Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 24, 10. – 16 júní 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 120 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, virknin dreifðist að mestu milli Fagradalsfjalls, Kleifarvatns og Brennisteinsfjalla. Tveir skjálftar urðu í kvikuganginum við Grindavík. Stærsti skjálftinn varð við Kleifarvatn 12. júní og var hann 2,38 að stærð.

Úti á Reykjaneshrygg mældust tveir skjálftar í vikunni, sá stærsti 2,87 að stærð, þann 15. júní.

Hengilssvæðið

Lítil virkni var á Hengilssvæðinu, um 20 skjálftar mældust á víð og dreif um svæðið.

Suðurlandsbrotabeltið

Um 35 jarðskjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu dreifðir um beltið. Sá stærsti varð 16. júní, 2,1 að stærð við Hveragerði. Engir skjálftar mældust í Heklu þessa vikuna.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Í og við Hofsjökul urðu tveir skjálftar, 10. og 14. júní, báðir 1,76 að stærð.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið

Í Mýrdalsjökli voru mældir 4 skjálftar þessa vikuna, allir litlir. Á Torfajökulssvæðinu mældust rúmlega 10 skjálftar, allir um eða undir 1 að stærð, og eru það svipað margir skjálftar og mældust vikuna á undan.

Vatnajökull

Í Vatnajökli mældust um 50 skjálftar í þessari viku. Þeir voru dreifðir víða um jökulinn, en þó voru flestir þeirra við rætur Skeiðarárjökuls. Nokkrir litlir skjálftar mældus tí Öræfajökli og restin af virkninni dreifðist á svæðið frá Skeiðarárjökli og að Bárðarbungu. Þar varð stærsti skjálftinn 13. júní, 2,42 að stærð.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Um 20 smáskjálftar mældust við Öskju í vikunni, fremur dreift um svæðið. Áfram urðu nokkrir skjálftar við Arnardalsöldu, í framhaldi af hrinunni sem hefur verið í gangi þar síðastliðnar vikur. Við Herðubreið urðu um 20 smáskjálftar

Krafla og Þeistareykir

Nokkrir smáskjálftar mældust við Kröflu í vikunni sem leið, einnig við Bæjarfjall.

Tjörnesbrotabeltið

Rúmlega 40 skjálftar mældust í vikunni á Tjörnesbrotabeltinu. Flestir voru þeir á þremur stöðum, í Öxarfirði, austan við Grímsey og Rétt norðan Húsavíkur. Engir þeirra mældust yfir 2 að stærð.



Vikuyfirlit má finna í eftirfarandi hlekk: http://hraun.vedur.is/ja/viku/2024/vika_24/listi





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica