Jarðskjálftayfirlit - Desember 2024
Reykjanesskagi
Á öllum Reykjanesskaga mældust rúmlega 400 jarðskjálftar í mánuðinum sem leið. Virkni var nokkuð dreifð en flestir skjálftar mældist vestur af Kleifarvatni og við Fagradalsfjall. Eldgosið sem hófst 20.nóvember lauk þann 8.desember og er annað stærsta eldgosið að rúmmáli á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023. Gögn frá myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar sýna að hraunbreiðan sem myndaðist var 49,3 milljón m3 og 9,0 km2 að flatarmáli. Þykkasti hluti hraunbreiðunnar mældist við gíginn og varnargarða við Bláa lónið en meðalþykkt hraunbreiðunnar var 5,5 metrar. Þann 18. desember síðastliðinn var eitt ár liðið frá því að fyrsta eldgosið í þessari eldgosahrinu á Sundhnúksgígaröðinni hófst. Frá því hafa orðið alls sjö eldgos sem stóðu yfir í alls 114 daga og um 216 milljón m3 af hraunbreiðum myndast.
Aflögunargögn sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Samkvæmt líkanreikningum sem byggja á nýjustu aflögunargögnum er kvikuinnflæðið nú rétt rúmlega 3 m3/s, sem er svipaður hraði og fyrir síðasta eldgos. Miðað við þann hraða má því gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast í lok janúar. Sjá nánar í frétt hér: Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram
Reykjaneshryggur
Rúmlega 250 skjálftar mældust í desember. Rúmlega 200 skjálftar mældust í hrinu nærri Eldey sem varð dagana 29.-31.desember. Þar af mældust 2 skjálftar yfir 3 að stærð, sá stærri 3,8 að stærð. Jarðskjálftahrinur nærri Eldey hafa verið algengar undanfarin ár, en hátt í 60 jarðskjálftar yfir M3 að stærð hafa mælst þar frá árinu 2020.
Grjótárvatn
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi hélt áfram í desember en rúmlega 180 jarðskjálftar mældust í mánuðinum. Þetta er mesti fjöldi sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu frá upphafi mældinga. Eins mældist stærsti skjálftinn til þessa þann 18.desember en hann var 3.2 að stærð og bárust Veðurstofunni tilkynningar að skjálftinn hafi fundist m.a. í uppsveitum Borgarfjarðar og á Akranesi. Jarðskjálftavirkni hefur reglulega mælst þarna síðan vorið 2021 en frá ágúst 2024 hefur virknin farið vaxandi. Frá því að virknin hófst um vorið 2021 þá varð skjálftinn sem mældist 18.desember sá stærsti, en haustið 2021 mældust tveir skjálftar um M3 að stærð. Fyrir 2021 mældist síðast markverð skjálftavirkni þarna árið 1992 en þá mældust tveir skjálftar um M3 að stærð, sá stærri M3,2, og nokkrir aðrir yfir M2,0. Það jarðskjálftayfirlit sem miðað er við nær aftur til ársins 1991 (SIL-kerfið).
Eftir að jarðskjálftamælir var settur upp í Hítardal nær upptökum jarðskjálftanna fæst betra mat á dýpi þeirra. Flestir jarðskjálftar á svæðinu verða í kringum 15 –18 km dýpi. Frá því að GPS-stöð var sett upp í nóvember 2024 í Hítardal hefur ekki mælst aflögun á yfirborði þar. Greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna heldur ekki mælanlega aflögun á yfirborði.
Margt bendir til þess að kvikusöfnun á miklu dýpi valdi jarðskjálftavirkninni eins og stuttar jarðskjálftahviður sem hafa mælst undanfarið og dýpi virkninnar. Þörf er á frekari greiningu til að meta með vissu hvaða ferli er í gangi við Grjótarvatn og frekari rannsóknir verða gerðar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á ferðinni grunnt í jarðskorpunni. Veðurstofa Íslands mun skipuleggja aukna vöktun á svæðinu með jarðskjálfta- og GPS-stöðvum til að skilja og vakta betur þróun virkni á svæðinu.
Vatnajökull
Virknin í Vatnajökli var nokkuð dreifð, alls mældust rúmlega 230 skjálftar. Flestir skjálftar mældust í Bárðarbungu, þar á eftir við Skaftárkatlana og síðan við Grímsvötn. Einn skjálfti mældist yfir 3 að stærð við Skaftárkatlana en hann varð þann 19.desember og reyndist 3.1 að stærð.
Bárðarbunga
Nokkur virkni var í Bárðarbungu en um 110 jarðskjálftar mældust í mánuðinum. Þar af voru 45 jarðskjálftar yfir M1 að stærð en á árinu 2024 mældust að meðaltali 33 skjálftar yfir M1 í mánuði. Tveir stærstu skjálftarnir í desember 2024 voru M5,1 þann 8. desember og M3,8 þann 29. desember. Skjálftinn þann 8. desember var fjórði skjálftinn á árinu 2024 sem er að stærð M5 eða stærri.
Hofsjökull
Í mánuðinum mældust 33 jarðskjálftar í Hofsjökli og stærsti skjálftinn var 3.3 að stærð þann 13. desember í vesturparti jökulsins. Skjálftavirkni í Hofsjökli hefur farið hægt vaxandi undanfarin ár en þetta er mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á síðustu árum. Síðast mældist skjálfi yfir M3 að stærð í maí 2022 en þar áður þarf að fara aftur til desember 2006.
Askja
Í Öskju mældust um 70 skjálftar í mánuðinum sem er svipaður fjöldi og í síðustu mánuði. Stærsti skjálftinn mældist 1.8 að stærð. Lítilsháttar virkni var í og við Herðubreið. Landris, sem hefur verið í gangi síðan sumarið 2021, heldur áfram í Öskju en þó á minni hraða síðan haustið 2023. Þó hafa ekki borist gögn frá GPS mælum inni í Öskju síðan um miðjan desember. Það er vegna rafmagnsleysis og erfiðra aðstæðna til mælareksturs í mesta skammdeginu um hávetur. Á næstu vikum fara tæknimenn VÍ í ferð inní Öskju og hlaða tækin og ættu þá að berast aftur gögn.
Hekla
Hátt í 30 smáskjálftar, langflestir undir M1 að stærð, mældust í og við Heklu í mánuðinum. Það er nokkuð meira en í síðasta mánuði en í september 2024 mældust rúmlega 20 smáskjálftar. Skjálftarnir voru flestir staðsettir rétt suðvestur af Heklu.
Suðurlandsbrotabeltið
Alls mældust um 130 skjálftar á Suðurlandsbrotabeltinu í desember. Virknin var nokuð dreifð en þó nokkur virkni var við Raufarhólshelli eða um 35 skjálftar.
Hengill
Rúmlega 120 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu í mánuðinum, virknin var nokkuð dreifð. Stærsti skjálftnin mældist 2.4 að stærð
Mýrdalsjökull
Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli var lítil í desember. Tæplega 25 skjálftar mældust sem eru mun færri í nóvember þegar rúmlega 100 skjálftar mældust.
Torfajökull
Rúmlega 15 jarðskjálftar mældust í Torfajökli, sá stærsti M1.3 í vestanverðri Torfajökulsöskjunni.