Loftvogir
Kvikasilfursloftvog
Á mynd 1 sést hvernig venjuleg kvikasilfursloftvog er að ytri gerð. Neðst er loftvogarskál (K) sem í er kvikasilfur. Á skálinni er oft lítil loftskrúfa (Ls) sem skal vera laus þegar loftvogin er í notkun. Ofan við skálina tekur við um 90 cm langur látúnshólkur. Neðarlega eða miðsvæðis á honum er hitamælir (T). Stilliskrúfan (S) er notuð til að færa brotakvarðann (N) upp og niður.
Efri hluti hólksins er klofinn með tveim gagnstæðum raufum og er loftvogarkvarðinn (M) til hliðar við raufina sem er framan á loftvoginni. Inni í hólknum er lofttóm glerpípa sem lokuð er að ofan en opin í neðri endann og er opni endinn ofan í kvikasilfrinu í skálinni.
Þrýstingur loftsins á kvikasilfrið í skálinni þrýstir því upp í glerpípuna, því hærra sem loftþrýstingurinn er meiri.
Staðsetning loftvogarinnar er mikilvægt atriði. Hún á að hanga kyrr og nákvæmlega lóðrétt, en stýringin (A) er höfð til að tryggja það. Loftvogin á að vera í herbergi þar sem litlar hitabreytingar verða. Hún skal vera langt frá ofni eða öðrum hitagjöfum og sól má ekki ná að skína á hana.
Loftvogin skal hanga í þeirri hæð að auðvelt sé fyrir athugunarmann að stilla og lesa á hana. Sé hún of há verður að nota skemil eða aðra upphækkun til að standa á svo að auga athugunarmanns sé í hæð við enda kvikasilfurssúlunnar (mynd 2).
Víðast hvar er loftvoginni komið fyrir í loftvogarskápi og er þá oft haft dauft ljós (Lb) ofan við efri hluta hennar til að auðvelda nákvæma stillingu. Sé þetta ljós ekki til staðar má notast við hvítan pappír í stað þess og lýsa hann upp með vasaljósi sem haldið er til hliðar við loftvogina þegar lesið er af henni.
Athugun á kvikasilfursloftvog er gerð á eftirfarandi hátt:
- Hitinn er lesinn með hálfs stigs nákvæmni og skráður.
- Gætið þess að hita ekki mælinn með andardrætti eða ljósi.
- Notið ekki önnur ljósfæri en vasaljós til að lesa á mælinn og loftvogina.
- Sláið léttilega með fingurgómum á miðja loftvogina.
- Bíðið síðan hálfa mínútu.
- Gætið þess að loftvogin hangi lóðrétt.
- Standið þannig að augun séu í sömu hæð og bunga kvikasilfurssúlunnar (mynd 2).
Þegar loftvogin er stillt er brotamælirinn færður upp eða niður þar til neðri brúnir hans, fremri og aftari, virðast nema við hábungu kvikasilfursins og má engin ljósrák sjást yfir henni með berum augum.
Brotakvarðinn er notaður til að lesa á loftvogina. Á honum eru strik sem merkt eru með tölunum 0-10. Núllstrik brotakvarðans (neðri brún hans á mynd 3) er notað til að finna tölu heilu hektópascalanna (1001 á myndinni). Þess ber að gæta að tölurnar á aðalkvarðanum eiga stundum við tugi hektópascala (skammstafað hPa), t.d. þýðir 98 og 101 að þrýstingur sé 980 og 1010 hPa. Hins vegar er ávallt 1 hPa milli strika á aðalkvarðanum.
Tíunduhlutar eru svo fundnir á brotakvarðanum. Strikin á honum eru þannig sett að aðeins eitt þeirra getur í einu staðist á við eitthvert strik á aðalkvarðanum og talan við þetta strik brotakvarðans gefur einmitt tölu tíunduhlutanna. Ef ekkert strik stenst nákvæmlega á við strik á aðalkvarðanum er það valið sem næst því kemst.
Þegar búið er að skrifa athugunina er aftur lesið á loftvogina til öryggis. Hreyfið ekki við brotamælinum milli athugana svo að ávallt sé hægt að vita hvernig loftvogin var sett síðast.
Að athugun lokinni á að leiðrétta álesturinn samkvæmt töflum sem Veðurstofan lætur í té.
Kvikasilfursloftvog má alls ekki flytja án leyfis og sérstakra leiðbeininga Veðurstofunnar, og yfirleitt má ekki hreyfa við henni á annan hátt en nauðsynlegt er vegna athugana.
Óviðkomandi fólki skal haldið frá loftvoginni. (Úr ritinu Reglur um veðurskeyti og veðurathuganir, útg. 1981 af Veðurstofu Íslands, bls. 77-79.)
Aftur uppSíritandi loftvog
Skynjari þrýstirita er oftast gerður úr nokkrum þunnum málmdósum sem festar eru hver ofan á aðra. Eru þær fjaðrandi og að mestu lofttæmdar.
Þegar loftþrýstingurinn lækkar þenjast dósirnar út, en þrýstast hins vegar saman þegar hann vex og flytjast hreyfingarnar yfir á pennaarminn.
Síritandi loftvog er best að koma fyrir á lítilli vegghillu. Velja þarf henni stað þar sem ekki er hætta á hristingi.
Sól má ekki skína á síritandi loftvog og hún má ekki vera nærri ofni. Yfirleitt þarf að gæta þess að hitabreytingar verði sem minnstar í námunda við loftvogina og að loftraki sé lítill.
Komið getur fyrir að loftþrýstingur falli niður fyrir lægsta gildi á eyðublaði síritandi loftvogar og þarf þá að breyta stillingu hennar til þess að ekkert tapist af línuritinu. Fer það eftir gerð þrýstiritans hvernig heppilegast er að gera þetta.
Á sumum nýrri þrýstiritum Veðurstofunnar frá R. Fuess, eru ein liðamótin milli pennaarms og loftvogardósa færanleg, þannig að stinga má pinna þeim sem myndar liðamótin í mismundandi göt. Hækkar penninn um 20-30 hPa eða svo ef pinninn er færður niður um eitt gat.
Á öðrum þrýstiritum verður að nota sérstaka stilliskrúfu sem ýmist er ofan eða neðan á botnplötu tækisins. Jafnan skal skrá athugasemdir í veðurbók þegar þrýstirita er breytt.
Ef þess er kostur skal láta líða 1-2 daga frá breytingu á þrýstirita þar til hann er færður til baka í upprunalegt horf. (Úr ritinu Reglur um veðurskeyti og veðurathuganir, útg. 1981 af Veðurstofu Íslands, bls. 83).