Greinar

Sólstólpi

Trausti Jónsson 26.3.2007

Sólstólpi er orðið sem hér er notað yfir fyrirbærið sem sýnt er á meðfylgjandi mynd. Einnig hafa verið notuð orðin sólarsúla og sólstöpull.

Sólstólpi verður til þegar sólarljós speglast á efra eða neðra borði ískristalla. Stöplar myndast oftast við speglun á flötum ískristöllum (plötum/flögum). Langoftast eru kristallarnir í háum blikuskýjum eins og hér, en fyrir kemur að fyrirbrigðið sést í lægri skýjum. Það er þó sjaldgæft þar sem mikill meirihluti lægri skýja er samsettur úr vatnsdropum en ekki ískristöllum. Sömuleiðis má stundum sjá ámóta fyrirbrigði yfir ljósum eða kösturum á jörðu niðri.

Sólstólpi yfir Barentshafi
Sól sest við haf, langur geisli lóðrétt upp af henni, efst á honum er geislavöndur í allar áttir
Hér má, auk stólpans, sjá svokallaðan efri snertibaug, en hann er hluti af veðrahjálmi, en það er samheiti yfir ýmiss konar rosabauga og hjásólir. Ljósmynd: Skúli Eggertsson.

Myndun snertibaugsins er flóknari heldur en hin einfalda speglun stólpans, því þar sjáum við sólargeisla sem farið hafa inn í kristalinn, brotnað þar og þannig breytt um stefnu. Tilvera snertibaugsins í þessu tilviki bendir til þess að hér hafi ekki verið um flatar kristallaplötur að ræða heldur það sem kalla má stuðulskristalla (blýantskristall). Blikan sem ískristallarnir eru í er óvenju þunn á þessari mynd og í fljótu braðgði virðist stólpinn hanga í heiðríkju.

Ofangreinda mynd tók Skúli Eggertsson, vélstjóri á Sigurbjörgu ÓF-1, 25. febrúar 2007 kl. 6:24 í Barentshafi. Er hún tekin í áttina að Tromsö í Noregi.

Fleiri myndir

Á vefnum, til dæmis í Wikipediu, er víða hægt að sjá myndir af svipuðum fyrirbærum ef leitað er að ensku heiti þess sem er sun pillar. Á síðunni Atmospheric Optics má einnig sjá ýmsar myndir af ljósbroti, og eina mynd sem sýnir sams konar fyrirbæri og á myndinni hér að ofan.

Veðurstofan þiggur með þökkum fleiri myndir af sólstólpum, sjá myndagallerí.

Sólstólpi yfir Vatnsendahlíð
Sólstólpi séður suðvestur yfir Vatnsendahlíð í Kópavogi 20. október 2013 kl. 17:58. Sólin er sest. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica