Katla
mynd

Katla

Kötlumegineldstöðin er staðsett í Mýrdalsjökli á eystra gosbeltinu. Hún er um 80 km löng og nær allt að 1500 metra hæð yfir sjávarmáli, með ísfyllta öskju og sprungusveima sem teygja sig norðaustur í átt að Síðujökli. Katla er að mestu hulin jökli. Eldstöðin hefur verið mjög virk á nútíma (e. Holocene) og er talin fjórða virkasta eldstöðvakerfi landsins með að minnsta kosti 21 eldgosum undanfarin 1100 ár. Síðasta gos sem náði í gegnum jökulinn varð árið 1918. Frá landnámi til ársins 1918 var meðallengd goshléa um 50 ár og því hefur Katla látið bíða eftir sér því nú eru yfir 100 ár síðan Kötlugos braust síðast í gegnum jökulhettu Mýrdalsjökuls.

Einkennisgos Kötlu eru basalt sprengigos. Samspil kviku og íss veldur því að gjóska myndast sem dreifist yfir nærliggjandi sveitir, mismikil eftir stærð gosa. Ef þykkur jökull lægi ekki yfir megineldstöðinni væru gosin líklega hraungos. Katla hefur líka gosið súrum sprengigosum en þau eru mun sjaldgæfari en basaltgosin. Samfara Kötlugosum koma mikil jökulhlaup enda bræðir kvikan mikinn ís í jöklinum. Hlaupin hafa komið niður Mýrdalssand á sögulegum tíma en í fyrndinni hafa þau líka komið niður Markarfljót. Þriðja og sjaldgæfasta tegund gosa á Kötlukerfinu eru stór flæðigos á sprungusveimi kerfisins en síðasta og jafnframt stærst slíkra gosa var Eldgjárgosið sem hófst ~ 939 e.Kr. en í því mynduðust um 20 km3 af hrauni og gjósku. Til samanburðar má nefna að í Holuhraunsgosinu 2014-2015 myndaðist um 1,5 km3 af hrauni.

Frekari upplýsingar um eldstöðvarkerfið Kötlu má finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.



Jarðskjálftavirkni

GPS Yfirlit yfir GPS kerfið má finna hér.


Athugið að upplýsingar sem Veðurstofan birtir á vefjum sínum í rauntíma eru óyfirfarnar. Túlkun og úrvinnsla slíkra gagna er á eigin ábyrgð. Sjá einnig skilmála Veðurstofunnar um notkun gagna.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica