Snjóflóð - forvarnir

Snjóflóð - forvarnir

Efnið á þessari síðu er fengið af vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra 10.01.2007 með góðfúslegu leyfi. Sjá einnig bækling sem Landsbjörg gaf út, Snjóflóðahætta (pdf 0,5 Mb).

Yfirlýst hættusvæði

  • Veðurstofa Íslands og snjóflóðaathugunarmenn fylgjast með snjóflóðahættu í byggð. Ef snjóflóðahætta skapast skal fólk yfirgefa hættusvæðið í samræmi við gefin fyrirmæli. Sjá rýming / brottflutningur
  • Ef það er ekki mögulegt verður öryggi best tryggt með eftirtöldum aðgerðum:

Fyrir fólk á hættusvæði

Forðist að vera utandyra

  • Gætið þess að vera sem minnst utandyra og alls ekki í fjalllendi.

Dvalarstaður öryggisráðstafanir

  • Dveljið þeim megin í húsinu sem snýr undan fjallshlíðinni. Gluggum og millihurðum skal tryggilega lokað. Setjið hlera fyrir þá glugga sem að fjallinu snúa.

Kjallarar

  • Dveljið ekki í kjöllurum húsa nema þeir séu alveg niðurgrafnir og með steyptri loftplötu.

Stöðutilkynningar

  • Þeir sem búa eða dvelja afskekkt komi á síma- eða talstöðvasambandi við aðila utan hættusvæðis og láti heyra frá sér reglulega.
  • Ef lögreglustjóri gefur út fyrirmæli um rýmingu er íbúum skylt að rýma hús sín. Almannavarnir í héraði opna fjöldahjálparstöð og halda skráningu um dvalarstaði fólks þar til því er heimilt að fara til síns heima.

Ferðir í fjalllendi - Mat á hættu

Veður

  • Flest hættuleg snjóflóð falla í hríðarveðri, þegar skafrenningur er viðvarandi og snjókoma er meiri en 20 cm. á sólarhring.

Veðurspá

  • Leggið ekki í fjallaferðir þegar spáð er stórhríð. Fylgist vel með veðurspá og viðvörunum.

Hættutímabil

  • Snjóflóðahætta helst venjulega í 3 daga eftir að hríð slotar en enn lengur sé kalt í veðri.

Snjóflóðahætta

  • Hætta er á ferðum þegar brestir heyrast í snjóþekju, sprungur sjást og snjóboltar eða spýjur falla. Hugið að styrk snjóþekjunnar. Þótt yfirborðið virðist traust geta veikburða lög leynst undir því. Hlýindi, sólbráð eða regn á snjó geta valdið snjóflóðahættu. Varist svæði þar sem snjór er svo votur að hann skvettist undan skíðum.

Ferðir í fjalllendi - Leiðarval

Forðist brattar brekkur

  • Forðist allar brekkur og gil með yfir 30° halla (bröttustu skíðabrekkur).

Varist að skera fjallshlíðar

  • Þegar ferðast er í fjalllendi þar sem hætta er á snjóflóði, á vélknúnum ökutækjum, snjóbrettum, skíðum og þess háttar, skal varast að skera þvert á fjallshlíðar og taka óþarfa beygjur þegar farið er niður varasamar hlíðar því það getur komið snjóflóði af stað.

Öruggustu leiðirnar

  • Öruggustu gönguleiðirnar eru á hryggjum og áveðurs í hlíðum. Þræðið svæði þar sem snjór er grynnstur og þið sjáið nibbur standa upp úr. Ferðist eftir dalbotni frekar en í brekkukverkinni.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica