Eldbólstrar
Pyrocumulus
Afmarkað hitauppstreymi, svo sem frá eldgosum, gróðureldum eða stórum iðjuverum, myndar oft sérstaka bólstra. Í uppflettibókum hafa þeir fengið heitið pyrocumulus, það útleggst sem eldbólstur (eða eldbólstri). Bólstrar þessir hafa þó ekki komist formlega inn í skýjaflokkunarkerfi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.
Bragðmunur er á skilgreiningum bandaríska veðurfræðifélagsins (AMS) og bresku veðurstofunnar (UKMO). Sú bandaríska segir (í lauslegri þýðingu): Pyrocumulus (eldbólstrar): Bólstraský sem myndast við hitauppstreymi frá eldi eða aukið uppstreymi vegna losunarstróka frá bruna í iðjuverum.
Breska skilgreiningin: Pyrocumulus (eldbólstrar) er nafn sem stundum er notað á bólstraský sem myndast yfir ákafri hitauppsprettu við jörð, svo sem orkuveri eða gróðureldi. Það er ekki hluti af opinberu skýjaflokkunarkerfi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og er, hvað sem öðru líður, óheppileg samsuða grísku og latínu.
En hvernig á að greina á milli eldbólstra og annarra bólstra? Aldraður maður, sem ég hitti á Laugarvatni 1970, hafði séð nokkur eldgos frá heimili sínu, þar á meðal Kötlugosið 1918 og Heklugosin 1947 og 1970. Hann sagði mér að gosmökkur liti talsvert öðruvísi út heldur en skúraský, bólstraeiningarnar væru smágerðari og afmarkaðri í gosmökkum. Þegar ég sá gosmökkinn frá Heklugosinu 1980 úr Reykjavík komst ég að því sjálfur að þetta er alveg rétt. Það er beinlínis tilgerðarlegt að tala um eldbólstur þegar við eigum við stóran gosmökk.
Eldur eða heitt hraun getur myndað venjulegt bólstraský. Sé hitinn jafnframt að bræða ís eða sjóða vatn ná bólstrarnir alveg niður að uppsprettunni þótt engin önnur ský í nágrenninu geri það. Skýjadropar myndast trauðla án þéttikjarna. Aska, ar og agnúði (t.d. brennisteinssýrudropar), sem fylgja eldgosum, jafnvel þeim minnstu, auðvelda þéttingu og ský geta því myndast yfir gosstöðvum eða skógareldum þar sem engin hefðu annars getað myndast. Gosstróka af þessu tagi getum við kallað eldbólstra, þó ekki sé nema til að greina þá frá nánum ættingum þeirra, öskumökkunum.
Gufustrókar sjást mjög oft nærri háhitaorkuverum eins og flestir kannast við. Í sjálfu sér er lítill munur á þeim og eldbólstrum. Þó er óviðkunnanlegt að nota orðið eldbólstrar yfir þá. Eigum við að greina að þessi fyrirbrigði með sérstökum nöfnum?
Víst er að hér eru veiðilendur nægar fyrir smámunasama, verði yður að góðu.