Greinar
gamalt veðurkort
Veðurkort frá norsku veðurstofunni 1868.
1 2 3 4

Veðurfræði og veðurkort: söguágrip

Trausti Jónsson 21.12.2006

Sú hugmynd að setja upplýsingar fram á kortaformi verður að teljast meðal meginuppgötvana mannkyns. Ekki hefur síður verið erfitt að láta sér detta í hug, fyrstur manna, að merkja aðra þætti en hina beinu landfræðilegu á kort.

Þó var það kannski ekki stórt skref til viðbótar hinum hefðbundnu landakortum að bæta til dæmis straumröstum eða heilum hafstraumum inn á kortin. Eða jafnvel setja hafís í norðurhöf eins og sést á hinum elstu kortum af Íslandi og nágrenni þess. Eitt er víst að fyrstu landkönnuðir uppgötvuðu hafstrauma, rétt eins og eyjar og meginlönd.

Hin hefðbundnu mælitæki veðurfræðinnar, hitamælirinn og loftvogin komu til sögunnar á 17. öld. Í fyrstu höfðu menn ekki skýra hugmynd um hvað var verið að mæla. Fljótt kom þó í ljós að loftþrýstingur féll með hæð og hitamælar sýndu almennt lækkandi hita eftir því sem norðar dró.

Reyndar mun sú hugmynd hafa verið nokkuð ríkjandi að breiddarstig réði hitafari en þegar kom fram á 18. öld höfðu menn gert sér grein fyrir því að þar réð skipan meginlanda og hafa einnig miklu.

Aftur upp

Loftþrýstingur

Ekki er vitað hvert er elsta veðurfarskortið, en hitakortið á 1. mynd er tekið úr landabréfabók skólanna og eru slík kort býsna gömul.

Það var hins vegar ekki fyrr en snemma á 19. öld sem einhver mynd fór að komast á þrýstikort og þá fyrst varð hugtakið Íslandslægð til. Þegar niðurstöður fóru að koma úr mælingum á loftþrýstingi á Íslandi og Grænlandi varð mönnum ljóst að þrýstingur var að meðaltali lægstur við norðanvert Atlantshaf á Íslandi og hafinu þar suðvestur undan.

Strax og farið var að athuga loftþrýsting reglulega í Evrópu kom í ljós að talsverður munur var frá degi til dags. Þessi munur gat orðið á bilinu 5 - 10%. Menn tóku líka fljótt eftir því að þegar loftþrýstingur var lágur var mun meiri tilhneiging til úrkomu og illviðra en þegar þrýstingur var hár. Jafnvel var hægt að nýta sér þetta til spádóma. Það hafði verið gert áður með notkun frumstæðra loftvoga, svosem líknarbelgja sem voru útþandir í illviðratíð en linir í góðviðri.

Það hversu loftvog fellur ört með hæð hefur sjálfsagt nokkuð tafið gerð fyrstu veðurkortanna. Töluvert hugarflug þurfti til þess að láta sér detta í hug að reikna fyrst þrýsting til sjávarmáls og bera hann síðan saman á stórum landsvæðum, ekki síst þegar eyða þurfti verulegum tíma í að safna athugununum saman. Slíkt gat tekið mörg ár.

En þetta var samt gert strax árið 1816. Þá safnaði þýski veðurfræðingurinn Brandes samtímaathugunum frá árinu 1783 og festi á landakort. Síðar færði hann sig nær í tíma og kannaði sérstaklega veður frá jóladögum 1821. Hann dró jafnþrýstilínur á kortin og í ljós kom að lágþrýstisvæði og háþrýstisvæði hreyfðust á skipulegan hátt yfir löndin ásamt veðri sem fylgdi þeim.

Aftur upp

Veðurspár

Með tilkomu ritsímans um miðja 19. öld sköpuðust nýir möguleikar. Frægt skaðaveður gerði á Svartahafi 14. nóvember 1854 og varð mikið tjón á herskipaflota Frakka og Breta. Eftir á áttuðu menn sig á að illviðrið hafði hreyfst austur eftir álfunni og hefði mátt sjá fyrir hreyfingu þess. Þegar slík augljós hernaðarnot voru af söfnun veðurupplýsinga var gengið í að stofna skipulega veðurþjónustu í mörgum löndum. Krímstríðið markaði þannig að vissu leyti þáttaskil í veðurspám, rétt eins og í hjúkrun.

Upp úr þessu var farið að dreifa veðurupplýsingum gegnum ritsímann, bæði veðurathugunum og veðurspám, og er það mjög dæmigert fyrir veðurkortagerð þessa tíma. Á 2. og 3. mynd má sjá kort frá þessum tíma.

Á síðari árum 19. aldar voru menn farnir að velta vöngum yfir eðlisfræðilegum grunni veðurfyrirbrigða en flestir þeir sem stunduðu veðurfræði myndu sennilega kallast landfræðingar núna.

Kringum aldamótin urðu áhrif eðlisfræðinnar sífellt meiri, ekki síst vegna áhrifa þýskra og norskra eðlis- og haffræðinga, og menn fóru í fyrsta sinn að gera sér grein fyrir veðri í þrívídd. Ný tegund korta kom til sögunnar, háloftakortin. Lítið var reyndar um háloftaathuganir fyrr en eftir 1930 og frá þeim tíma eru fyrstu eiginlegu háloftakortin.

Aftur upp

Björgvinjarkerfið

Nútíma veðurþjónusta varð svo til í Noregi á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar. Þá varð til ný aðferð við greiningu veðurkorta. Þessi aðferð er gjarnan tengd við Bergen og veðurstofuna þar.

Reynt var að tengja saman fjölmörg atriði veðurathugana til að búa til heildstæða mynd af lofthjúpnum á hverjum tíma. Umfang veðurskeyta var aukið að mun og skeytalykillinn varð mun lengri og flóknari. Mikilvægi þessarar vinnu sem Norðmaðurinn Vilhelm Bjerknes leiddi verður vart ofmetið.

Greiningaraðferðin sem til varð í Bergen um 1920 er að sumu leyti notuð enn í dag. Aðferðirnar náðu mikilli útbreiðslu í heiminum og urðu fljótlega nær einráðar utan hitabeltisins.

Miðja Björgvinjarkerfisins er hugtakið loftmassi, stór svæði þar sem loft er mikið til líkt hvað varðar raka, hita og skýjafar. Milli þessara mismunandi loftmassa eru tiltölulega skörp mörk, svokölluð skil. Oft er mikill munur á veðri sitt hvoru megin skilanna, spár ganga því mikið út á að finna þessa skilafleti og spá fyrir um hreyfingu þeirra.

Í ljós kom, þegar farið var að beita leitaraðferðum Björgvinjarmanna, að skilafletirnir tengdust áður þekktum veðurkerfum, lægðum og hæðum, á mjög kerfisbundinn hátt, ákveðið skilamynstur einkenndi dýpkandi lægðir og annað mynstur lægðir sem voru að eyðast. Þetta varð til þess að hægt var að setja fram hugmyndir um þróun lægða.

Einnig kom í ljós að tilvera þessara skilakerfa einfaldaði mjög skilning á orkubúskap andrúmsloftsins og þar með skilning á orsökum illviðra til dæmis.

Aftur upp

Fyrsta íslenska veðurkortið

Fyrsta veðurkort Veðurstofu Íslands var gert 17. janúar 1920 og má sjá það á 4. mynd. Á það eru dregnar jafnþrýstilínur, sem og hitalínur, en aðferðir Björgvinjarskólans komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en Jón Eyþórsson kom með þær til landsins nokkrum árum síðar, en Jón var einn af fyrstu nemendum sem menntaðist á Björgvinjarveðurstofunni.

Rúmri hálfri öld síðar, þegar höfundur þessa pistils var við nám í Björgvin, notuðu flestir eldri veðurfræðingar þar enn svipaðar aðferðir.

Þegar gervihnattamyndir komu til sögunnar fyrir u.þ.b. 40 árum kom í ljós að ýmislegt í gamla hugmyndalíkaninu var vafasamt, sömuleiðis hafa framfarir í tölvutækni orðið til þess að farið er að líta eftir nokkuð öðrum þáttum en gert var, þáttum sem einfaldlega var ekki hægt að reikna út fyrr en nýlega. Afstaða veðurfræðinga til kortagreiningar nú á tímum er því önnur.

Úr veðurbók Trausta Jónssonar





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica