Aurskriða féll við Glúmsstaði í Fljótsdal.
1 2
næsta

Um skriðuföll

Aðstæður vorið 2014

Harpa Grímsdóttir 3.6.2014

Mikill snjór var til fjalla í vetur víða á landinu. Snjó hefur leyst jafnt og þétt síðasta mánuðinn án mikilla vatnsflóða. Við þessar aðstæður má búast við stöku aurskriðum en erfitt getur verið að spá fyrir um hvar þær falla.

Stór aurskriða féll í leysingum við bæinn Glúmsstaði í Fljótsdal þann 1. júní. Nálægt mánaðamótum mars og apríl féll stór skriða í Vöðlavík eftir rigningu og leysingar. Grjót­hrun varð við Gullfoss 9. maí og ferðamaður slasaðist lítillega á fæti; einnig grjóthrun í Esjuhlíðum undir Þverfellshorni þann 11. maí.

Á meðan snjór er að bráðna til fjalla má áfram búast við stöku atburðum af þessu tagi. Ef mikil hlýindi, vindur og rigning fara saman á svæðum þar sem snjór er enn til fjalla getur jarðvegur orðið mjög blautur og margar skriður fallið eða grjót hrunið úr bröttum hlíðum. Einnig getur þá vaxið snögglega í ám og lækjum og hætta getur jafnvel skapast á krapaflóðum.

Ferðafólk ætti að huga vel að aðstæðum þar sem það fer um, reikna með mögulegum vatnavöxtum í ám og lækjum og fara varlega í kringum vatnsósa hlíðar.

Vindur getur átt óbeinan þátt í skriðuföllum. Bráðnun snævar eykst til muna ef saman fara vindur og hlýindi, og ef vindur lemur rigningu inn í hlíðar sem vísa í ákveðnar áttir geta áhrif úrkomunnar orðið meiri þar. Þar sem vatnslitlir fossar eru, getur mikill vindur blásið vatninu yfir nærliggjandi hlíðar sem verða vatnsósa á skömmum tíma. Þetta er ekki algengt en á sér stað í miklu hvassviðri á vorin í leysingum eða í mikilli rigningu. 

Skriðuföll á Íslandi
""
Dreifing skriðufalla eftir mánuðum. Bláu súlurnar sýna dreifingu allra skriðufalla en hinar súlurnar greina á milli aurskriðna (rauðgult) og grjóthruns (grátt). Þetta er þriðjungur af öllum skráðum skriðum í gagnasafni Veðurstofunnar (frá 17. öld). Á þessu súluriti eru eingöngu skriður þar sem mánuðurinn er þekktur, um 2700 talsins.

Skriður geta fallið allt árið og ekki er alltaf augljóst hvað veldur. Stundum geta gil eða fjallshlíðar verið það óstöðug að aðeins þarf örlitla rigningu eða hitabreytingu til að koma af stað skriðum. Á Íslandi eru skriður tíðastar á haustin, og þá gjarnan í tengslum við haustrigningar eða bráðnun nýsnævis, en einnig eru skriður algengar í maí og júní og þá oft í tengslum við leysingar. Einnig verða skriðuföll og grjóthrun vegna jarðskjálfta á Íslandi. Skriður geta fallið um allt land þar sem brekkur finnast. Flestar skriður eru skráðar á Norður­landi, Austurlandi og Vestfjörðum en einnig í fjöllum á Suður­landi og víða annars staðar.

Jón Kristinn Helgason og Harpa Grímsdóttir

Vinsamlegast látið vita

Veðurstofan heldur utan um skráningar á skriðuföllum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Þeir sem verða varir við skriður eða grjóthrun eru beðnir um að koma þeim upplýsingum til Veðurstofunnar með því að hringja í síma 522 6000 eða nota skráningarform á vef Veðurstofunnar sem finna má undir „Tilkynna snjóflóð“ bæði á snjóflóðaforsíðu og eins undir Ofanflóð (listi t.v.) en þetta vefform dugar jafnt til skráninga á skriðuföllum og snjóflóðum.

Til baka




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica