Vindkælitafla
Meðfylgjandi vindkælitafla er byggð á mælingum á varmatapi frá andliti. Álagsmælingar voru gerðar í vindi við andlit (í um 1,7 m hæð frá jörð). Í töflunni er miðað við vindhraða í 10 m hæð, búið er að leiðrétta fyrir hæðarmun. Viðmiðunarvindhraði er 1,33 m/s (4,8 km/klst).
Varnaðarorð um notkun töflunnar
Varast ber að treysta á töfluna í blindni því hún tekur ekki til allra kælingarvalda utandyra.
Ef kalt og þurrt er í veðri tapast um lungun um það bil fimmti hluti þess varma sem líkaminn glatar. Taflan segir ekkert um þá kælingu, en lítið er við henni að gera með auknum klæðnaði. Það hjálpar þó eitthvað til skamms tíma að anda í gegnum klúta þannig að loftið hitni lítillega og taki í sig raka áður en það fer niður í lungu.
Öndunarvamatapinu má skipta í tvennt: Í fyrsta lagi þarf að hita upp loft að utan og í öðru lagi gufar mikið upp af vatni úr lungunum þegar þurrt loft, sem fer inn, hitnar og „dregur í sig raka“ sem síðan fer að nokkru leyti út með loftinu aftur. Uppgufunin krefst mikillar orku og hún tapast að mestu út úr líkamanum.
Ef líkaminn er undir álagi, þannig að viðkomandi mæðist, magnast hitatapið upp og getur orðið mjög alvarlegt. Þannig getur skipt verulegu máli hvort þeir sem leita á fjöll eru í góðri þjálfun eða ekki. Þrekmikill maður verður miklu síður fyrir mæði en hinn. Sama fjall getur verið þreklitlum manni mun erfiðara viðfangs í kulda að vetrarlagi en í sumarblíðu þó vindur sé sá sami.
Leiðbeiningar með vindkælitöflu
- Lítil vindkæling: Lítil óþægindi vegna vindkælingar. Þó nauðsynlegt að vera í vindheldum hlífðarfatnaði ef hvasst er.
- Nokkur vindkæling: Nokkur óþægindi vegna vindkælingar. Mikilvægt að klæðast hlýjum fatnaði og vatns- og vindheldum hlífðarfatnaði yst. Húfa og vettlingar nauðsynleg og hlýir skór. Forðist hreyfingarleysi.
- Mikil vindkæling: Veruleg óþægindi vegna vindkælingar. Nauðsynlegt að klæðast mjög hlýjum og góðum fatnaði; ull, flís og öflugum hlífðarfatnaði. Góð hetta, sem hylur andlit að mestu, og vindheldir vettlingar. Það getur verið umtalsverð hætta á ofkælingu og kali, sérstaklega ef mjög hvasst er.
- Mjög mikil vindkæling: Alvarleg vandamál vegna vindkælingar. Góður vindheldur kuldafatnaður nauðsynlegur, fóðraður með flís eða dún. Samfestingur (t.d. snjósleðagalli) eða úlpa og hlífðarbuxur. Huga þarf sérstaklega að skófatnaði og vettlingum með það í huga að verjast kali á tám og fingrum. Í vindi er nauðsynlegt að hylja andlit því kalblettir geta myndast þar á nokkrum mínútum.
Vætukæling - vosbúð
Einnig þarf að huga að vætu og þeirri kælingu sem hún getur valdið. Áhrif hennar eru einkum þrenns konar:
- Einangrunargildi fatnaðar minnkar. Rök og blaut föt auka mjög áhrif vindkælingar.
- Nokkur líkamsvarmi glatast við það að breyta vatni í blautum fötum í vatnsgufu (eim). Kælandi áhrif til uppgufunar verða þó sjaldnast mjög alvarleg nema við verstu aðstæður.
- Líkamsvarmi tapast við að bræða snjó eða skafrenning.
Snjór á og í fötum eða líkama eykur önnur kæliáhrif. Skafrenningur er varasamur þar sem hann festist auðveldlega við föt. Lágarenningur er sérlega viðsjáll þar sem oft virðist veður vera gott við slíkar aðstæður. Kæling fóta getur þá orðið hættulega mikil þar sem snjórinn getur farið að bráðna vegna varma frá fótunum. Mikla orku þarf í snjóbræðsluna og kemur hún öll frá líkamanum.
Aldrei ætti að leggja í fjallaferðir eða ferðir milli landshluta að vetrarlagi nema að hafa viðeigandi hlífðarfatnað með í för. Ef farið er út að moka snjó í skafrenningi ætti ætíð að vera í hlífðarbuxum. Þótt ótrúlegt megi virðast gengur mokstur þá miklu betur. Einnig er óráðlegt að slökkva þorsta með snjó.
Lúmsk hætta liggur einnig í leyni þegar menn koma kaldir og hraktir inn í upphitaða bíla. Snjór í fötum bráðnar þá hratt og bleyta gufar upp. Reikna má með að jafnmikið af þeim varma sem í þetta fer komi frá líkamanum eins og frá miðstöð bílsins. Best er að fara strax í þurr föt sé þess kostur og láta miðstöð bílsins eina um að bræða úr fötunum og þurrka þau.
Minnt skal á að úrkoma af öllu tagi er algeng hérlendis en sem betur fer er til góður klæðnaður til að verjast henni.
Ítarefni
Finna má ítarlegar upplýsingar um vindkælingu og vandamál tengd henni á vefsetri Kanadísku umhverfisstofnunarinnar. Reikniaðferðum eru gerð skil í fróðleiksgrein Trausta Jónssonar.