Blönduós
Stutt saga stöðvarinnar
Danska veðurstofan stofnaði veðurfarsstöð á Blönduósi 1. september 1887, í þeirri lotu var athugað fram til ágústloka 1890. Veggskýli hefur sennilega verið á stöðinni. Í nóvember 1906 var þar sett upp ein af fyrstu veðurskeytastöðvum landsins en hún starfaði aðeins til 1911. Utan um hitamælinn var lítill kassi sem notaður var á fleiri skeytastöðvum, í þessu tilviki var hann hengdur á símastaur. Athugunartímar voru nokkuð óreglulegir, eins og algengt var á skeytastöðvum fram yfir 1945.
Athuganir hófust aftur undir árslok 1927 og Blönduós hélt áfram að vera skeytastöð. Athugað var kl. 9, 15 og 22, miðað við núverandi klukku. Trúlega hefur verið notast við veggskýli. Sömu athugunartímar héldust allt til 1932 er einnig var farið að athuga kl. 18. Klukkan 7 og 13 bættust við vorið 1941, en athugunin klukkan 13 færðist til kl. 12 árið 1944 og athugunin klukkan 7 til klukkan 6 sumarið 1947, þá var einnig byrjað að athuga klukkan 24. Árið 1951 færðist kvöldathugunin, sem gerð var klukkan 22, til 21.
Fríttstandandi skýli
Í júlí 1951 var sett upp fríttstandandi skýli. Í janúar 1955 var hætt að athuga klukkan 6 og eftir að athuganir fluttust að Hjaltabakka var ekki athugað klukkan 15. Frá maí 1963 komst nokkurt los á athuganir og stöðin virðist hafa verið flutt austur fyrir Blöndu. Athuganir á Blönduósi lögðust af 1965.
Árið 1967 var farið að athuga á Hjaltabakka og þar var athugað næstu árin (til 1978), los var aftur á athugunum 1978 til 1981, en flestir mánuðir skiluðu sér, nema þrjá mánuði vantar 1981. Flutningarnir virðast valda hniki í mæliröðinni, en ekki er leiðrétt fyrir því að sinni. Mánaðameðaltöl hafa verið borin saman við Hlaðhamar og Akureyri. Mannaðar athuganir lögðust af í október 2003.
Sjálfvirkar mælingar
Sjálfvirka stöðin byrjaði í september 2003 og hefur rekstur hennar gengið vel síðan, hún er í um 8 metra hæð yfir sjó. Síðasta mannaða stöðin var talin í 23 metra hæð yfir sjó. Frá því í febrúar og fram til september virðist vera 0,2 til 0,5°C kaldara á sjálfvirku stöðinni heldur en var á þeirri mönnuðu.
Vegagerðin setti upp stöð nærri vegamótum Norðurlands- og Skagastrandarvega 1998 í um 40 metra hæð yfir sjó og er staðurinn stundum kenndur við bæinn Breiðavað. Í júní og júlí er mjög lítill munur á meðalhita á stöð Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar, en í öðrum mánuðum er um 0,2 til 0,4°C kaldara á Vegagerðarstöðinni. Á ársgrundvelli er munurinn 0,25°C og skýrist hann sennilega af hæðarmun stöðvanna.
Vindhraði er meiri á stöð Vegagerðarinnar og sérstaklega munar á tíðni hvassviðra. Á árunum 2004 til 2008 voru að meðaltali 65 hvassviðrisklukkustundir (mesti 10-mínútna meðalvindur klukkustundar) á stöðinni í bænum, en 357 á Vegagerðarstöðinni. Þessi mikli munur veldur því að oft er talað um hvassviðri eða ofsaveður á Blönduósi þegar þar er viðráðanlegt veður, en ofsinn allur utan við bæinn. Það er því óheppilegt að almennt sé talað um Vegagerðarstöðina sem Blönduós. Eins og vonlegt er er fólk á staðnum óánægt með stöðu mála.
Mesti 10-mínútna meðalvindur sem mældist austan Blönduóss á árabilinu 2004 til 2008 var 39,8 m/s en 28,2 m/s er það mesta sem mælst hefur í bænum. Mesta hviða á Vegagerðarstöðinni á þessum tíma er 46,9 m/s en 37,7 m/s í bænum.
Skagaströnd 1876 til 1883
Danska veðurstofan rak veðurfarsstöð á Skagaströnd á árunum 1876 til 1883, allmikið vantar þó í þá röð, t.d. allt árið 1881. Stöðin gefur samt mikilvægar upplýsingar frá síðari hluta 8. áratugar nítjándu aldar því veðurstöðvar voru þá mjög fáar á landinu.
Athugunarmenn
Blönduós | byrjar | endar |
Bogi Sigurðsson | 1887 | 1888 |
Vilhjálmur M. Jónsson | 1888 | 1890 |
Zophonías Hjálmsson | 1907 | 1911 |
Fritz H. Berndsen | 1927 | 1930 |
Halldór Albertsson | 1930 | 1933 |
Jón Einarsson | 1930 | 1930 |
Jón Kristófersson | 1933 | 1935 |
Þuríður Sæmundsen | 1935 | 1963 |
Þorsteinn Matthíasson | 1963 | 1965 |
Sigurunn Þorfinnsdóttir | 1965 | 1965 |
Grímur Gíslason | 1978 | 1979 |
Sesselja Svavarsdóttir | 1978 | 1978 |
Björn Halldórsson | 1979 | 1980 |
Grímur Gíslason | 1981 | 2003 |
Hjaltabakki | ||
Jón Þórarinsson | 1967 | 1981 |