Jarðskjálftayfirliti - mars 2025
Samantekt
Í Mars mældust rúmlega 2700 jarðskjálftar á landinu þar af var um helmingur þeirra á Reykjanesskaga. Stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð í Bárðarbungu þann 19. mars en alls mældust 10 skjálftar yfir M3 að stærð. Tveir þeirra í Bárðarbungu en aðrir á Reykjanesskaga, flestir í jarðskjálftahrinu við Reykjanestá sem stóð yfir dagana 12. - 14. mars. Í hrinunni mældust um 350 skjálftar þar af fimm skjálftar yfir M3 að stærð.
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi heldur áfram og var svipuð á milli mánaða, en rúmlega 100 jarðskjálftar mældust þar í mars og febrúar. Stærsti skjálftinn í mars var 2,9 að stærð þann 4. mars. Engin breyting er á dýpi virkninnar á svæðinu en áfram mælist flestar skjálftar þar á um 16-20 km dýpi.
Reykjanesskagi
Um 1400 jarðskjálftar mældust á öllum Reykjanesskaganum í mars. Flestir jarðskjálftanna voru í tveimur jarðskjálftahrinum annars vegar við Reykjanestá og hinsvegar í Sveifluhálsi við Kleifarvatn. Um 350 skjálftar, þar af fimm skjálftar yfir M3, mældust í hrinunni við Reykjanestá dagana 12. - 14. mars en um 200 skjálftar mældust dagana 9. - 10. mars í Sveifluhálsi við Kleifarvatn en þar var stærsti skjálftinn M3 að stærð.
Á Krýsuvíkursvæðinu, í kringum Trölladyngju og Kleifarvatn mældust alls 500 jarðskjálftar í mánuðinum að meðtaldri hrinunni 9. - 10. mars. Þann 26. mars mældist skjálfti af stærð M3,2 í Trölladyngju og fylgdu honum nokkrir smærri skjálftar.
Að kvöldi 30. mars var skjálfti af stærð M3,2 við Vífilsfell skammt frá Bláfjöllum. Í lok janúar á þessu ári varð smáskjálftahrina á sama stað þegar um 250 skjálftar mældust, en þá voru stærstu skjálftarnir rúmlega M2 að stærð.
Í Fagradalsfjalli mældust um 60 smáskjálftar, allir undir M2.0 að stærð, í mánuðinum. Lítil virkni var þar í febrúar en var svipuð og tvo mánuðina þar á undan.
Á Sundhnúksgígaröðinni fór jarðskjálftavirkni áfram hægt vaxandi en mest mældust þar um 20 skjálftar á dag. Landris og kvikusöfnun hefur haldið áfram en það hægði á því eftir því sem leið á mánuðinn. Að morgni 1. apríl dró þó til tíðinda og áköf jarðskjálftahrina hófst á Sundhnúksgígaröðinni. Um kl. 9:44 hófst eldgos norðan Grindavíkur en hátt í 20 km langur kvikugangur hafði myndast sem náði frá varnargörðum norðan Grindavíkur og norður fyrir Keili. Nánar má lesa um þá atburði hér: Landris heldur áfram í Svartsengi | Fréttir | Veðurstofa Íslands
Bárðarbunga
Rúmlega 110 jarðskjálftar mældust í Bárðarbungu í mars mánuði. Stærsti skjálftinn mældist M4,2 að stærð þann 19. mars en sá næst stærsti M3,5 þann 12. mars. Síðustu tvo ár hafa að meðaltali 70 jarðskjálftar mælst í hverjum mánuði í Bárðarbungu, en jarðskjálftavirkni síðustu mánaða hefur verið yfir því en á milli 100 til 200 skjálftar hafa mælst þar síðustu fimm mánuði.
Grjótárvatn
Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi heldur áfram en hélst svipuð á milli mánaða í febrúar og mars, en rúmlega 100 jarðskjálftar mældust þar síðustu tvo mánuði. Stærsti skjálftinn í mars var 2,9 að stærð þann 4. mars. Engin breyting er á dýpi virkninnar á svæðinu en áfram mælist flestar skjálftar þar á um 16-20 km dýpi.
Vesturgosbeltið
Smáskjálftahrina mældist við Högnhöfða sunnan Langjökuls þann 12. mars, en þá mældust 11 smáskjálftar allir undir M1,5 að stærð.
Hengill
Tæplega 60 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu í mánuði sem myndi teljast til nokkuð hefðbundinnar virkni, en stærstu skjálftarnir þar voru M2,5 og M2,3 að stærð nærri Ölkelduhálsi.
Austurgosbeltið
Eyjafjallajökull
Ellefu smáskjálftar, undir M1,5 að stærð, mældust í Eyjafjallajökli í mánuðinum. Skjálftarnir urðu á miklu dýpi eða frá 20 til 25 km. Á síðustu árum hafa næstum alla mánuði mælst færri en 10 skjálftar í Eyjafjallajökli
Hekla
Þann 8. mars mældist skjálfti af stærð M2.0 í Heklu. Síðast mældist skjálfti af svipaðri stærð í nóvember 2021.
Hefðbundin virkni var í öðrum eldstöðvum í austurgosbeltinu eins og Kötlu og Torfajökli.
Norðurgosbeltið
Askja
Í mars mældust 60 jarðskjálftar í Öskju og var stærsti skjálftinn M2,5 að stærð þann 11. mars. Landris í Öskju heldur áfram á svipuðum hraða og undanfarna mánuði.
Suðurlandsbrotabeltið
Dagana 20. til 23. mars mældust rúmlega 40 jarðskjálftar í norðaustanverðu Hestfjalli í smá hrinu. Stærsti skjálftinn var M2.2 að stærð. Á síðustu árum hefur jarðskjálftavirkni verið algengari vestar í fjallinu miðað við staðsetningu þessarrar hrinu.
Tjörnesbrotabeltið
Um 350 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í mánuðinum. Flestir í tveimur þyrpingum í Öxarfirði. Þann 23. mars varð smá hrina innarlega í firðinum nærri Kópaskeri, en tveimur dögum síðar varð önnur lítil jarðskjálfthrina um miðja vegu á milli Kópaskers og Grímseyjar. Stærstu skjálftarnir á þessum svæðum voru um 2,4 að stærð.
Hofsjökull
Jarðskjálftavirkni hefur farið hægt vaxandi í Hofsjökli frá árinu 2023. Að meðaltali hafa orðið 8 jarðskjálftar mánuði í mánuði síðustu tvö ár en í desember 2024 mældist yfir 20 jarðskjálftar þar af sá stærsti M3,3. Það sem af er árinu 2025 hefur hinsvegar verið minni virkni og mældust átta jarðskjálftar þar í mars.