Jarðskjálftayfirlit - Janúar
Reykjanesskagi
Á Reykjanesskaga voru 780 jarðskjálftar staðsettir í janúar og voru tveir þeirra yfir M3.0 að stærð. Um 240 skjálftar mældust í jarðskjálftahrinu sem hófst í Vífilsfelli þann 27. janúar og stóð yfir í 5 sólahringa, allir skjálftarnir mældust undir M3.0 að stærð. Á Hvalhnúksmisgenginu mældust um 70 skjálftar, sá stærsti M3.0 þann 24. janúar kl. 06:06. Vestan við Kleifarvatn voru um 300 skjálftar staðsettir og var virknin nokkuð dreifð þar á svæðinu, stærsti skjálftinn mældist M3.3 í Trölladyngju þann 18. janúar og barst Veðurstofunni tilkynningar frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu um að hann hafi fundist. Síðan í janúar í fyrra (2024) hafa sjö skjálftar mælst yfir 3 að stærð á Trölladyngjusvæðinu, sá stærsti 4,2 þann 3. janúar 2024. Um tuttugu skjálftar mældust við Reykjanestá.
Um 70 smáskjálftar mældust í Fagradalsfjalli og rúmlega 30 við Sundhnúksgígaröðina og Svartasengi. Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris og kvikusöfnun undir Svartsengi. Atburðarrásin heldur því áfram á svipaðan hátt og fyrir síðustu gos. Líkanreikningar sýna að magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi nálgast það magn sem fór þaðan í eldgosi og því aukast líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Nánar má lesa hér líkur á eldgosu á Sundhnúksgígaröðinni fara vaxandi.
Á Reykjaneshrygg mældust um 90 skjálftar í janúar og voru þeir allir undir M3.0 að stærð.
Suðurland
Í Henglinum voru tæplega tuttugu jarðskjálftar staðsettir í janúar og var virknin nokkuð dreifð. Svipaður fjöldi á mánuðinn á undan. Stærsti skjálftinn mældist M2.1 við borholu í Hverahlíð þann 13. janúar. Átta skjálftar mældust við Nesjavelli, sá stærsti M1.8 þann 17. janúar.
Á víð og dreif um Suðurlandsbrotabeltið mældust 16 skjálftar í mánuðinum, stærstur var M2.9 við Kvíhól þann 4. janúar.
Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 10 skjálftar í janúar, sá stærsti M2.3 við Kaldaklofsfjöll þann 14. janúar. Virknin var minni en í mánuðinum á undan þegar þeir voru um 15 talsins.
Í Mýrdalsjökli mældust sjö smáskjálftar.
Grjótárvatn
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi heldur áfram að aukast, í janúar voru rúmlega 250 skjálftar staðsettir. Þetta er mesti fjöldi sem mælst á einum mánuði frá því að mælingar hófust, en í desember 2024 voru þeir um 180 talsins. Stærsti skjálftinn mældist M3.2 að stærð þann 16 janúar kl. 07:17, engar tilkynningar bárust Veðurstofunni um að skjálftinn hafi fundist í byggð.
Jarðskjálftar á mánuði við Grjótárvatn frá júlí 2021 - janúar 2025Flestir jarðskjálftarnir eru staðsettir á um 15-20km dýpi, aukinn þrýstingur í jarðskorpunni vegna kvikuinnskots er talin tengjast þessari djúpri virkni. Frekari greining á jarðskjálftagögnum frá árunum 2021-2024 við Grjótárvatn sýnir að virknin hefur hátt b-gildi (~2), svipað og var í djúpri skjálftahrinu við Upptyppinga árið 2007. Há b-gildi eru oft tengd jarðskjálftum á eldvirkum svæðum og lýsa óvenju háu hlutfalli lítilla skjálfta. Óróahviður mældust 2. og 10. janúar sem stóðu yfir í um klukkustund. Til viðbótar við óvenjulega dýpt jarðskjálftanna og b-gildi þeirra gefa tímalengd virkninnar, nýlegar óróahviður og samanburður við sögulega virkni í öðrum eldstöðvarkerfum til kynna að líklegasta skýringin á þessari skjálftavirkni sé kvikuinnskot á dýpi frekar en jarðskorpuhreyfingar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á leið upp til yfirborðs.
Á meðan jarðskjálftavirknin heldur áfram á svipuðu dýpi má búast við fleiri skjálftum af stærð um 3 en ólíklegt er að skjálftar stærri en 4 geti myndast á þessu dýpi. Í ljósi aukinnar virkni og vísbendinga um kvikuinnskot á dýpi hefur Veðurstofan hækkað vöktunarstig á Ljósufjöllum. Nánar má lesa í frétt Virkni við Grjótárvatn.
Miðhálendið
Í janúar mældust átta skjálftar í Hofsjökli en í desember á síðasta ári voru þeir 33 talsins. Stærsti skjálftinn var M2.8 að stærð í norðaustanverðri öskjunni þann 28. janúar.
Í Langjökli mældust fimm skjálftar, sá stærsti M2.1 þann 1. janúar undir austanverðum jöklinum. Stakur skjálfti mældist í Skjaldbreið af stærð M1.8 þann 30. janúar og tveir smáskjálftar vestan við Högnhöfða.
Tæplega 80 skjálftar mældust í og við Öskju í janúar, svipaður fjöldin og síðustu mánuði. Mesta virknin var í suðaustanverðri öskjunni og voru allir skjálftarnir undir M2.0 að stærð. Áframhaldandi landris mælist við Öskju frá árinu 2021. Sjö smáskjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl.
Við Kröflu mældust 11 skjálftar, sá stærsti M2.3 að stærð þann 9. janúar.
Vatnajökull
Virknin í Vatnajökli var nokkuð dreifð undir vesturhelming jökulsins, um 300 jarðskjálftar mældust í janúar en í desember voru þeir um 230 talsins. Lang flestir skjálftar mældust í Bárðarbungu og þar mældist einnig stærsti skjálfti mánaðarins, M4.9 að stærð.
Við Hamarinn og Skaftárkatlana mældust 23 skjálftar, sá stærsti M2.3 við vestari ketilinn þann 8. janúar. Í og við Grímsvötn mældust 24 skjálftar og voru þeir allir undir M2.0 að stærð.
Tæplega 3km norðvestur af Höfn mældist skjálfti af stærð M1.7 þann 21. janúar Vinnsla/EX?
Bárðarbunga
Tæplega 200 jarðskjálftar mældust í Bárðarbungu í janúar. Að morgni 14 janúar hófst öflug jarðskjálftahrina í norðvestanverðri öskjunni, kl.08:05 mældist skjálfti af stærð M4.9 og urði 21 skjálftar yfir M3.0 að stærð á svipuðum tíma. Jarðskjálftahrinan er sú kröftugasta síðan að síðustu eldsumbrot urðu í Bárðarbungu á árunum 2014 til 2015 og eldgos varð í Holuhrauni. Hreyfingar í jarðskjálftunum samræmast aukinni þenslu vegna kvikusöfnunar sem hefur staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum 2015. Fluglitakóði fyrir Bárðarbungu var hækkaður í kjölfarið en hefur síðan verið lækkaður á ný. Nánar má lesa í frétt Öflug jarðskjálftahrina í Bárðarbungu.
Jarðskjálftavirkni hefur farið vaxandi í Bárðarbungu síðustu mánuði og mældust m.a. fjórir skjálftar um eða yfir M5 að stærð á árinu 2024. Samhliða því hefur mælst aukin hraði í aflögun vegna kvikuinnstreymis á dýpi undir Bárðarbungu.
Norðurland
Á Grímseyjarbeltinu voru tæplega 140 jarðskjálftar staðsettir í Janúar og voru þeir allir undir M3.0 að stærð og virknin nokkuð dreifð um svæðið. Í desember í fyrra voru skjálftarnir um 100 talsins og því örlítil aukning frá fyrri mánuði.
Á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu mældust um 45 jarðskjálftar í mánuðinum, sá stærsti M2.1 um 13km VNV af Gjögurtá þann 11. janúar.
Níu skjálftar mældust á Kolbeinseyjarhrygg, sá stærsti M3.7 að stærð þann 29. janúar.