Hættumatskort
Gildir frá: 15. apríl 2025. Gildir til 22. apríl 2025 kl. 15:00, að öllu óbreyttu
Hættumatskortið er byggt upp af þremur einingum
1. Viðvörunarstig
eldstöðvakerfis – það endurspeglar núverandi ástand eldstöðvar og er byggt
upp af fjögurra þrepa kerfi, frá 0 (grænt) upp í 3 (rautt). Viðvörunarstigið
segir til um ástand eldstöðvarinnar og stjórnar hvernig hætta er metin.
2. Kortlagðar
hættur –matið byggir á samanlögðu mati á sjö hættuþáttum sem eru til staðar
eða geta skapast: 1) jarðskjálftavirkni, 2) jarðfall ofan í sprungu, 3)
sprunguhreyfingar, 4) gosopnun, 5) hraunflæði, 6) gjóskufall og 7) gasmengun. Lituðu fletirnir á
kortinu segja til um uppsafnað hættustig af þessum sjö þáttum. Lögun og stærð
flatanna geta tekið breytingum, allt eftir því
hver hættan er metin hverju sinni.
3. Valin
athugunarsvæði – þegar mismunandi hættur hafa verið metnar landfræðilega er
meðalhættustig innan valinna athugunarsvæða reiknað. Þær hættur sem stuðla að
endanlegu hættustigi athugunarsvæða eru sérstaklega taldar upp fyrir hvert svæði. Hættur sem metnar eru annaðhvort „miklar“ eða „mjög
miklar“ eru feitletraðar. Stærð
og lögun þessara svæða sem merkt eru með bókstöfum, taka ekki breytingum, þó
hættumatið innan þeirra breytist.
Nánar um hverja einingu hættumatskortsins

Mynd 1: Útlit og framsetning á hættumatskorti frá og með 15. apríl 2025. Nýjungar á kortinu eru viðvörunarstig eldstöðvakerfis (blár kassi númer 1), stækkun kortlagðs hættusvæðis (blár kassi númer 2) og valin athugunarsvæði (blár kassi númer 3). Sjá nánari upplýsingar í texta.
1. Viðvörunarstig eldstöðvakerfis (e. Volcano alert level system, VALS)
VALS er nýtt kerfi sem hefur verið þróað til að miðla á einfaldaðan hátt upplýsingum um virkni eldstöðvakerfa á Íslandi, hugsanlegar hættur sem þeim fylgja og gætu haft áhrif á nærumhverfið og fólk sem býr, heimsækir eða ferðast um svæði í kringum eldstöðvar. Kerfið byggir á tiltækum vöktunargögnum, túlkun á fjölþættum jarðeðlisfræðilegum og jarðefnafræðilegum breytum, reynslu sérfræðinga af fyrri umbrotatímum eldstöðva og þekkingu á eldgosum fortíðar.
Innleidda VALS-kerfið er fjögurra þrepa kerfi sem fer frá stigi 0 (grænt) upp í 3 (rautt). Stig 0 er lægsta viðvörunarstigið. Eldstöðvakerfið er þá í jafnvægi og vöktunarbreytur eru innan þekktra bakgrunnsgilda. Stig 1 og Stig 2 eru millistig sem samsvara aðstæðum sem víkja frá þekktum bakgrunni. Stig 2 endurspeglar aukinn fjölda vísbendinga um yfirvofandi eldgos og hraðari breytingar í vöktunarbreytum. Stig 3, hæsta stigið, samsvarar ástandi þar sem eldgos er yfirvofandi, þegar hafið eða yfirstandandi.

Mynd 2: Tengsl viðvörunarstigs og ástands eldstöðvar
Fyrir hvert viðvörunarstig eru hættur skilgreindar og taldar upp. Hættur sem unnið er með í hvert skipti eru háðar þeirri eldstöð sem um ræðir og lýsa þeim fyrirbærum sem gætu átt sér stað í nágrenni og umhverfi hennar (óháð fjarlægð og/eða stefnu). Þó svo að eldstöð sé á viðbragðsstigi 0 getur náttúruvá verið til staðar á svæðinu og hætta getur þróast innan óskilgreinds tímaramma. Viðvörunarstig eldfjalla getur breyst án þess að fara í gegnum stigvaxandi skref. Eldfjallahættur (og eldgos) geta átt sér stað án viðvörunar.
2. Kortlagðar hættur
Listi yfir skilgreindar hættur getur verið mismunandi eftir eldstöðvum.
Fyrir eldstöðvakerfi Svartsengis er unnið með sjö hættur: 1) jarðskjálftavirkni, 2) jarðfall, 3) sprunguhreyfingar, 4) gosopnun, 5) hraunflæði, 6) gjóskufall og 7) gasmengun.
Unnið var með sömu hættur á sjö-svæða kortinu, en á nýja kortinu eru þær kortlagðar beint samkvæmt athugunum og vöktunargögnum (frá Veðurstofu Íslands eða öðrum stofnunum á Íslandi), niðurstöðum líkana, spám og mati sérfræðinga (sjá Töflu 1).

Tafla 1: Þær hættur sem unnið er með og tilheyrandi gögn sem notuð eru til að greina þær og kortleggja.
Hætta er metin innan hvers mynddíls (e. pixel) á kortinu (allt niður í 20 m stærð) en matið fylgir viðvörunarstigi eða ástandi eldstöðvar (sjá mynd 2). Kortið sýnir því uppsafnað hættustig á hverju svæði með tilliti til þeirra sjö hætta sem gætu átt sér stað og líklegrar tíðni þeirra. Uppsafnað hættustig er sýnt á litakóðuðum hættukvarða (sjá Mynd 3). Ólituð svæði endurspegla svæði þar sem hættustigið er metið mjög lágt. Hins vegar er ekki hægt að útiloka náttúruvá á þessum svæðum.
Mynd 3: Hættustigin sex og viðmiðunarmörk þeirra sem notuð eru til að flokka hvert svæði. Uppsafnað hættustig stjórnar hvaða lit hvert svæði fær.
Tegund gagna sem notuð eru og vægi þeirra, stjórnast af viðvörunarstigi eldstöðvar í hvert sinn. Hættumatskort eru ekki unnin þegar viðvörunarstig eldstöðvar er 0. Tafla 2 sýnir hvernig hættumat vegna hraunavár breytist með breytanlegu viðvörunarstigi eldstöðvar
Tafla 2: Tegund ganga og vægi fylgir viðvörunarstigi eldstöðvar. Taflan sýnir hvernig tegund inntaksgagna vegna hraunavár og vægi þeirra breytist með viðvörunarstigi.
3. Valin athugunarsvæði
Á kortinu eru sýnd valin athugunarsvæði en þau eru valin út frá
tilvist mikilvægra innviða (svæði B, D og F), fjarlægð frá umbrotasvæðum og
þéttleika byggðar (svæði A, C, E). Búist er við að byggð svæði, sem eru ekki
sérstaklega merkt á kortinu sem stendur, verði aðeins lítillega fyrir áhrifum
af eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni og áhrif yrðu þá að öllum líkindum einungis
af loftbornum hættum (t.d. gasmengun).
Þau athugunarsvæði sem eru óregluleg í lögun fylgja útlínum hraunvarnargarða
(svæði A og B, sjá Mynd 4), önnur athugunarsvæði eru skilgreind sem reglulegir
reitir umhverfis byggð eða iðnaðarsvæði.
Mynd 4: Athugunarsvæði A. Lögun svæðisins stjórnast af hraunvarnargörðum. Grindavík er innan athugunarsvæðis A.
Athugunarsvæði eru listuð og sýnd með ákveðnum litum (sjá Mynd 1, box 3). Litur hvers athugunarsvæðis stjórnast af vegnu meðaltali allra mynddíla (e. pixel) sem tilheyra skilgreindu svæði. Heildarstig vegins meðaltals fylgja sömu viðmiðunarmörkum og sýnd eru á Mynd 3 og ákvarða í hvaða hættuflokk svæði fellur.
Þetta skýrir hvers vegna athugunarsvæði A er merkt gult í lista (nokkur hætta) þó svo að hlutar af svæðinu séu merktir grænir (lítil hætta) á kortinu sjálfu. Þær hættur sem taldar eru vera til staðar og/eða líklegar til að eiga sér stað innan athugunarsvæða eru að auki taldar upp til að auka gagnsæi. Hættur sem metnar eru annaðhvort „miklar“ eða „mjög miklar“ eru feitletraðar.
Mikilvægt að halda áfram þróun á aðferðafræði við gerð hættumats vegna eldgosavár
Samkvæmt lögum annast Veðurstofan rauntímavöktun á náttúruvá og skal gefa út viðvaranir og spár um yfirvofandi hættu af völdum m.a. jarðskjálfta, eldgosa og jökulhlaupa. Veðurstofan hefur einnig það hlutverk að vera yfirvöldum til ráðgjafar varðandi forvarnir og viðbrögð við náttúruvá. Hluti af því er að meta reglulega og veita upplýsingar um hættu vegna eldfjallavár líkt og í atburðarrásinni á Reykjanesskaga síðustu ár.Veðurstofa Íslands tók í notkun nýja útgáfu af hættumatskorti fyrir umbrotasvæði á Reykjanesskaga 15. apríl. Kortið kemur í stað fyrra hættumatskorts sem hefur verið notað og birt síðan í nóvember 2023 og sýndi hættumat sjö vel skilgreindra svæða í næsta nágrenni umbrotasvæðisins á Sundhnúksgígaröðinni.
Nýleg þróun atburða á skaganum, þar sem kvikugangur myndaðist og náði í norðaustur hluta eldstöðvarkerfis Svartsengis þann 1. apríl 2025 og gosupptök urðu vestur af nyrsta hluta Fagradalsfjalls í ágúst 2024, undirstrikar þörf á hættumati fyrir stærra svæði.
Nýja kortið nýtist ekki eingöngu við hættumat á Reykjanesskaga heldur hefur verið þróuð aðferðafræði sem hægt er að beita á öll önnur virk eldstöðvakerfi á Íslandi.
Eldri útgáfa hættumatskortsins hefur verið uppfært og gefið út 108 sinnum síðan 20. nóvember 2023. Það hafði sína kosti en annmarkar þess voru t.d. hve erfitt var að gera hættu skil utan skilgreindu svæðanna sjö.
Hægt er að lesa meira um þróun á ferli og aðferðafræði hættumats hér.