Jarðskjálftar í febrúar 2015
Tæplega 2000 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í febrúar, mun færri en mánuðinn á undan. Skjálftum fækkaði frá janúar við Bárðarbungu, en fjölgaði í kvikuganginum. Stærsti skjálftinn var 4,9 við Bárðarbungu. Skjálftaröð varð í Öxarfirði.
Reykjanesskagi
Tæplega 20 skjálftar mældust á svæðinu við Krýsuvík þar af um helmingur við Kleifarvatn. Aðfaranótt 26. febrúar voru nokkrir skjálftar staðsettir við suðvestanvert Kleifarvatn, á um 20 mínútum (04:12-04:51) og var stærsti skjálftinn 1,5 að stærð. Um tugur smáskjálfta mældist í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir skjálftar voru við Fagradalsfjall, stærsti 1,8 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálftinn á Reykjanesskaganum í mánuðinum.
Tæpur tugur skjálfta mældist við Reykjanestá, allir innan við tvö stig. Um tugur skjálfta mældist á Reykjaneshrygg, stærsti rúm tvö stig.
Suðurland
Á þriðja tug skjálfta mældist við Húsmúla á Hellisheiði, heldur fleiri en mánuðinn á undan. Flestir skjálftarnir urðu í nokkrum litlum hrinum frá 20. febrúar og fram að mánaðamótum. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Um 20 skjálftar mældust austar á Hengilssvæðinu og álíka fjöldi í Ölfusi þar sem mesta virknin var á Kross-sprungunni, sem hrökk 29. maí 2008. Allir þessir skjálftar voru innan við tvö stig.
Um 40 smáskjálftar mældust á Suðurlandsundirlendinu, mesta virknin var við Hestfjall og á Hestvatnssprungunni sem hrökk 21. júní 2000. Skjálftarnir við Hestfjall urðu allir 3. og 4. febrúar en dreifðust yfir mánuðinn á Hestvatnssprungunni.
Norðurland
Um 200 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi og er það svipaður fjöldi og í janúar. Rúmlega helmingur virkninnar var í Öxarfirði, flestir í skjálftaröð sem hófst að morgni 2. febrúar með skjálfta af stærð 3,3. Flestir skjálftarnir mældust fyrsta klukkutímann og 50 fyrsta daginn en heildarfjöldinn í skjálftaröðinni var yfir 70. Í nágrenni Grímseyjar mældust tæplega 30 jarðskjálftar og svipaður fjöldi samanlagt á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Á annan tug smáskjálfta mældist við Kröflu og tæpur tugur austan Reykjahlíðarhverfisins. Rúmlega 10 voru staðsettir við Bæjarfjall á Þeistareykjasvæðinu.
Skjálfti um 2,8 að stærð mældist á Kolbeinseyjarhrygg, um 200 kílómetra norðaustur af Kolbeinsey þann 23. febrúar klukkan 10:39.
Mýrdalsjökull
Ríflega 50 jarðskjálftar mældust undir Mýrdalsjökli og er það nánast sami fjöldi og mánuðinn á undan. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar sem samanstóð einkum af fjórum þyrpingum við sigkatla. Þess utan voru nokkrir skjálftar við öskjubarminn austan- og sunnanverðan. Grunnur jarðskjálfti af stærð 3,3 átti upptök undir vestanverðri Kötluöskjunni þann 21. febrúar klukkan 02:26. Fimm eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, sá stærsti 2,2 stig. Sama dag mældist djúp hrina sunnan Austmannsbungu. Um 10 skjálftar voru staðsettir þar frá klukkan 16:11 til 16:14 á 13-20 kílómetra dýpi, allir innan við 1,5 að stærð. Djúpar hrinur hafa áður mælst á svipuðum slóðum og tengjast líklega kvikuhreyfingum. Um tugur smáskjálfta mældist syðst í öskjunni og nokkrir í henni norðanverðri. Á annan tug skjálfta var staðsettur í vestanverðum jöklinum við Goðaland, stærsti tvö stig.
Nokkrir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, stærsti 2,2 að stærð og einn smáskjálfti undir sunnanverðum Eyjafjallajökli.
Hálendi
Meira en helmingi færri skjálftar mældust við Bárðarbungu í febrúar en mánuðinn á undan. Þennan mánuð voru þeir um 700 en 1600 í janúar. Mesta virknin var í norðanverðri öskjunni líkt og verið hefur. Stærsti skjálftinn varð 6. febrúar kl. 03:48, 4,9 stig. Stærri skjálftum hefur fækkað mikið milli mánaða þar sem tæplega 20 skjálftar voru fjögur stig eða stærri í febrúar miðað við rúmlega 100 mánuðinn á undan. Þrír djúpir skjálftar (16-19 kílómetra dýpi) mældust suðaustan Bárðarbungu, þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs. Hátt í 500 skjálftar mældust í kvikuganginum undir og norður af Dyngjujökli og fjölgaði þeim nokkuð frá síðasta mánuði. Hugsanleg skýring fyrir þessari fjölgun getur verið að um leið ogskjálftavirkni minnkar við Bárðarbungu og með minnkandi gosóróa í Holuhrauni sjáist minni skjálftarnir, eins og í ganginum, betur. Stærstu skjálftar þar voru um og innan við tvö stig.
Um 20 smáskjálftar mældust við Grímsvötn og á svæðinu þar suður af. Á annan tug skjálfta mældist norður af Skeiðarárjökli, flestir um og innan við eitt stig. Þann 23. febrúar, klukkan 10:20, varð skjálfti um níu kílómetra suðaustur af Grímsfjalli, 2,7 að stærð. Það var jafnframt stærsti skjálftinn í sunnanverðum jöklinum í febrúar. Einn smáskjálfti varð skammt norðan Öræfajökulsöskjunnar.
Um 30 skjálftar voru staðsettir við Tungnafellsjökul, einkum við hann norðanverðan, stærsti rúm tvö stig.
Á svæðinu við Öskju mældust um 50 skjálftar. Flestir urðu í austanverðri öskjunni og var stærsti skjálftinn 2,3 að stærð. Um tugur skjálfta var staðsettur undir Víkursandi skammt norðaustur af Öskju. Rúmlega 200 skjálftar urðu við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Skjálftahrina hófst austan við Herðubreiðartögl klukkan tvö eftir miðnætti 13. febrúar og stóð hún fram undir hádegi. Rúmlega 40 skjálftar mældust, stærsti 2,4 að stærð. Smáhrina hófst um miðjan dag 23. febrúar norðan Upptyppinga og stóð hún fram eftir kvöldi. Stærsti skjálftinn var 1,7 að stærð.
Í vestara gosbeltinu var fremur rólegt. Tveir skjálftar áttu upptök undir Lónsjökli og einn undir Geitlandsjökli en báðir þessir jöklar eru í sunnanverðum Langjökli. Tveir skjálftar urðu sunnan Langjökuls, annar norðan Sandfells og hinn norðan Sandvatns. Einn skjálfti varð um þremur kílómetrum vestan Hveravalla og einn undir norðaustanverðum Hofsjökli. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig.