Greinar
Fellibylurinn Betsy
Kort af fellibylnum Betsy í Morgunblaðinu 13. september 1961.

Fellibyljir 7

Nöfn fellibylja

Trausti Jónsson 23.7.2008

Um nafngiftir á fellibyljum


Vegna þess að árlega geta orðið til margir fellibyljir á svipuðum slóðum þykir hentugt að aðgreina þá með nöfnum. Þetta er sérstaklega hagkvæmt þegar tveir eða fleiri eru á sveimi samtímis. Nafngiftir fellibylja eiga sér nokkra sögu. Fyrr á árum voru þeir gjarnan kenndir við þá staði þar sem þeir ollu mestu tjóni, eftir skipum sem þeir sökktu eða dagsetningum. En skömmu fyrir aldamótin 1900 byrjaði ástralskur veðurspámaður að gefa hitabeltisstormunum nöfn. Hann notaðist einkum við nöfn á stjórnmálamönnum, sérstaklega ef honum þótti lítið til þeirra koma. Í síðari heimsstyrjöldinni fóru veðurfræðingar bandaríska flotans að nefna fellibylji í höfuðið á eiginkonum eða vinstúlkum.

Árið 1949 var Harry S. Truman, forseti Bandaríkjanna, á ferð í Flórída. Skömmu síðar gekk fellibylur þar yfir og var hann umsvifalaust nefndur Harry. Síðar kom annar fellibylur við sögu og var sá nefndur Bess í höfuðið á forsetafrúnni.

Í september 1950 mynduðust þrír fellibyljir um svipað leyti, einn við Bermúda, annar við Púertó Ríkó og hinn þriðji í Mexíkóflóa. Allmikill ruglingur upphóftst um hver væri hver. Árið eftir var ákveðið að nota nöfn símastafrófsins. Allt gekk vel það árið, en 1952 var samþykkt nýtt símabókstafakerfi. Það varð til þess að ekki náðist samkomulag um nafn þriðja fellibyls þess árs og var hann ýmist kallaður Charlie eða Cocoa. Ekki gátu menn komið sér saman um hvort kerfið skyldi nota 1953. Þá var stungið upp á kvenmannsnöfnum í stafrófsröð og var það samþykkt.

Kvennanöfnum mótmælt

Svo vildi til að 1954 voru margir fellibyljir á sveimi nálægt ströndum Bandaríkjanna. Þá reis upp mótmælaalda gegn því að nota kvenmannsnöfn eingöngu. Þótti það ósmekklegt. En þessum mótmælum var ekki sinnt og smám saman þótti þetta sjálfsagt. En kvennahreyfingar hafa áhrif og árið 1979 var farið að nota bæði karlmanns- og kvenmannsnöfn til skiptis. Nú eru fellibyljanöfn ákveðin sex ár fram í tímann og sömu nöfnin notuð aftur og aftur. Þó er sú undantekning gerð að nöfn á fellibyljum sem valda verulegu tjóni eru felld út og þau ekki notuð aftur.

Í Atlantshafinu er byrjað á stafrófinu á hverju ári og gjarnan eru 10 til 15 nöfn notuð árlega, bæði yfir fellibylji og hitabeltisstorma, sömuleiðis heldur kerfið nafni allt þar til það hefur eyðst. Auk þess kemur fyrir að lægðir í hlýtempraða beltinu fá nöfn þyki þær bera einkenni fellibylja, svo sem stormstyrk og augamyndun. Engir fellibyljir fá mannanöfn sem byrja á Q, U, X. Y og Z. Nafnalistinn er hafður fjölþjóðlegur og valið úr nöfnum sem notuð eru á svæðinu.

Klárist stafrófið á einu tímabili í Atlantshafi taka bókstafir gríska stafrófsins við sem nafngjafar. Þetta gerðist haustið 2005, en þá þurfti að nota 6 fyrstu grísku nöfnin, líka Zetu, sem þar með laumaði inn þeim bókstaf. Sama kerfi (önnur nöfn) er notað á austanverðu Kyrrahafi frá Mexíkó og í vesturátt.

Aðrar fellibyljaslóðir

Á öðrum fellibyljaslóðum er ívið ruglingslegra ástand, reynt hefur verið að taka upp samræmt nafnakerfi vestan til á Kyrrahafi þar sem fellibyljir eru algengastir í heiminum. Lítil samstaða náðist um alþjóðleg mannanöfn og því hefur um langa hríð verið mest byggt á svæðisbundnu númerakerfi. Algengt er því á þessum slóðum að vísað sé til sömu fellibylja með misjöfnum nöfnum, en númerin eiga að tryggja að ruglingur verði ekki til staðar. Númerakerfið er einnig notað á Indlandshafi, sunnan og norðan miðbaugs, sem og kringum Ástralíu, bæði að vestan og austan, og í vestanverðu Suður-Kyrrahafi.


Í skrifum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um fellibyljanöfn er þess getið að Austurlandabúar kunni illa við að kenna mannskæð illviðri við ákveðin mannsnöfn. Það sé ekki hlutverk stjórnvalda að stuðla þannig að neikvæðum anda í garð ákveðinna nafna. Japanir og Kínverjar vilja fremur nota dýra- og plöntunöfn eða jafnvel nöfn í landslagi, svo sem nöfn á ám eða fjöllum. Fellibyljanefnd Austur-Asíu (Thyphoon Committee) hefur þess vegna fyrir nokkrum árum mælt með nýju nafnasafni sem inniheldur nöfn svo sem Durian (ávöxtur) og Koppu (bolli). Talið er að þetta muni styðja umbætur á viðbúnaðarkerfum á svæðinu og samstarf landa um nöfnin. Lönd á svæðinu eiga öll sína fulltrúa á nafnalistanum. Nýi nafnalistinn fylgir ekki í stafrófsröð heldur stafrófsröð þátttökulanda. Ekki er byrjað upp á nýtt á nýju ári heldur haldið áfram þar sem frá var horfið.

Þegar þetta er skrifað (júlí 2008) er nafnið Kalmaegi næst á listanum. Það var lagt fram af Alþýðulýðveldinu Kóreu (Norður-Kóreu) og þýðir máfur.

Í Wikipediu-safninu má finna mjög ítarlega upplýsingasíðu um fellibyljanöfn og þar eru einnig listar með nöfnum sem eru í notkun á hinum mismunandi svæðum.

Ellen 1973
fellibylurinn ellen kort
Kort þetta birtist á baksíðu Þjóðviljans 25. september 1973, en á forsíðu var frétt um hið gríðarmikla tjón sem fárviðrið að kvöldi 23. og aðfaranótt 24. september olli hér á landi. Rekja má uppruna lægðarinnar til leifanna af fellibylnum Ellen. Veðurkortið gerði Páll Bergþórsson.

Nöfn, illviðri og Evrópa

Við ber að nöfn heyrist einnig á V-Evrópskum illviðrum. Ástæða nafngifta á þeim slóðum er hin sama og annars staðar: Verið er að forðast rugling ef fleiri en eitt illviðri gerir á stuttum tíma, jafnvel með nokkurra daga millibili. Norska veðurstofan gefur veðrum gjarnan nöfn. Lausleg viðmiðun er að vindur þurfi að ná 25 m/s til að nafn sé gefið. Lögð er áhersla á að það séu ekki lægðirnar sem slíkar sem fá norsku nöfnin heldur veðuratburðurinn.

Ekki er ótrúlegt að Veðurstofa Íslands muni á næstu árum huga að formlegum nafngiftum illviðra. Er þá spurning hvort sæmilegra sé að nota mannanöfn að amerísk- evrópskum hætti eða fara að dæmi austurlandabúa og nota önnur nafnorð. Íslensk illviðri hafa þó mjög mörg hlotið nöfn manna, skipa eða dagsetninga. Meðal dæma má nefna Ólafarbyl (hét lægðin þá Ólöf?), Halaveðrið, Hæringsveðrið, Linduveðrið, Fönixbyl, Ellen, Edduveðrið, Básendaveðrið, Flateyrarveðrið o.s.frv.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í fyrri fróðleiksgrein.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica