Greinar
hópur manna við mælitæki utandyra
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands fá þjálfun í uppsetningu ljóssjárinnar.

Ljóssjá mælir vindhraðabreytingar

Ljóssjá eða agnasjá

Halldór Björnsson 3.6.2011

Ljósið kemur langt og mjótt ... Flest könnumst við við að sjá ljósgeisla skína inn um glugga á gólf eða vegg. Oft getur svokallað ar í lofti gert geislana sýnilega. Annað gott dæmi um sýnilega ljósgeisla eru sólstafir, en þá sjáum við þegar sólargeislar skína á milli skýja og ryk í lofti beinir hluta ljóssins til okkar. Ef ljós skín ekki beint á okkur sjáum við það nefnilega ekki nema einhver hluti þess speglist eða tvístrist í áttina til okkar. Tvístrun ljóssins gerir það sýnilegt og tvístrun eða speglun frá leysiljósi má líka nota til að mæla agnamagn eða vindhraða.

Á Veðurstofu Íslands eru mælitæki, sem byggja á leysitækni, notuð til að fylgjast með öskuskýjum frá eldgosum. Veðurstofan hefur fest kaup á mælitæki sem kalla mætti ljóssjá (Lidar) og gerir kleift að mæla vindhraðabreytingar í sniði frá yfirborði upp í um 200 m hæð. Þetta tæki byggist á því að lýsa með öflugum leysi upp í loftið og mæla endurskin loftagna og s.k. Doppler hrif sem stafa af hreyfingu þeirra. Með því að mæla Doppler hrifin í mismunandi stefnu og hæðum má reikna út hraðabreytingar í allt að 200 m hæð.

Þó vindhraði á Íslandi hafi verið mældur um áratugaskeið hafa flestar vindmælingar verið bundnar við yfirborðið eða 10 m há möstur. Einungis á nokkrum stöðum hefur vindur verið mældur í hærri möstrum og aldrei ofan við 50 m. Nýi vindhraðamælirinn mun gefa starfsmönnum Veðurstofunnar tækifæri til að gera víðtækari vindhraðamælingar en áður gerðar hafa verið á Íslandi. Niðurstöður þessara mælinga munu nýtast við mat á vindorku auk þess sem þær munu auka skilning á vindhraðabreytingum í jaðarlaginu næst yfirborði og þannig í framtíðinni bæta veðurspár á Íslandi.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica