuganakerfi í Evrópu fari ekki að byggjast upp fyrr en um og eftir miðja 19. öld.
Hér á landi eru elstu heimildir um reglubundnar veðurathuganir frá 1749 á Bessastöðum en þar voru þá gerðar athuganir um tveggja ára skeið. Allvíða á landinu var veðrið mælt, skoðað og skráð um lengri eða skemmri tíma þar til 1845 er mælingar hófust í Stykkishólmi. Síðan þá hafa verið stundaðar samfelldar mælinga þar og er sú mælingasaga ein hin merkasta í náttúrufarssögu Íslands.
Heimskerfi veðurathugana
Upp úr 1960 beitti WMO sér fyrir verkefni sem fólst í því að setja upp í samstarfi við ríkisveðurstofur heimsins samræmt heimskerfi veðurathugana eða World Weather Watch, WWW. Þetta verkefni, sem er það mikilvægasta sem WMO heldur utan um, nær yfir hvers kyns athuganir og mælingar á veðri og eiginleikum andrúmslofts. Sömuleiðis tekur það til stöðlunar á mæliaðferðum og mælitækjum, greiningu, úrvinnslu og dreifingu gagna um veður og aðra þætti sem falla að starfsemi veðurstofa.
Nú taka öll 188 aðildarríki WMO þátt í þessu verkefni sem hefur þróast, stækkað og tekið breytingum í takt við þá miklu byltingu sem orðið hefur í upplýsingatækni á liðnum áratugum. Þetta samstarf á sér ekki hliðstæðu í alþjóðlegri samvinnu, og innan stofnana Sameinuðu þjóðanna er WMO talin vera fyrirmynd um árangursríkt alþjóðlegt samstarf.
Á síðasta áratug eða svo hafa mælingar og athuganir á veðri og hinum ýmsu þáttum andrúmslofts vaxið mjög. Sjálfvirkar veðurathuganir á landi og sjó gegna sífellt stærra hlutverki og hafa víða tekið að nokkru leyti við af mönnuðum athugunum. Samvirk veðurratsjárkerfi skanna nú heilu löndin eða álfurnar og veðurgervitungl senda sífellt nákvæmari og víðtækari gögn til jarðar um ástand lofthjúpsins og yfirborðs jarðar. Þá sendir hluti af flugflota heimsins upplýsingar um veður í háloftunum með sjálfvirkum hætti.
Öllu þessu mikla gagnasafni er síðan safnað saman og dreift um heiminn með víðfemu upplýsingakerfi, WMO Information System. Eru þessi gögn nýtt til að reikna veðurspár í mismikilli upplausn til mislangs tíma, auk þess sem þau eru grunnur að kortlagningu veðurfars jarðarinnar, breytileika þess og þróun.
Aftur upp
Þátttaka Veðurstofu Íslands
Ísland er á einu veðurvirkasta svæði norðurhvels jarðar og lætur því að líkum að Veðurstofan tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði veðurathugana. Raunar er það svo að Íslendingar, fámenn þjóð í stóru landi með víðáttumikla efnahagslögsögu, leggja meira til veðurathugana en nokkur önnur þjóð heimsins, sé tillit tekið til fólksfjölda.
Nú rekur Veðurstofan um 50 mannaðar veðurstöðvar, aðrar 50 mannaðar úrkomustöðvar, um 110 sjálfvirkar veðurstöðvar, háloftastöð á Keflavíkuflugvelli, svo og veðurratsjá á Miðnesheiði, auk ýmissa sérmælinga.
En hagsmunir okkar eru líka miklir í því að aðrar veðurstofur taki þátt í samstarfi um veðurvöktun, ekki síst á Norður-Atlantshafi. Fyrir um 13 árum var stofnað til formlegs athuganasamstarfs evrópskra veðurstofa, EUCOS (EUmetnet Composite Observing System), um að auka veðurathuganir á hafsvæðum Evrópu, einkum N-Atlantshafi.
Hefur Veðurstofan lagt þessu verkefni lið, aðallega á sviði athugana með rekstri rekdufla og veðurathugunum á skipum, ekki síst háloftaathugunum frá einu skipi Eimskipafélagsins sem siglir milli Íslands og N-Ameríku. Þá er í undirbúningi aukið samstarf við Icelandair um sérstakar athuganir úr flugvélum félagsins.
Veður og vatn
WMO er ekki einungis alþjóðastofnun um samstarf í veðurfræði, heldur einnig í vatnafræði. Einkunnarorð stofnunarinnar eru veður, vatn og loftslag og vísar þar til stærstu málaflokka sem undir stofnunina heyra. Alþjóðadagur vatnafræðinnar er 22. mars og liggja því dagar vatns og veðurs saman.
Eins og alþekkt er vefjast þræðir vatns og veðurs náið saman í náttúrunni og móta með ýmsum hætti allt líf á jörðinni. Þá má rekja um 90% allra náttúruhamfara í heiminum til veðurs, vatns og vatnsleysis. Með þetta í huga er sérstakt fagnaðarefni að hér á landi skuli hafa verið ákveðið að sameina Veðurstofu Íslands og Vatnamælingar frá næstu áramótum.
Slík sameining gefur tækifæri til samlegðar og aukins ávinnings á fjölmörgum sviðum náttúruvöktunar, þjónustu, rannsókna og ráðgjafar. Þá skiptir máli að nánast öll náttúruvá verður vöktuð af sameinaðri stofnun þar sem fyrir er á Veðurstofunni rekstur á kerfum sem fylgjast með jarðhræringum og eldsumbrotum.
Lokaorð
Ísland býr við miklar auðlindir sem tengjast veðri og vatni. Sjálfbær nýting þeirra byggist m.a. á athugunum og mælingum, rannsóknum og ráðgjöf. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að efla á næstu árum gagnaöflun um umhverfi og náttúru Íslands. Því ber að fagna á dögum vatns og veðurs.
Aftur upp