Aðalritari Alþjóða-veðurfræðistofnunarinnar: Ísland gegnir hlutverki á norðurheimsskautssvæðinu
Aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Dr. Petteri Taalas heimsótti Veðurstofuna 12. október, en hann kom til landsins til þess að taka þátt í ráðstefnunni Arctic-Circle 2017 í Reykjavík.
Dr. Taalas var forstjóri finnsku veðurstofunnar um nokkurt árabil og tók við núverandi starfi árið 2016. Hann hefur verið leiðandi í norrænu samstarfi veðurstofanna, NORDMET og hefur haldið mikilvægi starfs okkar hátt á lofti á alþjóðavísu.
Dr. Taalas skoðaði meðal annars eftirlitssal Veðurstofunnar. Með honum á myndinni eru Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur, Kristín Jónsdóttir hópstjóri og Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar.
Yfirlýsing Petteri Taalas um loftslagsbeytingar og norðurheimsskautssvæðið
Loftslag breytist á tvöföldum hraða á norðurheimsskautssvæðinu ef miðað er við heiminn allan. Hlýnunin er meiri en tvær gráður á celcius og um það bil 75% íss á norðurheimsskautssvæðinu bráðnaði og hvarf á árunum 1979–2016. Aldrei hefur mælst jafn lítið magn hafíss og 2015-2016, hvort heldur við Norðurheimsskautið eða Suðurskautið, en hafísmagn á norðurheimsskautssvæðinu hefur verið nær eðlilegt undanfarna mánuði.
Nauðsynlegt er að bæta innviði öryggisþjónustu á norðurheimsskautssvæðinu til þess að forðast slys og tryggja öryggi á norðurheimskautssvæðinu. Alþjóðaveðurfræðistofnunin WMO hefur gert áætlun fyrir 2018–2019 um bættar athuganir á veðri, haffæri og ís/snjó, heimskautaveðurspá og hafísspá fyrir sjófarendur; þjónustu sem kemur hinum ýmsu notendum á svæðinu að gagni. Markmiðið er að koma í veg fyrir slys, svo sem farþegaskipa eða olíuflutningaskipa, slys sem hefði hörmulegar afleiðingar.
Ísland gegnir mikilvægu hlutverki í norðurheimsskautsstarfi WMO og hefur yfir að ráða mikilli sérþekkingu á sviði snjó- og jöklamælinga auk eldfjallafræði. Ísland hefur verið í fremstu röð í að byggja upp snemmviðvörunarkerfi náttúruvár þar sem tengja má veðurfræði, vatnafræði og jarðskjálfta- og eldfjallafræði.
Við ofurtölvu dönsku veðurstofunnar DMI, sem Veðurstofa Íslands hýsir, ásamt Ingveldi B. Jónsdóttur, hópstjóra rekstrar, sem hefur umsjón með ofurtölvunni.