Greinar

Leiðbeiningar með veðurþáttaspám

Garðar Þór Magnússon 23.1.2013

Tölvuspákort á vef Veðurstofunnar

Á vef Veðurstofunnar er mikið úrval veðurspáa í kortaformi. Á spáforsíðu eru nú þrjú kortasöfn, eitt fyrir hvern þriggja veðurþátta: Vind, hita og úrkomu. Þessi kort eru unnin úr annars vegar veðurlíkani Veðurstofunnar, Harmonie (hlekkur á fræðslugreinina um Harmonie), í reiknineti með 2,5 km möskvastærð, reiknað fjórum sinnum á sólarhring og hins vegar úr nokkuð grófara líkani Reiknimiðstöðvar evrópskra veðurstofa (ECMWF), reiknað tvisvar á sólarhring. Í sumum tilvikum er spám frá Harmonie skipt út fyrir spár frá Hirlam-K, spálíkani frá Dönsku veðurstofunni sem nýtir 5 km möskvastærð.

Efst á hverri mynd er ljósgrár upplýsingaborði þar sem vinstra megin er stutt lýsing á afurðinni (kortinu) og hægra megin kemur fram á hvaða líkani teikningin byggist, ásamt tilsvarandi greiningartíma og spátíma. Greiningartíminn er sá tími þegar tölvureikningarnir hófust fyrir gildandi veðurspá en spátíminn er tímaskrefið í klukkustundum frá greiningartíma. Þrátt fyrir það að tölvurnar séu öflugar tekur nokkra stund að safna upplýsingum um veður í byrjunarstöðu og síðan að reikna spána. Einnig tekur tíma að gera sjálf kortin. Fyrsti gildistíminn sem er sýndur er því nokkrum klukkustundum síðar en greiningartíminn eða um það leyti sem spáin er tilbúin til birtingar. Tíminn sem líður frá greiningartíma þar til spáin birtist á vefnum er breytileg eftir líkani og ástandi tölvukerfa. Miða má við að Harmonie spár birtist á vefnum um fjórum klst eftir greiningartíma en spár frá ECMWF um sjö klst eftir greiningartíma (sú er staðan í október 2015 en það gæti breyst).

Neðst á hverri mynd eru þrjár einingar, frá vinstri: 1) Merki Veðurstofunnar, 2) gildistími og 3) litakvarði.

Líkön fyrir veðurþáttaspár

Í efra horni til hægri kemur fram heiti líkansins sem spáin byggir á:

  • Veðurstofan/Harmonie: Spá er reiknuð í 2,5 km neti, tímaskref kortanna er 1 klukkustund. Þessi spá nær yfir spátíma 3 til 66 klukkustundir. Hún er yfirleitt tilbúin til birtingar um fjórum klukkustundum eftir greiningartíma. Ný spá er reiknuð fjórum sinnum á sólarhring. Grunngögn eru úr greiningu ECMWF. Sú greining er að jafnaði sú nákvæmasta sem völ er á, greining bandarísku veðurstofunnar er þó litlu síðri en engin kort þaðan birtast á vef Veðurstofunnar.
  • ECMWF/ECM-is: Spá er reiknuð í 9 km neti og tekur við eftir 66. spátímann frá Harmonie og nær 168 klukkustundir fram í tímann. Kortin eru með 3 klst tímaskrefi fyrir spátíma 75-144 og 6 klst tímaskrefi eftir það. Reikningi hennar er lokið nokkuð seinna en Harmonie spánni. Reiknað er tvisvar sinnum á sólarhring. Greinilega sést að hún er mun grófari en spákortin frá Harmonie og alloft virðast litir kortanna hrökkva mjög til þegar farið er úr 66 klukkustundum í næsta spátíma, einkum vind- og hitakortin. Grófara reikninet hefur bein áhrif á útreikninga en einnig þýðir það að landslagið smyrst út, einkum þar sem landslag er flókið, s.s. há fjöll og þröngir dalir eða firðir. Auk þessa verður útjöfnun teikniforrita erfiðari við grófara reikninet og fleiri litaðir punktar eru í raun útjafnaður skáldskapur.

Einnig geta kort frá DMI/HIRLAM-K líkaninu birst á vefnum ef t.d. töf verður á komu Harmonie spárinnar eða ef vakthafandi veðurfræðingur kýs að birta þau frekar:

  • DMI/HIRLAM-K: Spá er reiknuð í 5 km neti, tímaskref kortanna er 3 klukkustundir. Þessi spá nær yfir spátíma 3 til 54 klukkustundir fram í tímann. Hún er að jafnaði tilbúin til birtingar um 3-4 klukkustundum eftir greiningartíma. Ný spá er reiknuð fjórum sinnum á sólarhring. Grunngögn eru úr greiningu ECMWF.

Gott að hafa í huga

  • Veðurþáttaspár eru sjálfvirkar veðurspár sem eru búnar til með tölvulíkani.
  • Skoðið einnig textaspár í stað þess að treysta eingöngu á sjálfvirku spárnar.
  • Ef mikill munur er á veðurþáttaspánum og textaspánum þá gildir textaspáin.
  • Hafið í huga að líklegra er að spár stutt fram í tímann gangi eftir frekar en spár langt fram í tímann.
  • Með því að styðja á hægri/vinstri hnapp er hægt að skipta um tíma með lyklaborðinu eða nota sleðann, sjá neðar. Sömuleiðis er hægt að styðja á 1/2/3 hnappana til að skipta um veðurþætti með lyklaborðinu.

Tegundir spáa

  • Skipt er á milli veðurþátta með því að styðja á flipana eða styðja á 1, 2 eða 3 hnappinn á lyklaborðinu.
  • Veðurþáttaspár sem sýndar eru á kortunum eru vindaspá, hitaspá og úrkomuspá.

Vindaspár

  • Kortið sýnir vindátt og 10 mínútna meðalvindhraða í m/s í 10 m hæð.
  • Örin sýnir úr hvaða átt vindurinn kemur.
  • Skalinn (neðst á myndinni) breytist eftir vindaspönn á hverjum spátíma en litaskalinn er alltaf sá sami.
  • Grænu litatónarnir ná yfir vindhraðabilið 0 - 8 m/s, sé vindur svo hægur veldur hann litlum truflunum á athöfnum manna. Bláu litatónarnir ná yfir bilið 8 til 16 m/s. Sé vindur svo hvass eru siglingar á litlum bátum oftast mjög varasamar, tjöld geta verið erfið viðureignar, léttir hlutir feykjast auðveldlega til og í úrkomu er skjólríkur klæðnaður nauðsynlegur. Fjólubláir litatónar ná yfir kvarðann frá 16 m/s til 24 m/s. Vindhraði af þessu tagi fer að valda verulegum vandræðum. Sé lausasnjór á jörðu rýkur allt í kóf og skyggni verður nánast ekkert. Skjólfatnaður er lífsnauðsynlegur í úrkomu og við langa útivist. Mikið óráð er að vera á sjó nema á góðum sjóskipum. Sandfoks gætir á hálendinu. Tjöld fjúka og akstur tjaldvagna er hættulegur. Rauðir litatónar taka við á kortunum sé spáð meiri vindhraða en 24 m/s. Slíkur vindur fer að valda miklu tjóni þar sem umbúnaði er áfátt. Vindur yfir 30 m/s veldur ætíð miklu tjóni.
  • Vindátt og vindhraði eru sýnd með vindvigrum. Vindur blæs í þá átt sem örin sýnir. Vindhraði er sýndur með stærð vigursins, sem og litum á kortinu. Vindörvar eru sýndar sem vindfjaðrir eða sem vindvigrar.

Hitaspár

  • Kortið sýnir hitadreifingu fyrir landið í selsíusgráðum (°C) í 2 m hæð.
  • Litirnir sýna hitabil sem hleypur á 2°C en 1°C fyrir landsvæðakortin.
  • Skalinn (neðst á myndinni) breytist eftir hitaspönn á hverjum spátíma.

Úrkomuspár

  • Kortið sýnir spá fyrir uppsafnað magn úrkomu yfir annars vegar 1 klst tímabil fyrir Harmonie og hins vegar 3 klst og síðar 6 klst tímabil fyrir ECM-is.
  • Litaskalinn sýnir magn úrkomunnar, allt frá lítilli úrkomu frá 0,1 mm/1 klst fyrir Harmonie en 0,3/3 klst og 0,5 mm/6 klst fyrir ECM-is (ljósgulur litur), að mikilli úrkomu, 50 mm/klst fyrir Harmonie en 90 mm/3 klst og 200 mm/6 klst fyrir ECM-is (rauður).
  • Vindfjaðrir eru einnig merktar inn á kortin. Vindáttin er sýnd með stilk fjöðurinnar, vindur blæs inn að punkti. Vindhraðinn er táknaður með skástrikum, langt strik táknar 5 m/s, stutt strik 2,5 m/s og þríhyrningur táknar 25 m/s.
  • Loftþrýstingur við sjávarmál (hPa) er sýndur með heilum línum, 2 hPa á milli jafnþrýstilína.

Sleðinn fyrir neðan kortin er notaður til að skipta um gildistíma

Mögulegt er að skipta um gildistíma á marga vegu:

  • Hægt er að styðja hvar sem er á sleðann.
  • Hægt er að styðja á dagana fyrir ofan sleðann til að skoða hádegisspá fyrir viðkomandi dag.
  • Hægt er að styðja á tímann fyrir neðan sleðann.
  • Hægt er að styðja á pílurnar báðum megin við sleðann til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.
  • Hægt er nota vinstri og hægri örvahnappana á lyklaborðinu til að skoða fyrri eða næsta gildistíma.
  • Hægt er að staðsetja músina yfir sleðanum og skruna hjólinu á músinni fram eða aftur.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica