Greinar

Skýringar við úrkomu- og snjódýptarkort

Þórður Arason 9.1.2012

Kortin sýna mælda sólarhringsúrkomu, snjódýpt og ákomu á veðurstöðvum á Íslandi.

Úrkoma er mæld í mm og mælitími er frá kl. 9 árdegis daginn áður til kl. 9 árdegis á mælidag. Snjódýpt er mæld í cm kl. 9 árdegis og ákoma er munur á snjódýpt kl. 9 árdegis á mælidag frá kl. 9 árdegis daginn áður.

Viðvörun

Athugið að ekki er búið að yfirfara gögnin. Í þeim geta leynst mælivillur, innsláttarvillur og villur í gagnasendingum. Hugsanlegt er einnig að villur séu í forritum sem vinna úr gögnunum og teikna kortin. Túlkist því með varúð!

Þrjár gerðir stöðva

Sýndar eru þrjár gerðir veðurstöðva. Skeytastöðvar (hringir) eru mannaðar stöðvar þar sem uppsöfnuð úrkoma er mæld daglega kl. 9 og 18. Úrkoma kl. 18 daginn áður er lögð við úrkomu kl. 9. Úrkomustöðvar (þríhyrningar) eru einnig mannaðar stöðvar þar sem uppsöfnuð úrkoma er mæld daglega kl. 9. Á skeytastöðvum og úrkomustöðvum er sama gerð úrkomumæla, með vindhlíf sem dregur úr áhrifum vinds á mælingu og úrkomuop er í um 150 cm hæð yfir jörðu. Sjálfvirkar stöðvar (ferningar) mæla úrkomu á 10 mín til 1 klst fresti. Í notkun eru tvær gerðir sjálfvirkra úrkomumæla, vippumælar og vigtunarmælar. Úrkoman er hér metin sem munur á stöðu mælis kl. 9 daginn áður til kl. 9 á mælidag. Vippumælar eru án vindhlífar og eru með úrkomuop í um 150 cm hæð yfir jörðu. Vigtunarmælar eru með vindhlíf og úrkomuop er í um 200 cm hæð yfir jörðu.

Litir á úrkomukorti og þurrviðri

Litir sýna úrkomumagn og er skipt um lit við 0.5, 2, 10, og 50 mm (litabilin eru 0.5-1.9, 2.0-9.9, 10.0-49.9, 50.0 mm og hærra). Þrír litir sýna úrkomu undir 0.5 mm. Á mönnuðum stöðvum metur athugunarmaður hvort úrkomu hafi orðið vart eða ekki undangenginn sólarhring. Ef úrkomulaust hefur verið að mati athugunarmanns er það sýnt með ljósrauðum depli, en gulgrænum ef úrkomu hefur orðið vart (0.0-0.4 mm). Stundum mælist engin úrkoma (0.0 mm) þótt athugunarmaður verði var við úrkomu. Sjálfvirkir úrkomumælar geta ekki greint milli lítillar úrkomu og þurrviðris og sýnir kortið appelsínugulan depil ef úrkoma er undir 0.5 mm á sjálfvirkri stöð. Í þurrviðri eða lítilli úrkomu getur vigtunarmælir sýnt lægri stöðu í dag en í gær, vegna mælisuðs, og skráist það sem neikvæð úrkoma í gagnatöflu.

Litir á snjódýptarkorti og snjóhula

Litir sýna snjódýpt og er skipt um lit við 10, 30, og 100 cm. Ef jörð er alauð er depill rauður, flekkótt jörð er auðkennd með bleikum depli. Alhvít jörð er tilgreind með fjórum bláum tónum.

Hámark á landinu

Úrkomugildi eru sýnd við deplana á kortinu þegar úrkoma er 0.5 mm eða meiri (í heilum mm). Hámarksúrkoma á landinu er sýnd með stærra letri á gulum fleti. Snjódýptargildi eru sýnd á kortinu, þegar snjódýpt er 1 cm eða meiri. Hámarkssnjódýpt á landinu er sýnd með stærra letri á ljósbláum fleti.

Úrkomumæligögn

Hægt er að skoða gögnin annað hvort í stöðvum í landröð eða raðað eftir úrkomumagni.

Dálkar í gagnaskrá eru:

  • 1. Tegund stöðvar (sk=Skeytastöð, ur=Úrkomustöð, sj=Sjálfvirk stöð);
  • 2. Stöðvarnúmer;
  • 3-4. Dagsetning og tími mælidags;
  • 5. Úrkomumagn (mm);
  • 6. Hvort alþurrt var (T=þurrt, F=blautt, 0=óvíst);
  • 7. Stöðvarnafn.

Snjódýptarmæligögn

Hægt er að skoða gögnin annað hvort í stöðvum í landröð eða raðað eftir snjódýpt.

Dálkar í gagnaskrá eru:

  • 1. Tegund stöðvar (sk=Skeytastöð, ur=Úrkomustöð);
  • 2. Stöðvarnúmer;
  • 3-4. Dagsetning og tími mælidags;
  • 5. Snjódýpt (cm);
  • 6. Snjóhula í byggð (0=Alauð jörð, 1-3=Flekkótt jörð, 4=Alhvít jörð, # =Óvíst);
  • 7. Snjóhula í fjöllum (um 600 m h.y.s.) (5=Alauð fjöll, 6-8=Flekkótt fjöll, 9=Alhvít fjöll, # =Óvíst);
  • 8. Stöðvarnafn.

Ákoma - snjódýptarbreytingar

Kortin sýna breytingu í snjódýpt frá deginum á undan. Bláir litir sýna að snjódýpt hefur aukist og rauðir litir sýna að snjórinn hefur minnkað. Gulir deplar sýna staði þar sem snjódýpt er óbreytt.

Athugasemdir - (ATH!)

Ekki er búið að yfirfara gögnin, en þó eru settar athugasemdir við óeðlilega háa úrkomu á úrkomustöðvum. Sér í lagi á þetta við ef úrkoman er 99.8 mm eða 9999.8 mm.

Leiðbeiningar fyrst skráðar 10.10.01 fyrir eldri vef.

Viðbótarupplýsingar

Sjálfvirkar snjódýptarmælingar til fjalla

Sýnd er snjódýpt (cm) við mælistöð. Óyfirfarin gögn geta sýnt villandi gildi í ísingu og hríð.

Viðvörun

Athugið að ekki er búið að yfirfara mæligögnin. Þessi gögn eru mæld með sjálfvirkum mælum, sem geta bilað. Gögn eru sótt í stöðvarnar um síma á sjálfvirkan hátt. Í gögnunum geta því leynst mælivillur og villur í gagnasendingum. Hugsanlegt er einnig að villur séu í forritum sem vinna sjálfvirkt úr gögnunum og teikna línuritin. Vinsamlegast gætið að þeim tíma sem fram kemur við línurit og uppfærslutíma vefsíðunnar. Glæðið síðurnar eftir þörfum. Ef síður uppfærast ekki þrátt fyrir endurglæðingu er líklegast að stillingar vafra séu í ólagi. Túlkið því línuritin með varúð!

Línuritin

Línuritin sýna annars vegar mæligildi síðustu viku (vikumyndir) og hins vegar mæligildi síðasta sólarhring (dagsmyndir). Við lárétta ásinn eru dagsetningar og/eða tímasetningar. Vikumyndirnar sýna lítil hök við ásinn á 6 klst fresti, dagsetning er merkt við hvern dag og lóðrétt punktalína við miðnætti. Dagsmyndirnar sýna lítil hök á 1 klst fresti, tímasetning er merkt á 3 klst fresti og lóðrétt puntalína einnig á 3 klst fresti. Á vikumyndum eru einungis notuð gögn á 1 klst fresti, en fyrir dagsmyndir eru notuð mæligögn á 10 mín fresti ef þau liggja fyrir. Hvert línurit er kvarðað út af fyrir sig án tillits til annarra gagna þannig að mæligögnin komist öll inn á myndina.

Eigendur

Veðurstofan á og rekur yfir 100 sjálfvirkar stöðvar en fær gögn frá stöðvum í eigu Landsvirkjunar (Lv), Orkustofnunar (Os), Vegagerðarinnar (Vg), Siglingastofnunar (Si) og nokkrum í eigu hafnarstjórna eða sveitarfélaga (Ha). Sumar stöðvarnar skrá gögn á 1 klst fresti en allar stöðvar Veðurstofunnar skrá mælingar á 10 mín fresti. Hver stofnun sér um rekstur, eftirlit og viðhald sinna stöðva en samstarf er þó milli Veðurstofunnar, Landsvirkjunar og Orkustofnunar um eftirlit með stöðvum þeirra.

Stöðvar merktar með *

Gögn frá sumum stöðvunum berast ekki sjálfvirkt í gagnagrunn Veðurstofunnar og eru þær merktar með stjörnu (*). Þær stöðar eru hafðar í listanum til að gefa til kynna að e.t.v. séu til gagnlegar mælingar þó þær séu ekki aðgengilegar á þessum vef.

Mæligögn

Hægt er að skoða gögnin í töfluformi sl. 12 klst þar sem þau eru sýnd á 1 klst fresti. Þetta er þó ekki enn hægt fyrir sjálfvirkar veðurstöðvar Vegagerðarinnar.

Merkin ? og #

Með stöðvanöfnum í stafrófsröð yfir allt landið eru merkin ? og #. Þar er hægt að fá upplýsingar um veðurstöðina með því að smella á ? og skoða mæligögn í töfluformi með því að smella á #.

Uppfærsla gagna

Hringt er í flestar stöðvanna á 1 klst fresti og náð í nýjustu gögn. Línuritin eru uppfærð fljótlega eftir að gögnin berast í gagnagrunn Veðurstofunnar.

Leiðbeiningar fyrst skráðar 8.11.05 fyrir eldri vef.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica