Viðurkenningar
Brimbrettakappi
Jay sagði, í september 2016: Just wanted to drop you guys a line and say thank you. I was in Iceland for 16 days in September surfing, and your web site was so crucial to the trip on knowing when to move and where to go. Keep up the great work. Thanks again.
Innihaldið afburðagott
Vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni veturinn 2014 - 2015, reyndi enn á vefinn til upplýsingamiðlunar, innanlands jafnt sem utan.
Þetta barst frá Reading á Englandi, þar sem margir íslenskir veðurfræðingar hafa hlotið þjálfun: "As ever, IMO's web material is utterly excellent – really setting a high standard in good science communication." Snarað á íslensku: "Eins og alltaf þá er innihaldið á vef Veðurstofu Íslands afburðagott - og setur hreinlega háan staðal hvað varðar góð samskipti um vísindaleg málefni."
Og þetta barst frá notanda í Gloucestershire á Englandi: "Thank you for all your hard work and effort on the brilliant site of Iceland's eruption volcano. I'm glued to the site day and night, it is so brilliant."
Og þetta barst frá Belmont, MA, USA: Congratulations and thank you for superb coverage and public release of information about the Bárðarbunga eruption 2014-2015. I have been on the staff of Harvard SEAS since 1959, retired now. I have visited Iceland twice, once going North to walk around Krafla and visit the geothermal station in the mid 1980's. For the past five months I have - daily - checked into your site and studied the data you have shared. I have spent many hours watching the video coverage - many in September are the finest fountain reports available. The earthquake animation you had was spectacular. The report released yesterday (30 Jan) is just another excellent comprehensive review. The GPS motion data has been fascinating as well. Since the 1960's I have been a regular visitor to Kilauea, on rare occasion watching flows, but always fascinated. They have never displayed details as well or completely as you have. Of course now I watch them daily as well. Great job – Thanks.
Og þetta frá Saskatchewan í Kanada: "As a volcano enthusiast, if there is such a thing, and whom understands the impact a volcano eruption can have world wide, I wanted to thank you for all the amazing information on the eruption at Holuhraun over the last six months. Your website, en.vedur.is, is truely impressive."
Vancouver í Kanda: "You folk are terrific! We visited Iceland for the first time last October ... Since then I have followed your site to keep an update on Bárðarbunga every day as well as the webcams."
Hraðasti vefurinn
UT messan í febrúar 2014 bauð meðal annars upp á kynningu Opinna kerfa á Íslandsvaktinni sem vaktar netumferð en Íslandsvaktin safnar saman upplýsingum um náttúru og náttúruhamfarir, umferð, fjármálageirann, heilbrigðismál og netmál á Íslandi ásamt ýmsu smálegu til gamans.
Í samantekt yfir hröðustu og hægustu vefi landsins kom fram að Veðurstofa Íslands ætti hraðasta vef landsins og að meðalsvartími hans væri 0,4 millisekúndur; þetta er mikill hraði og umræðan rataði í fjölmiðla. Veðurstofan vill þó taka fram að þetta var ekki yfirgripsmikil úttekt á vefjum landsins og beindist fremur að því að finna þá vefi sem vinna of hægt.
Metnaður hefur verið lagður í það að svartími vedur.is sé sem allra stystur og ástæðan fyrir því er sú að Veðurstofan ber ábyrgð á að vakta hættuna á náttúruvá og birta viðvaranir um leið og þarf.
Aukin notkun er besta viðurkenningin
Aukin notkun vefsins er besta viðurkenningin á gildi hans og viðmóti. Til gamans má sýna hér línurit frá Modernus yfir daglegar heimsóknir á vedur.is að sumri til, 2007-2011. Þess má geta að náttúruhamfarir undanfarinna ára hafa að mestu átt sér stað að vori til og verstu veðrin valda aukinni notkun síðla hausts eða að vetri til, þannig að þetta línurit er vísbending um aukna almenna notkun.
Hvernig nýttist vefurinn í eldgosunum?
Við eldgosin vorið 2010 reyndi verulega á upplýsingamiðlun um vef Veðurstofunnar, vedur.is. Skemmst er frá því að segja að eftir hnökra fyrstu dagana gekk miðlun upplýsinga vel og ánægja með vefinn var almenn.
Markmiðið var að koma á vefinn sem mestu um eldgosið og allt sem því fylgdi - á íslensku og ensku - til að upplýsa vísindasamfélagið, almenning og fjölmiðla.
Gerð samræmdrar stöðuskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ varð til hagræðingar og nýttist vel.
Upplýsingamiðlun varðandi eldgosið var af þrennum toga: í fyrsta lagi svokallaðar kvikar síður sem uppfærast sjálfvirkt og sýna staðsetningu nýrra jarðskjálfta, tímasetningu þeirra og stærð, tvo sólarhringa aftur í tímann. Slíkt kort fyrir Mýrdalsjökul og nágrenni sýndi virkni kringum Eyjafjallajökul mjög vel.
Í öðru lagi voru fréttir og fréttagreinar skrifaðar daglega með fjölda ljósmynda sem bárust bæði frá sérfræðingum og áhugamönnum úr vettvangsferðum eða könnunarflugi; einnig voru birt stutt myndskeið, ýmist tekin í nálægð við atburðina eða samsett úr gervihnattamyndum. Öðru hvoru var fjallað ítarlegar um tiltekin atriði t.d. dýpt skjálftanna og fylgdu þá staðsetningarkortum lóðrétt snið sem sýndu hvernig þyrpingin þokaðist upp á við. Við umfjöllun um flóð og jökulhlaup voru birt kort ásamt línuritum úr vatnshæðarmælum sem sýndu snöggar breytingar. Hraunflæðilíkan var gert fyrir Fimmvörðuháls og vel fylgst með myndun gíga í Eyjafjallajökli. Mikið var fjallað um hæð og gerð gosmakkarins og um dreifingu öskunnar yfir Atlantshaf.
Í þriðja lagi gerðu veðurfræðingar öskufoksspá tvisvar á dag sem var ávallt aðgengileg á vefnum og sérstakt kort var hannað til myndrænnar framsetningar á þeim upplýsingum. Allir voru hvattir til að láta vita ef ösku varð vart og skráningarform hannað vegna þess. Nýjum öskuupplýsingum frá almenningi jafnt sem veðurathugunarmönnum var bætt jafnóðum í töflu sem var öllum opin á vefnum. Einnig var til staðar skráningarform vegna jarðskjálfta.
Til hægðarauka fyrir bændur og aðra sem áhyggjur höfðu af flúormengun voru settar á ákveðna vefsíðu upplýsingar um úrkomu á þeim svæðum þar sem aska lá eða gæti hafa safnast við öskufjúk.
Tenglar á sértækar síður jarðváreftirlits Veðurstofunnar vegna gosóróa og hniks (GPS mælinga) voru aðgengilegir á öllum vefsíðum sem tengdust eldgosinu. Tenglar voru á vefmyndavélar einkaaðila nærri Eyjafjallajökli ásamt tengli á Almannavarnir og fleiri stofnanir sem fylgdust með gosinu. Fyrirspurnir og ábendingar frá almenningi voru gagnlegar og notaðar til að bæta vefsíðurnar.
Áberandi borði efst á hverri síðu vefsins veitti flýtileiðir á allt er eldgosið varðaði, bæði ofangreint og svör við helstu spurningum. Nánast allt þetta efni var jafnóðum sett fram á enskum vef Veðurstofunnar. Báðir vefir hlutu verðskuldaða athygli vegna eldgossins og ánægja með framsetningu upplýsinga var almenn.
Svo til daglega voru skrifuð minnisblöð um vinnu tengda eldgosinu, sem hægt verður að hafa til hliðsjónar við svipaðar aðstæður í framtíðinni. Samantekt þeirra var birt í Skýrslu Veðurstofu Íslands nr. 2010-007.
Sú framsetning sem notuð var á vef stofnunarinnar í Eyjafjallajökulsgosinu nýttist nokkru síðar við Grímsvatnahlaup, þó í minna mæli væri, og mun nýtast í næsta eldgosi eða við aðra stóratburði sem kunna að eiga sér stað framtíðinni.
Fundir um áhrif eldgossins
Fram hefur komið að vedur.is hafi reynst vel í eldgosahrinunni vorið 2010.
Þann 14. september 2010 hélt Veðurstofan alþjóðlegan fund á Bústaðavegi fyrir þá sem komu að upplýsingagjöf í eldgosinu, bæði beint til almennings og til fjölmiðla. Fjallað var um notkun vefsins.
Alþjóðleg flugráðstefna Keilis um Eyjafjallajökul og flugsamgöngur var haldin 15. - 16. september 2010. Ráðstefnan var fjölsótt; rætt var um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á ferðaiðnaðinn í heiminum og reynt að taka saman það sem má læra af þessum viðburðum.
Í framhaldi af Keilisráðstefnunni var haldinn vinnufundur innlendra og erlendra jarðvísindamanna á Hvolsvelli dagana 17. -19. september 2010. Rætt var um vöktun jarðhræringa í nágrenni virkra eldfjalla og ályktanir dregnar af nýafstöðnum atburðum í Eyjafjallajökli.
Á öllum þessum fundum kom fram að vedur.is hefði reynst mjög vel. Veðurstofan fékk hrós fyrir aðgengi að gögnum og áratugalöng samvinna Veðurstofu og Almannavarna þótti til fyrirmyndar.
Álag vegna eldgoss
Á fundi hjá Almannavörnum, laugardaginn 24. apríl 2010, var starfsmönnum Veðurstofunnar tjáð það sérstaklega, að viðstöddum þótti vefurinn vera einstaklega notendavænn og aðgengilegur, m.ö.o. til fyrirmyndar. Sérstaklega var tekið fram að allar upplýsingar um gosið væru mjög vel sýnilegar og að nýlegar breytingar hefðu hitt vel í mark.
Skömmu áður (19. apríl) var sett met í daglegri notkun á vefnum. Til gamans má geta að miðað við höfðatölu voru daglegar flettingar nokkru fleiri en met daglegra flettinga á vef dönsku veðurstofunnar, dmi.dk. Einnig var mesta vikuleg notkun hærri, miðað við höfðatölu, en mesta vikuleg notkun á norska veðurþjónustuvefnum yr.no.
Notandi með reynslu
Haraldur Örn, pólfari og fjallgöngumaður, skrifar um vef Veðurstofu Íslands, vedur.is, þann 21. febrúar 2010:
„
Veðurspár á netinu hafa verið í umræðunni að undanförnu. Ég hef legið mikið yfir þessum spákortum til að glöggva mig á veðurútliti fyrir fjallaferðir. Veður til fjalla getur verið mjög frábrugðið veðurfari á láglendi. Allir fjallamenn hafa upplifað að hörfa af fjalli í stormi en þegar niður er komið er þar hið besta veður. Til fjalla verða veðrabreytingar mjög hraðar og nokkrir klukkutímar til eða frá geta skipt sköpum. Góðar upplýsingar um veðurútlit eru því mikilvægar fyrir alla ákvarðanatöku.“
„
Þessar nýju netveðurspár eru að mínu mati alger bylting og hafa reynst mér mjög vel. Í dag nota ég fyrst og fremst veðurþáttaspá, skýjahuluspá og Atlantshafsspá á vedur.is en skoða einnig ýmsar aðrar upplýsingar. Það hefur oft komið mér skemmtilega á óvart hversu nákvæmar spárnar eru orðnar. Tilfellið er að þarna eru mun meiri upplýsingar en virðist í fyrstu sýn en það þarf reynslu til að lesa úr þeim og túlka þær. Með því að horfa á þessar spár hef ég oft fært brottför á fjallgöngu til um nokkrar klukkustundir og hefur það skipt sköpum um að fá hagstætt veður.“
„
Það er ekki vafi í mínum huga að á vedur.is er framsetning á veðurupplýsingum með því besta sem gerist í heiminum. Þar eru nákvæmustu og ítarlegustu veðurupplýsingar að finna fyrir Ísland.“
Þjóðin ánægð með Veðurstofuna
Vorið 2008 gerði Capacent Gallup könnun á afstöðu þjóðarinnar til átján opinberra stofnana.
Um 90% landsmanna töldu Veðurstofuna veita góða eða mjög góða þjónustu og um 75% báru til hennar mikið traust. Einnig kom í ljós að vefurinn vedur.is var orðinn helsti miðill þeirra upplýsinga sem stofnunin býr yfir.
Ánægja notenda samkvæmt viðhorfskönnun
Viðhorfskönnun á vef Veðurstofu Íslands sýnir hversu jákvæðir svarendur eru í garð vedur.is. Um 57% finnst hann mjög góður, 34% góður, 8% meðalgóður, minna en 1% lakur og einungis einum fannst hann óviðunandi.
Það að meira en 90% svarenda segi vedur.is vera mjög góðan eða góðan, bendir til að vefurinn sinni vel þörfum svarenda.
Viðhorfskönnunin var opin öllum notendum vefsins 14.-25. mars 2008. Enginn einn hópur var hvattur til svara umfram annan. Notaður var vefhugbúnaðurinn surveyconsole.com sem reyndist ágætlega. Af 558 sem hófu könnunina kláruðu 504 eða rúmlega 90%.
Beðnir um að nefna hvað þeim fyndist best við vedur.is, virtust svarendur einkum nefna:
- Einfaldleika, skýrleika og grafíska framsetningu vefsins
- Birtingu jarðskjálftaupplýsinganna
- Magn upplýsinga og fróðleiks
Rúmlega 60% nota vefinn daglega og um 90% daglega eða nokkrum sinnum í viku. Svarendur eru því upp til hópa notendur sem nota vefinn mjög oft.
Ánægjan virðist dreifast jafnt eftir aldri, landshlutum, notkun o.s.frv. Þó vottar fyrir því að mesta ánægjan með vefinn sé á suðvestur-horninu utan höfuðborgarsvæðins, hverju sem um er að kenna eða þakka.
Þeir sem nota ISDN tengingar virðast jafn ánægðir með vefinn og aðrir. Af því má ætla að hægari birting vefsins yfir ISDN torveldi ekki í raun notkun hans þó hæg birting kunni að vera til ama fyrir þá sem eru vanir meiri hraða.
Næsta skref samkvæmt upphaflegri kröfugreiningu fyrir Veðurstofu Íslands er að útfæra léttan vef fyrir farsíma og hægar/dýrar tengingar.
Besti vefur í almannaþjónustu 2007
Í febrúar 2008 hlaut vefur Veðurstofunnar verðlaun fyrir besta vef í almannaþjónustu frá SVEF, Samtökum vefiðnaðarins. Yfir eitt hundrað vefir voru tilnefndir til þátttöku og veitt voru verðlaun og viðurkenningar í alls átta flokkum.
Umsögn dómnefndar var á þessa leið: „Sjaldan hefur sést jafn vel heppnuð breyting á vef. Allt er til sóma, viðmótið er vel hannað, nytsamlegt og aðgengilegt sem gerir öllum kleift að skoða vefinn. Einnig er vefurinn mjög gagnvirkur og hægt að skoða allt það nýjasta tengt veðurfari, mengun, jarðskjálftum og fleiru ... besti vefur í almannaþjónustu er www.vedur.is“.
Einn aðgengilegasti veðurstofuvefur Evrópu
Sigrún Þorsteinsdóttir starfar hjá Sjá ehf, óháðri ráðgjöf, og er sérfræðingur í aðgengismálum fatlaðra á Netinu. Hún skrifaði sumarið 2007 grein um einn aðgengilegasta veðurstofuvef í Evrópu og átti þar við nýjan vef Veðurstofu Íslands:
Vottun um gott aðgengi fatlaðra
„Nýverið hlaut vefur Veðurstofu Íslands vottun Öryrkjabandalags Íslands og Sjá ehf. um gott aðgengi fyrir fatlaða notendur. Vefurinn er vottaður um forgang 1 og 2, en forgangur 1 er sú lágmarkskrafa sem gerð er varðandi aðgengi að vefjum.“
„Fyrirtækið Sjá ehf. veitti ráðgjöf varðandi aðgengismál áður en vefurinn hlaut vottun. Ekki er ofsögum sagt að grettistaki hafi verið lyft því vefurinn er tæknilega umsvifamikill ásamt því að vera efnismikill.“
„Umtalsverður tími fór í að finna lausnir til að tryggja aðgengi skjálesara að efni en þá nota blindir notendur þegar þeir skoða vefi. Vinnan hefur þó skilað sé í betri vef fyrir alla notendur.“
Samanburður við aðra sambærilega vefi
„Við samanburð við vefi annarra evrópskra veðurstofa kom í ljós að vefur Veðurstofunnar stendur nú fremstur þeirra hvað varðar aðgengi. Stuðst var við lista frá World Meteorological Organization (WMO, region 6).“
„Gerð var stutt úttekt á aðgengi vefjanna og kom í ljós að aðeins tveir aðrir vefir hefðu hugsanlega með lagfæringum komist í gegnum vottun um forgang 1. Enginn vefjanna var hins vegar nálægt því að komast í gegnum vottun um forgang 2.“
„Sjá ehf. vill nota tækifærið og óska Veðurstofu Íslands til hamingju með glæsilegan og vel heppnaðan vef.“
Endurbætur á vef Veðurstofunnar
- Hægt er að skoða staðarspár, veðurathuganir og upplýsingar um jarðskjálfta í skjálesara ásamt öllu öðru efni.
- Hægt er að stækka og minnka letrið á skjánum.
- Sérstakar stillingar (stillingar.is) eru í boði fyrir lesblinda notendur.
- Hreyfihamlaðir notendur geta vafrað um vefinn án þess að nota músina.
- Öll tenglaheiti eru skýr.
- Myndir í greinum hafa skýringartexta (ALT texta).
- Fyrirsagnir eru merktar sérstaklega fyrir skjálesara.
- Tegund viðhengja er útskýrð.
- Orðskýringar eru til reiðu.
- Leiðbeiningar og útskýringar fyrir allar helstu síðurnar sem birta lifandi gögn eru til reiðu.
- Skammstafanir eru útskýrðar.
- Notkun á PDF-skjölum er takmörkuð og þar sem þau eru notuð eru þau aðgengileg skjálesurum.
Ofangreindur útdráttur úr greininni sem birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2007 er gerður með góðfúslegu leyfi höfundar, Sigrúnar Þorsteinsdóttur á Sjá ehf.