Fréttir

Tíðarfar ársins 2014 - stutt - 30.12.2014

Árið 2014 einkenndist af miklum hlýindum en víða var mjög úrkomusamt og sumarið sólarrýrt. Við norðurströndina og víða austanlands er árið það hlýjasta frá upphafi mælinga, þar á meðal bæði í Grímsey og á Teigarhorni þar sem mælt hefur verið samfellt að kalla frá 1874 og 1872. Úrkoma var yfir meðallagi um mestallt land og tíðarfar þótti blendið.

Lesa meira

Útlit fyrir rólegt jólaveður - 23.12.2014

Þegar þetta er skrifað á Þorláksmessu er norðaustanátt smám saman að ganga niður. Útlit er fyrir rólegt veður um jólin sem er eflaust kærkomið fyrir landsmenn eftir mjög órólega tíð það sem af er desember.

Lesa meira

Viðvörunarborðar fjarlægðir um sinn - 23.12.2014

Þar sem mælanet fyrir SO2, svo og líkankeyrslur um dreifingu eldfjallagas, er hvorttveggja komið í skilvirkan rekstur, hefur hefur Veðurstofan ákveðið að fjarlægja viðvörunarborða um gasmengun af forsíðu vefsins. Spár um gasdreifingu verða áfram aðgengilegar. Eftirlit með gosinu, sem og gasdreifingu, er áfram stöðugt.

Viðvörunarborði verður hér eftir nýttur gefi spár eða mælingar til kynna að mengunartoppar nái heilsuverndarmörkum í lengri tíma.

Einnig hefur verið ákveðið að fjarlægja viðvörunarborða um eldgosið sjálft enda þykir ekki ástæða til að vara við stöðugu ástandi jarðeldanna.

Eftirlit með gosinu minnkar ekki og verði vart við marktækar breytingar á eldgosinu verður gefin út ný viðvörun.

Lesa meira

Snjóflóð féll á varnargarð á Siglufirði - 18.12.2014

Snjóflóð stöðvaðist á varnargarði ofan Hávegar á Siglufirði, líklega þann 12. desember. Flóðið átti upptök undir Fífladalabrún efst í svokölluðu Fífladalagili í um 340 m h.y.s.

Flóðið skildi eftir sig á garðinum grjót og gróður sem það hreif með sér á leiðinni niður hlíðina. Um 2 m vantar upp á að flóðið nái upp á topp garðsins en snjókögglar köstuðust yfir garðbrúnina á nokkrum kafla.

Telja verður líklegt að flóðið hefði náði niður á eða niður undir efstu hús ef garðurinn hefði ekki stöðvað það.

Lesa meira

Grein í Nature um kvikuganginn - 15.12.2014

Jarðhræringarnar, sem hafa staðið yfir við norðvestanverðan Vatnajökul frá því um miðjan ágúst síðastliðinn, eru afar vel vaktaðar og á marga vegu.

Í dag birtist grein í tímaritinu Nature eftir hóp íslenskra og erlendra vísindamanna sem útskýrir myndun kvikugangsins.

Samtúlkun mælinga og líkanreikningar gera það kleift að kortleggja feril gangsins í smáatriðum þar sem hann braut sér leið til norðausturs frá Bárðarbungu, yfir 45 km leið til eldstöðvanna í Holuhrauni.

Í ljós kemur að landslag, ásamt spennu í jarðskorpunni, hefur áhrif á framrás kvikunnar neðanjarðar og breytilega stefnu gangsins.

Lesa meira

Tíðarfar í nóvember 2014 - 12.12.2014

Austlægar áttir voru ríkjandi lengst af í mánuðinum.

Kuldakast gerði í fáeina daga í kringum þann 10. en annars var óvenjuhlýtt á landinu öllu og mánuðurinn meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga.

Úrkoma var í meðallagi eða undir því víða um vestanvert landið en suðaustan- og austanlands var úrkomumikið.

Lesa meira

Íbúafundi á Patreksfirði vegna ofanflóðavarna frestað - 10.12.2014

Íbúafundi Ofanflóðasjóðs sem halda átti á Patreksfirði fimmtudaginn 11. des. hefur verið frestað vegna veðurs.

Þar ætluðu starfsmenn Veðurstofunnar kynna ofanflóðahættumat og varnarvirki fyrir bæjarstjórn Vesturbyggðar.

Nýr fundartími verður auglýstur síðar.

Lesa meira

Fárviðri á norðanverðum Vestfjörðum - 9.12.2014

Veðurstofan vekur athygli á að samkvæmt nýjustu spálíkönum er spáð norðaustan ofsaveðri eða fárviðri (25-35 m/s) á norðanverðum Vestfjörðum eftir hádegi í dag, 9. desember.

Búist er við að veður versni mikið á milli kl. 14 og 15 á Hornströndum og við Ísafjarðardjúp, þar með talið á þéttbýliskjörnum í Djúpinu. Veðurhæðinni fylgir talsverð ofankoma.

Í kvöld og nótt gera spár ráð fyrir norðaustan 20-28 m/s og snjókomu eða éljum á öllum Vestfjörðum. Mikið dregur úr vindi fyrir hádegi á morgun.

Sjá einnig viðvörun vegna sjávarflóða.

Lesa meira

Viðvörun vegna sjávarflóða - 8.12.2014

Mikilli ölduhæð, yfir 12 m af norðan og norðnorðaustan, er spáð undan Vestfjörðum að kvöldi þriðjudags (9. des.) og aðfaranótt miðvikudags (10. des.).

Rétt að vera sérstaklega á varðbergi fyrir áhrifum af ágjöf og brimróti vegna vegna hárrar sjávarstöðu í ljósi sjávarfallahæðar og talsverðs áhlaðanda.

Viðbragðsaðilum á Vesturlandi og Vestfjörðum er ráðlagt að fylgjast vel með aðstæðum og til að vera undirbúnir því að greiða úr vandræðum sem af þessu geta hlotist.

Lesa meira

Ítrekuð viðvörun við illviðri - 29.11.2014

Veðurstofan vekur áfram athygli á spá um illviðri síðdegis á morgun, sunnudag, og fram á mánudag. Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt, meðalvindhraði víða á bilinu 18-25 m/s eftir hádegið. Vindhviður geta náð yfir 40 m/s vestan og norðan undir fjöllum á Vesturlandi, til dæmis undir Hafnarfjalli. Suðaustanáttinni fylgir rigning, einkum á suðurhelmingi landsins.

Um kl. 21 er útlit fyrir að veðrið nái hámarki suðvestanlands með suðvestan 20-30 m/s. Upp úr miðnætti færir þessi veðurhæð sig yfir á Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og einnig á Norðurland eystra. Má búast við að vindhviður geti náð yfir 50 m/s á þessum slóðum þar sem vindur stendur af fjöllum. Með SV-áttinni kólnar og mun úrkoma á sunnudagskvöldið verða á formi slydduélja og síðar snjóélja.

Einnig er gefin út viðvörun v/ vatnavár á Suðurlandi og Snæfellsnesi. Vöð yfir ár varhugaverð.

Lesa meira

Varað við illviðri og vatnavöxtum - 28.11.2014

Veðurstofan vill vekja athygli á spá um illviðri síðdegis á sunnudag og fram á mánudag. Má búast við vestan og suðvestan 20-30 m/s á suðurhelmingi landsins um kvöldið en norðantil aðfaranótt mánudags.

Meðalvindhraði getur farið yfir 28 m/s sem kallast ofsaveður skv. vindstigakvarða Beaufort sem lengi var við lýði. Búast má við hættulegum vindhviðum og að þær geti náð yfir 50 m/s við fjöll, þá einkum hlémegin, norðan og austan þeirra. Á mánudagsmorguninn er gert ráð fyrir suðvestan stormi en að allhvass eða hvass vindur verði síðdegis.

Af ofansögðu er ljóst að spáð er vonskuveðri síðdegis á sunnudag og fram á mánudag. Mjög slæmt ferðaveður.

Einnig er gefin út viðvörun v/ vatnavár á Suðurlandi og Snæfellsnesi. Vöð yfir ár varhugaverð.

Lesa meira

ICEWIND – Opnun íslenska vindatlasins - 24.11.2014

Umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði íslenska vindatlasinn á opnum fundi á Veðurstofu Íslands hinn 25. nóvember. Möguleikar vindorku á Íslandi voru kynntir og sýnt vefsvæði sem hýsir vindatlas fyrir Ísland. Fundinum var streymt á vefnum og verður upptakan í boði áfram.

ICEWIND er samnorrænt verkefni um vindorku á köldum svæðum sem unnið var á árunum 2010–2014 og styrkt af Norræna orkusjóðnum. Verkefninu er stýrt af Vindorkudeild í danska tækniháskólanum en þátt taka stofnanir og fyrirtæki á öllum Norðurlöndunum.

Íslenskir þátttakendur eru Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Landsvirkjun og Landsnet. Vindauðlindin á Íslandi og nærliggjandi hafsvæðum er kortlögð, auk þess sem kannað er hvernig vindorka passar inn í íslenska raforkukerfið. Einnig eru gerðar ísingarspár.

Lesa meira

Tíu ára starfsafmæli Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði - 21.11.2014

Tíu ár eru síðan Snjóflóðasetur, starfsstöð Veðurstofu Íslands á Ísafirði, var vígt. Starfsemin hefur frá upphafi haft aðsetur í svonefndu Vestrahúsi ásamt Háskólasetri Vestfjarða og öðrum rannsókna- og stjórnsýslustofnunum.

Það er kostur fyrir snjóflóðavakt VÍ að það starfsfólk sem leiðir verkefnin búi á svæðinu, bæði vegna mats á veðri og snjóalögum og vegna skilnings á aðstæðum þeirra sem  verða fyrir óþægindum, svo sem ef rýma þarf svæði vegna hættu.

Auk verkefna Snjóflóðasetursins fyrir vestan, austan og norðan, vinna starfsmenn útibúsins nú að vatnamælingum á Vestfjörðum, rannsóknum á sjávarflóðum og eftirliti og rannsóknum vegna hruns, jarðskriðs og aurflóða.

Lesa meira

Upplýsingafundur um gasmengun - 17.11.2014

Upplýsingafundur um gasmengun var haldinn þriðjudaginn 18. nóvember, kl. 14:30 í móttökusal Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7.

Markmið fundarins var að miðla upplýsingum um gasmengunina til fulltrúa sveitarfélaga um land allt og samhæfa skilaboð til almennings.

Fundurinn var opinn og vel sóttur. Fundinum var streymt yfir netið svo þeir sem ekki áttu heimangengt gætu fylgst með. Spurningar fengust bæði úr sal og að utan í gegnum póstfang.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum með því að smella á ofangreindan tengil.

Lesa meira

Aukið samstarf við dönsku veðurstofuna DMI - 12.11.2014

Í dag var undirritaður samningur við dönsku veðurstofuna um stóraukið samstarf og rekstur ofurtölvu. Fjarkönnun hefur eflst, líkön þróast mikið og unnt að spá af enn meiri nákvæmni en mikla reiknigetu þarf. Kröfur til veðurstofa um nákvæmari og hraðari uppfærslu á veðurspám útheimtir slíkt samstarf.

Veðurstofunni gefst nú tækifæri til að stækka reiknisvæðið í kringum Ísland og þá sérstaklega suðvestur af landinu. Þannig verður hægt að veita enn betri veðurþjónustu almennt og til aðila sem eiga mikið undir góðum upplýsingum um veðurfar auk enn betri þjónustu við alþjóðaflug.

Aukin reiknigeta fæst í veðurspám, hafísspám, reikningum á fortíðarloftslagi og framtíðarsviðsmyndum mögulegra loftslagsbreytinga.

Lesa meira

Að skrá sögu landsins með ljósmyndum. Hverjum ber að varðveita hana? - 10.11.2014

Oddur Sigurðsson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands, mun flytja erindi á Hrafnaþingi miðvikudag 12. nóv. kl. 9:15.

Erindið er öllum opið og nefnist: Að skrá sögu landsins með ljósmyndum. Hverjum ber að varðveita hana?

Hrafnaþing er fyrirlestraröð Náttúrufræðistofnunar Íslands og er haldið í húsakynnum stofnunarinnar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ; nánar tiltekið í Krummasölum á 3. hæð.

Lesa meira

Tíðarfar í október 2014 - 4.11.2014

Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum en veðurlag var lengst af meinlítið. Fremur kalt var að tiltölu í mánuðinum miðað við aðra mánuði ársins.

Úrkoma var í meira lagi víða austan- og suðaustanlands en var nærri meðallagi annars staðar. Þó var hún talsvert undir því á stöku stað um landið vestanvert.

Lesa meira

FutureVolc verkefnið kynnt á vef National Geographic - 21.10.2014

National Geographic birti á vefsíðu sinni frétt um eldgosið á Íslandi og kynnti alþjóðlega FutureVolc verkefnið um leið.

Fram kom að Ísland væri nánast eins og rannsóknarstofa í eldfjallafræði og að vegna nýrra mælitækja, m.a. frá FutureVolc, sé þetta eldgos eitt af best vöktuðu eldgosum sögunnar.

Í kynningu var meðal annars lögð áhersla á opin gögn og sýnd dæmi af vedur.is, bæði jarðskjálftar í þrívídd og keyrsla á GPS mælingum. Viðtöl eru við innlenda og erlenda vísindamenn.

Lesa meira

Viðvörun - fyrsta afgerandi snjókoma haustsins - 19.10.2014

Veðurstofan vill vekja athygli á því, að fyrsta alvöru snjókoma haustsins á norðanverðu landinu er í vændum. Ferðalög milli landshluta geta orðið erfið á mánudag og þriðjudag, einkum á norðurhelmingi landsins. Þetta á sérílagi við bíla sem eru vanbúnir til vetraraksturs.

Lesa meira

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hafin í ár - 16.10.2014

Snjóflóðavakt Veðurstofu hefst 15. október ár hvert og fyrir þann tíma hittast snjóathugunarmenn og snjóflóðavakt á árlegum samráðsfundi. Tilgangurinn er að þróa stöðugt og bæta vöktunina. Samráðsfundurinn var að þessu sinni haldinn í Fjallabyggð. Lögð var áhersla á að kynna og prófa nýtt smáforrit í snjallsíma, þar sem hægt er bæði að mæla og teikna inn útlínur snjóflóða. Einnig var gengið um varnarvirki á Ólafsfirði og Siglufirði.

Lesa meira

Opinn fundur um snjóflóðamál á Ólafsfirði - 7.10.2014

Árlegur samráðsfundur snjóathugunarmanna og snjóflóðavaktar Veðurstofunnar fór fram í Fjallabyggð dagana 8.-10. október 2014. Af þessu tilefni var boðið til opins fundar um snjóflóðamál í félagsheimilinu Tjarnarborg á Ólafsfirði 8. október.

Á vegum Veðurstofunnar og sveitarfélaga eru starfandi tuttugu snjóathugunarmenn víða um land og við upphaf snjóflóðavaktar, ár hvert, hittast þeir ásamt öðru ofanflóðastarfsfólki Veðurstofunnar og ræða um mál sem tengjast vöktun á snjóflóðum og skriðuföllum. Þar fá athugunarmenn einnig þjálfun og fræðslu. 

Lesa meira

Tíðarfar í september 2014 - 1.10.2014

Tíðarfar í september telst hagstætt og var óvenjuhlýtt, hlýjast að tiltölu norðan- og austanlands þar sem hiti var víða meir en 2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og meir en þremur stigum ofan meðalhita 1961 til 1990. Á Dalatanga er þetta hlýjasti september frá upphafi mælinga 1938 og sá þriðji hlýjasti í Grímsey en þar hefur verið mælt frá 1874. Svalast að tiltölu var á Suðvesturlandi þar sem hiti var þó meir en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Óvenju úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt á Norðausturlandi.

Lesa meira

Ábending vegna veðurs næstu daga - 28.9.2014

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á veðurspá morgundagsins, mánudags, sem og þriðjudags og miðvikudags. Á morgun, mánudag, er spáð suðaustan 18-25 m/s á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði. Það hvessir í nótt en veðurhæðin nær hámarki í fyrramálið og fram yfir hádegi. Spáð er suðaustan 15-23 m/s annars staðar á landinu á morgun, um og upp úr hádegi hvessir á Vestfjörðum og Suðausturlandi og síðdegis á norðaustanverðu landinu og á Austfjörðum. Talsverð úrkoma fylgir storminum og mikil úrkoma er líkleg suðaustanlands.

Lesa meira

Hvernig verður veðrið 2050? - 18.9.2014

Í næstu viku verður haldin svokölluð umhverfisvika jafnhliða ráðstefnunni UN Climate Summit þar sem Sameinuðu þjóðirnar boða heimsleiðtoga á fund til að ræða yfirstandandi loftslagsbreytingar. Fulltrúi Íslands á umhverfisvikunni í New York verður Birta Líf Kristinsdóttir, Veðurstofu Íslands, ein af 11 veðurfræðingum sem voru beðnir að gera veðurspá fyrir sitt landsvæði fyrir árið 2050 byggða á nýjustu skýrslu IPCC. Þessar framtíðarveðurspár eru á formi myndbanda sem eru gerð í samvinnu við WMO og eru sýnd eitt og eitt á dag fram að ráðstefnunni.

Lesa meira

Opið erindi á Degi íslenskrar náttúru - 16.9.2014

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru bauð Veðurstofan gestum að hlýða á erindi dr. Halldórs Björnssonar um gosmökkinn í Holuhrauni. Halldór er fagstjóri veður- og loftslagsrannsókna á Veðurstofu Íslands og fræddi áheyrendur um margt sem tengist gosmekkinum og dreifingu hans. Erindinu var streymt á vefinn og þar má skoða upptöku með glærum.

Lesa meira

Svipmyndir af vettvangi - 14.9.2014

Hér má sjá og lesa lýsingu af vettvangi, dagana 12.-14. september, en aðstæður við eldstöðina í Holuhrauni eru síbreytilegar. Gígarnir Suðri, Baugur og Baugsbörn skipta með sér verkum í þessari hættulegu sýningu á kröftum náttúrunnar. Ekki er að vita hvað verður í boði næstu daga.

Veðurstofan vekur athygli á spá sem nú er gerð á dreifingu brennisteinsgass frá eldstöðvunum. Þar getur það streymt fram í stórhættulegu magni og þó þynning sé orðin mikil þegar það kemur í byggð getur það haft slæm áhrif á heilsu, sérstaklegra þeirra sem eru viðkvæmir í öndunarvegi.

Lesa meira

Samvinna á álagstímum - 6.9.2014

Það er hvorki sjálfgefið að allur þorri landsmanna geti fylgst með atburðunum í Bárðarbungu og Dyngjujökli á vefnum né að vísindamenn geti streymt gögnum í hús til þess að vega og meta ástandið og taka veigamiklar ákvarðanir með Almannavarnadeild RLS. Veðurstofan vill láta þess getið hve snurðulaust samskipti við Símann hafa gengið nú á álagstímum og þjónustan verið rösk. Fjögur dæmi um snörp viðbrögð eru rakin hér. Þjónustan kemur á óvart og hefur létt störfin í öllu atinu og umrótinu sem fylgir jarðhræringunum.

Lesa meira

Tillaga að ofanflóðahættumati fyrir Kjalarnes - 3.9.2014

Veðurstofan hefur unnið tillögu að ofanflóðahættumati fyrir Kjalarnes neðan Esjuhlíða á vegum hættumatsnefndar Reykjavíkur. Hún var kynnt í borgarráði Reykjavíkur þann 28. ágúst 2014 og á fundi með íbúum og landeigendum á svæðinu sama dag. Hættumatið er kynnt í opnu húsi í félagsheimilinu Fólkvangi í Grundarhverfi 3. september 2014 og mun í kjölfarið liggja frammi til kynningar í Fólkvangi og á borgarskrifstofu Reykjavíkur í fjórar vikur.

Lesa meira

Tíðarfar í ágúst 2014 - 1.9.2014

Tíðarfar í ágúst var hagstætt víðast hvar. Lengst af var hlýtt var á landinu nema fyrstu dagana og meðalhiti nærri meðaltali ágústmánaða síðustu tíu ára en þeir hafa í langtímasamhengi verið óvenjuhlýir. Úrkoma var lengst af talsvert minni en að meðallagi um mestallt land, en þó um eða yfir því austan til á landinu. Óvenjumikil úrkoma síðasta dag mánaðarins varð þó til þess að rétta stöðuna gagnvart meðallaginu verulega.

Lesa meira

Um Bárðarbungueldstöðina - 30.8.2014

Á Íslandi eru um 30 megineldstöðvar eða eldstöðvakerfi. Eitt af þeim er Bárðarbunga, næsthæsta fjall Íslands. Í krúnu fjallsins er stórt jarðfall með 850 m þykkum jökulís. Gos geta orðið hvarvetna í öskjunni eða í hlíðum fjallsins. Ekki er ólíklegt að Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi hafi grafist í stórkostlegum jökulhlaupum á forsögulegum tíma. Vegna jarðhræringa í norðvestanverðum Vatnajökli hefur Veðurstofan fengið leyfi til að birta kafla úr heildarhættumati á ensku vegna eldgosa á Íslandi.

Lesa meira

Ábending vegna væntanlegs storms á sunnudag - 29.8.2014

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á slæmri veðurspá fyrir sunnudaginn 31. ágúst. Kröpp og djúp lægð kemur að landinu úr suðvestri og búist er við suðaustan- og austanátt og mjög snörpum vindhviðum við fjöll. Það lítur út fyrir talsverða rigningu víða um land og mikla úrkomu suðaustantil. Hætt er við skriðum á suðausturlandi. Um hlýtt loft er að ræða og fellur úrkoman öll sem rigning, einnig á hæstu jöklum. Þetta er fyrsta óveðrið eftir sumarið og er fólki bent á að festa niður hluti sem geta fokið. Vöð yfir ár á Suðurlandi geta orðið varhugaverð.

Lesa meira

Ráðherra heimsækir Veðurstofu Íslands - 25.8.2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti sér viðbúnað á Veðurstofu Íslands vegna jarðhræringa í Bárðarbungu og við Dyngjujökul. Fékk hann ítarlegt yfirlit yfir jarðskjálftavirknina undanfarna daga ásamt því að kynna sér spár um hugsanleg flóð, eldsumbrot og öskufall, ef til eldgoss skyldi koma.

Lesa meira

Stóra lágtíðnimælingin, 23. ágúst - 24.8.2014

24.8.2014 Meðfylgjandi mynd sýnir meðalútslag á skjálftamælinum á Dyngjuhálsi í gær og í dag, á þremur mismunandi tíðniböndum (0,5-1 Hz; 1-2 Hz; 2-4 Hz). Lágtíðnióróinn laust fyrir hádegið í gær sést mjög skýrt en hann varð til þess að Veðurstofan hækkaði litakóða fyrir flugumferð úr appelsínugulu í rauðan. Þessi órói (rauða línan) var túlkaður sem merki um að kvika væri komin upp á yfirborð undir jökli.

Lesa meira

Unnið við erfiðar aðstæður - 23.8.2014

09:35 Frá fyrsta degi hafa starfsmenn unnið við erfiðar aðstæður uppi á jökli og ferðast langar vegalengdir á sérútbúnum tækjum eða komið á staðinn með þyrlu LHG. Starfsmennirnir tilkynna sig tvisvar sinnum á sólarhring og staðsetning þeirra er vöktuð en Almannavarnir sækja þá ef þörf krefur. Búnaðurinn þarf að virka við erfiðar aðstæður á hálendinu. Svona öflugu mælakerfi hefði ekki verið hægt að koma upp á skömmum tíma ef ekki væri fyrir FutureVolc, sem markar mikilvægan áfanga í uppbyggingu rannsóknarinnviða til eldfjallarannsókna á Íslandi.

Lesa meira

Flug yfir Bárðarbungu og farveg Jökulsár á Fjöllum - 21.8.2014

Flogið var með TF-SIF yfir Vatnajökul og farveg Jökulsár á Fjöllum 20. ágúst. Háþróuð ratsjá (SAR) flugvélarinnar var notuð til þess að taka myndir af yfirborði jökulsins og farvegi Jökulsár á Fjöllum. Komi til eldsumbrota verða þessar myndir mikilvæg gögn til að leggja mat á þær breytingar sem kunna að verða á jöklinum og á flóðasvæðinu.

Lesa meira

Skjálftavirkni enn mikil - 21.8.2014

07:04 Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu er enn mikil. Líkt og í gær er aðalvirknin bundin við innskotavirknina undir Dyngjujökli, á sömu slóðum og í gær. Fáeinir skjálftar (grynnri) hafa einnig mælst í Bárðarbungu, líkt og síðustu daga. Stærsti skjálftinn síðasta sólarhringinn varð kl 23:38 í gærkvöld, líklega að stærð um 3,8. Nýjustu tilkynningar eru í upplýsingagrein á vefnum en á sérstakri vefsíðu eru sýndir nýjustu jarðskjálftarnir í Bárðarbungu.

Lesa meira

Enn er mikil virkni í NV-verðum Vatnajökli - 20.8.2014

07:21 Enn er mikil virkni í norðvestanverðum Vatnajökli. Aðalvirknin er í þyrpingunni norðaustur af Bárðarbungu. Tæplega 300 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Stærsti skjálftinn varð klukkan 03:59 og var hann í þyrpingunni, 3,0 að stærð. Klukkan 00:58 varð skjálfti inni í Bárðarbunguöskjunni og var hann 2,7 að stærð. Engin merki erum um gosóróa.

Lesa meira

Um hættu á jökulhlaupi í Jökulsá á Fjöllum - 19.8.2014

17:22 Skjálftavirknin í Bárðarbungu og nágrenni er nú að mestu undir norðaustanverðum Dyngjujökli. Kæmi til eldgoss á þessu svæði gæti orðið sprungugos undir jökli og bræðsluvatn mundi valda flóði í Jökulsá á Fjöllum. Frá gosstað niður að Herðubreiðarlindum væri líklegur ferðatími 4,5 klst, niður að brúnni á Jökulsá við Grímsstaði 7 klst og niður undir Ásbyrgi um 9 klst. Mjög litlar líkur eru á hamfaraflóði.

Lesa meira

Stutt yfirlit vegna Bárðarbungu - 19.8.2014

09:19 Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu er enn mikil. Heldur dró úr kringum miðnættið, bætti aftur í upp úr klukkan 4 og hefur nú aftur dregið lítillega úr. Virknin gengur sem sagt áfram í bylgjum. Stærstu skjálftarnir urðu undir morgun en þeir voru allir undir 3 að stærð. Virknin er að mestu bundin við austurhluta Bárðarbungu og hefur færst lítillega til norðausturs. Upplýsingagrein gefur yfirlit atburða.

Lesa meira

Frekari upplýsingar um Bárðarbungu - 18.8.2014

12:59 Jarðskjálftavirknin sem hófst í Bárðarbungu 16. ágúst heldur áfram. Í ljósi endurmats jarðvísindamanna á atburðum síðustu daga hefur Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og er því Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða. Engin merki eru um gos en slíkt er ekki hægt að útiloka. Náið er fylgst með þróuninni.

Lesa meira

Enn mikil virkni í norðvestanverðum Vatnajökli - 18.8.2014

10:56 Enn er mikil virkni í norðvestanverðum Vatnajökli. Virknin er mest austan við Bárðarbungu og við jökuljaðar Dyngjujökuls í grennd við Kistufell. Klukkan 02:37 varð skjálfti við Kistufell, 3,7 að stærð, og er það stærsti skjálftinn sem orðið hefur í þessari hrinu hingað til. Tilkynning barst frá Akureyri um að hann hefði fundist þar. Engin merki sjást enn sem komið er um gos- eða hlaupóróa.

Lesa meira

Aukin virkni við Bárðarbungu - 16.8.2014

20:43 Jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu hefur aukist. Skjálftahrina hefur staðið yfir síðan kl. 3:00 í nótt með stöðugri skjálftavirkni. Dýpi skjálftanna er í efri hluta skorpunnar og stærðir þeirra eru í kringum 1.5; nokkrir skjálftar eru stærri en M3.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina við Bárðarbungu - 16.8.2014

14:52 Um klukkan þrjú í nótt (16. ágúst) hófst jarðskjálftahrina við Bárðarbungu. Á þriðja hundrað jarðskjálftar hafa þegar mælst. Stærstu skjálftarnir eru um og yfir þrjú stig að stærð.

Lesa meira
ljósmynd

Frá Veðurstofunni vegna frétta um fjárhagsstöðu - 12.8.2014

Fjárhagsstaða Veðurstofunnar  hefur verið til umfjöllunar í fréttum undanfarna daga í tengslum við störf fjárlaganefndar Alþingis og hefur stofnunin sent frá sér fréttatilkynningu um efnið. Tekið skal fram að rekstrarstaða Veðurstofunnar er í jafnvægi.

Lesa meira

Um berghlaupið í Öskju - 6.8.2014

Berghlaupið, sem féll að kvöldi 21. júlí 2014 úr Suðurbotnum í Öskju niður í Öskjuvatn, er eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi. Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa nú sent frá sér sameiginlegt minnisblað sem birtir frumniðurstöður rannsókna á þessu stærsta berghlaupi á sögulegum tíma á Íslandi. Þetta minnisblað má lesa í sérstakri vefgrein þar sem er að finna fjölda mynda, korta og línurita með skýringartextum.

Lesa meira

Tíðarfar í júlí 2014 - 1.8.2014

Júlímánuður var mjög votviðrasamur um mestallt land. Sértstaklega lítið var um þurrka um landið vestan- og sunnanvert og þar var einnig sólarlítið. Kalt var í byrjun mánaðarins og einnig voru tveir síðustu dagarnir kaldir. Að öðru leyti var hlýtt um land allt, í Grímsey var júlí sá hlýjasti frá upphafi mælinga 1874 og þetta var þriðji hlýjasti júlímánuður allra tíma á Teigarhorni en þar hófust mælingar 1872.

Lesa meira

Mælingar við Öskju - 25.7.2014

Fimmtudaginn 24. júlí fóru tveir ofanflóðasérfræðingar og einn eldfjallafræðingur Veðurstofunnar ásamt vísindamönnum Háskóla Íslands og skoðuðu svæðið við Öskju eftir eitt stærsta framhlaup síðari tíma er féll í Öskjuvatn mánudagskvöldið 21. júlí.

Vísindaráð Almannavarna ákvað í dag (25. júlí) að gönguleiðir verði áfram lokaðar í viku að minnsta kosti. Stór svæði á strönd vatnsins eru óstöðug eftir flóðið á mánudagskvöld og því hættuleg ferðafólki.

Lesa meira

Skriða og flóðbylgja í Öskju - 22.7.2014

Gríðarlega stór skriða féll í suð-austurhluta Öskjuvatns laust fyrir miðnætti 21. júlí. Skriðan orsakaði flóðbylgju í Öskjuvatni og kom hreyfingu á laust efni sem fyrir var. Öll umferð um Öskju er bönnuð í bili.

Lesa meira

Jarðskjálftar í júní 2014 - 11.7.2014

Rúmlega 1600 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í júní. Það dró úr skjálftum á þeim svæðum sem voru sérstaklega virk í maí, svo sem við Herðubreiðartögl, Bárðarbungu og Geirfugladrang á Reykjaneshrygg.

Lesa meira

Lítil jökulhlaup í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi - 10.7.2014

Hlaupvatns frá jarðhitasvæðum undir Mýrdalsjökli gætir enn í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Há rafleiðni mælist enn í báðum ánum en nýjustu mælingar gefa til kynna að leiðnin sé tekin að lækka. Einnig mælist nú minna rennsli í ánum en fyrr í vikunni.

Lesa meira
aurskriða

Vatnavextir og skriðuhætta á Vestfjörðum - 3.7.2014

Á norðanverðum Vestfjörðum hefur mikið rignt undanfarna sólarhringa. Úrkoman var mest aðfaranótt og fyrrihluta fimmtudags. Nokkrar skriður hafa fallið og töluverðir vatnavextir eru í ám.

Lesa meira

Tíðarfar í júní 2014 - 1.7.2014

Júnímánuður var sérlega hlýr á landinu, einhver sá hlýjasti sem komið hefur síðan mælingar hófust. Víðast hvar um suðvestanvert landið – og víða vestan- og sunnanlands – var hann einnig í hópi úrkomusömustu júnímánaða sem vitað er um. Mat á tíðarfari var því nokkuð misjafnt.

Lesa meira

Viðvörun vegna óvenju djúprar lægðar 1. - 5. júlí - 30.6.2014

Útlit er fyrir lægðagang við landið í vikunni og eru lægðirnar í dýpsta lagi miðað við árstíma. Þetta þýðir að mestöll vikan verður sérlega vinda- og úrkomusöm. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám næstu daga. Einnig gætu vatnavextir orðið svo miklir að flóðahætta skapist. Ferðafólk er því eindregið varað við að aka yfir varhugaverð vöð á ám. Einnig er varað við mögulegri hættu á aurflóðum í sunnanverðum Eyjafjallajökli, sem t.d. gætu fallið í Svaðbælisá.

Lesa meira

Safetravel - 27.6.2014

27.6.2014

Í dag er „Safetravel“ dagurinn.

Vefsíðan Safetravel er rekin af Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er hluti af stærra verkefni sem fjöldi aðila stendur að. Markmiðið er að bæta forvarnir og minnka slys í ferðamennsku og ferðaþjónustu hér á landi.

Snjallsímaforritið 112 Iceland er í boði en hefðbundin ferðaáætlun er mikilvægust.

Lesa meira

Jarðskjálftar í maí 2014 - 13.6.2014

Um 6000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í maí. Meirihluti skjálftanna átti upptök við Herðubreiðartögl, en þar voru yfir 3000 jarðskjálftar staðsettir, stærsti fjögur stig. Flestir eða um 1100 mældust 3. - 5. maí í byrjun kröftugrar skjálftaraðar. Skjálfta-hrinur mældust við Geirfugladrang og Eldey á Reykjaneshrygg. Jarðskjálfti af stærð fjögur stig varð við Kaldárholt rétt austan við Þjórsá 8. maí og fannst víða á Suðurlandi.

Lesa meira

Sumarþing Veðurfræðifélagsins - 12.6.2014

Veðurfræðingarnir Guðrún Nína Petersen og Trausti Jónsson flytja erindi um óveður á sumarþingi Veðurfræðifélagsins föstudaginn 13. júní. Fjallað verður um fyrstu niðurstöður greiningar á öfgaveðurhæð á Íslandi og um snarpt fárviðri hinn 25. febrúar 1980.

Lesa meira

Dagur hafsins - 6.6.2014

Í tilefni af alþjóðlegum degi hafsins, hinn 8. júní ár hvert, vekur Veðurstofan athygli á vefþjónustu við sjófarendur. Þar má nefna hafístilkynningar, spár fyrir landið og miðin, spár fyrir mið og djúp, spákort fyrir Atlantshaf og greiningu á sjávarhita.

Lesa meira

Tíðarfar í maí 2014 - 2.6.2014

Tíðarfar í maí var hagstætt á landinu og vorgróður tók vel við sér. Hiti var vel ofan við meðallag víðast hvar. Úrkoma var yfir meðallagi á Suður- og Austurlandi en í því eða undir víða um norðvestan- og norðanvert landið.

Lesa meira

Jarðskjálftar í apríl 2014 - 21.5.2014

Rúmlega 3000 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í apríl. Flestir skjálftarnir áttu upptök við Húsmúla á Hellisheiði, en þar voru um 1200 jarðskjálftar staðsettir, stærsti 2,7 stig. Flestir eða 400 skjálftar mældust 4. apríl. Skjálftahrinur mældust víða og voru þær helstu við Geirfugladrang á Reykjaneshrygg, við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, í Öxarfirði, við Flatey á Skjálfanda og undir Herðubreiðartöglum. Stærsti skjálftinn var 3,4 með upptök við Eldey á Reykjaneshrygg.

Lesa meira

Stórfenglegt myndasafn - 16.5.2014

Hinn 15. maí 2014 undirrituðu þeir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, og Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur og sérfræðingur á sviði jöklafræði, samning um varðveislu, skráningu og notkun Veðurstofunnar á myndasafni Odds. Safnið er áætlað um 55.000 myndir af náttúru Íslands og er ómetanleg heimild, meðal annars um rýrnun jökla.

Lesa meira

Hjólað í vinnuna - 13.5.2014

Veðurstofan skipaði sér strax í efstu sæti keppninnar Hjólað í vinnuna. Starfsmenn láta það ekki duga heldur hjóla saman eftir vinnu og hér má líta fríðan flokk við Hörpuna í gær. Heilar tvær vikur eru eftir og vinningslíkur geta breyst margsinnis á þeim tíma. Veðurstofan hvetur alla þátttakendur til dáða.

Lesa meira

Jarðskjálfti austan Þjórsár 8. maí 2014 - 9.5.2014

Jarðskjálfti af stærð 4 varð klukkan 23:14 í gærkveldi (8. maí) um 10 km ASA af Hestfjalli (við Kaldárholt rétt austan við Þjórsá). Skjálftinn fannst víða um Suðurland og einnig bárust tilkynningar frá Hafnarfirði, Borgarnesi og Reykjavík.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl - 5.5.2014

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl virðist vera í rénun. Yfir 500 skjálftar mældust frá því snemma á laugardagsmorgun og fram á sunnudag og einn af stærð 3,9 fannst á Akureyri. Jarðskjálftahrinur sem þessi eru algengar á eldgosabeltinu norðan Vatnajökuls. Engin mælanleg merki eru um að þessi hrina muni leiða til eldgoss.

Lesa meira

Tíðarfar í apríl 2014 - 2.5.2014

Aprílmánuður var hlýr og telst hagstæður víðast hvar. Lengst af var þurrt í veðri norðaustanlands og á Austfjörðum var úrkoma nokkuð yfir meðallagi. Í öðrum landshlutum var úrkoma í kringum meðallag eða lítillega undir því.

Lesa meira

Jarðskjálftar í mars 2014 - 11.4.2014

Tæplega 1500 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í mánuðinum. Mesta virknin var við Húsmúla á Hellisheiði. Skjálftahrina varð 8. og 9. mars undir sunnanverðu Kleifarvatni og fannst stærsti skjálftinn í Hafnarfirði og Reykjavík. Í byrjun mars varð smáskjálftahrina suðvestur af Herðubreið.

Lesa meira

Alþjóðlega ráðstefnan 2014 um aðlögun að breytingum á veðurfari - 2.4.2014

Veðurstofan vekur enn og aftur athygli á þriðju norrænu alþjóðlegu ráðstefnunni um veðurfarsbreytingar og aðlögun að þeim, sem haldin verður í Kaupmannahöfn næsta sumar.

Skráning er hafin. Útdrætti erinda skal skila inn fyrir 15. apríl.

Tímabært er að skilgreina og innleiða ferli sem miða að því að hámarka aðlögun að breytilegu veðurfari á sveigjanlegan og sjálfbæran hátt.

Lesa meira

Tíðarfar í mars 2014 - 1.4.2014

Mánuðurinn var umhleypinga- og úrkomusamur um meginhluta landsins, sérstaklega þó um landið norðaustan- og austanvert þar sem einnig var töluverður snjór, og mikill inn til landsins. Snjórinn olli samgöngutruflunum á þeim slóðum. Snjólétt var vestanlands og sunnan og samgöngur greiðar. Lengst af var hlýtt í veðri, sérstaklega austanlands.

Lesa meira

Áhrif loftslagsbreytinga á vatnafar, umhverfi og samfélag - 24.3.2014

Hver verða áhrif hlýnandi veðurfars á vatnsorku á Íslandi? Aukning í afrennsli og 20% aukning í mögulegri orku en núverandi kerfi getur aðeins nýtt tæpan helming. Innviðirnir sem nota þarf eru m.a. landsnet veðurs- og vatns. Þrátt fyrir aukið mikilvægi þessarar auðlindar hefur kerfið rýrnað umtalsvert síðan 2008. Mjög brýnt er að hlúa að innviðum þannig að mikilvæg gögn tapist ekki. Sérstaklega þarf að hlúa að beinum mælingum á vatni.

Lesa meira

Ársfundur Veðurstofu Íslands - 24.3.2014

Ársfundur Veðurstofu Íslands er haldinn í dag, að morgni fimmtudagsins 27. mars, og ber hann yfirskriftina Náttúruöflin og samfélagið.

Fundinum verður streymt á vefinn.

Fundurinn er opinn öllum en skráning er æskileg. Húsið verður opnað kl. 8:15. Að loknu ávarpi umhverfisráðherra verða flutt fimm erindi.

Lesa meira

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2014 - 23.3.2014

Stofnskrá Alþjóðaveðurfræðistofnun-arinnar gekk í gildi 23. mars 1950. Þess er minnst árlega á „alþjóðlega veðurdeginum“, fyrst árið 1960.

Í ár er yfirskrift hans: Veður og veðurfar: Virkjum unga fólkið. Í ávarpi sínu segir forstjóri WMO að þótt vandi framtíðar sé gríðarlegur hafa tækifærin til að snúast gegn honum aldrei verið meiri.

Lesa meira

Veðurstofan nýtur trausts - 10.3.2014

Um miðjan febrúar 2014 var gerð netkönnun fyrir Veðurstofuna í því augnamiði að kanna traust almennings til hennar. Úrtakið var 1400 manns og svarendur 821. Skemmst er frá því að segja, að  85,3% svarenda bera fullkomið eða mikið traust til Veðurstofu Íslands. Þegar samanburður er gerður við aðrar stofnanir lendir Veðurstofan í 2. sæti af átján.

Lesa meira

Ábending vegna suðaustanstorms og hálku - 10.3.2014

Veðurstofan vekur athygli á því að spáð er vonskuveðri á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og fram á nótt. Í dag hlýnar talsvert með suðaustanstormi og getur þá myndast flughálka þar sem snjór eða klaki er fyrir á vegum.

Lesa meira

Jarðskjálftar í febrúar 2014 - 7.3.2014

Í febrúar 2014 voru um 960 jarðskjálftar staðsettir með skjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Nokkrar skjálftahrinur mældust með tugi skjálfta. Þær voru suðaustan Langjökuls, á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu, við Fagradalsfjall og Húsmúla á Hellisheiði. Þrjár smáhrinur, með um tug skjálfta, urðu við Upptyppinga, Geitlandsjökul og á Torfajökulssvæðinu. Stærstu tveir skjálftarnir sem mældust í febrúar voru 3,4 stig með upptök úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Þeir urðu 26. febrúar og bárust tilkynningar frá Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri um að þeir hefðu fundist.

Lesa meira

Tíðarfar í febrúar 2014 - 3.3.2014

Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í mánuðinum. Sérlega þurrt var um landið vestanvert, allt norður fyrir Breiðafjörð, og sömuleiðis inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Á þessu svæði var febrúar hinn þurrasti um áratugaskeið. Úrkoma var hins vegar með mesta móti nyrst á Vestfjörðum og á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýtt var í veðri og hiti vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en í meðallagi sé miðað við hin óvenjuhlýju ár síðasta áratuginn.

Lesa meira

Tíðarfar í febrúar 2014 - 28.2.2014

Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í mánuðinum. Sérlega þurrt var um landið vestanvert allt norður fyrir Breiðafjörð og sömuleiðis inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Hlýtt var í veðri og hiti vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Lesa meira

Jarðskjálftar úti fyrir mynni Eyjafjarðar - 26.2.2014

Tveir jarðskjálftar sem báðir voru 3,4 að stærð mældust úti fyrir mynni Eyjafjarðar 26. febrúar. Sá fyrri varð kl. 08:06 og sá síðari kl. 08:12.

Lesa meira

Góuþing Veðurfræðifélagsins - 25.2.2014

Góuþing Veðurfræðifélagsins verður haldið næstkomandi fimmtudag, 27. febrúar 2014, í húsakynnum Veðurstofu Íslands. Veðurfræðifélagið og þing þess eru opin öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfari.

Lesa meira

Alþjóðlega ráðstefnan 2014 um aðlögun að breytingum á veðurfari - 21.2.2014

Veðurstofan vekur athygli á þriðju norrænu alþjóðlegu ráðstefnunni um veðurfarsbreytingar og aðlögun að þeim, sem haldin verður í Kaupmannahöfn næsta sumar. Tímabært er að skilgreina og innleiða ferli sem miða að því að hámarka aðlögun að breytilegu veðurfari á sveigjanlegan og sjálfbæran hátt.

Lesa meira

Austanstormur sunnan til - 19.2.2014

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á því að vonskuveðri er spáð sunnantil á landinu í dag, miðvikudag, og fram á nótt.

Lesa meira

Jarðskjálftar í janúar 2014 - 13.2.2014

Tæplega 1100 jarðskjálftar mældust í janúar, um 300 fleiri en mánuðinn á undan. Skjálftahrina sem hófst á gamlársdag suðaustan við Fagradalsfjall, hélt áfram inn í nýtt ár. Skjálfti sem var 3,5 að stærð varð viku af janúar suðvestan við Svartsengi. Hann fannst í nágrenninu. Dagana 6. - 8. janúar varð smáhrina vestan Hveravalla. Þann 19. janúar var tilkynnt að hlaup væri hafið úr vestari Skaftárkatli, í norðvestanverðum Vatnajökli. Lesa meira

Snjór og samgöngur - lokafundur SNAPS - 6.2.2014

Lokafundur og ráðstefna SNAPS verkefnisins verður haldinn á Ísafirði dagana 11. og 12. febrúar næstkomandi en það er samstarfsverkefni styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Leitað var að lausnum þar snjór og snjóflóð eru vandamál í samgöngum. Afurðirnar eru m.a. snjókort, skafrenningsspá, snjóflóðaspá og smáskilaboð til vegfarenda.

Lesa meira

Tíðarfar í janúar 2014 - 3.2.2014

Mánuðurinn var óvenjuhlýr, sérstaklega um landið austanvert þar sem hann var sums staðar sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga. Nokkuð vindasamt var í mánuðinum, úrkoma mikil austanlands en um landið vestan- og norðvestanvert var tíð í þurrara lagi.

Lesa meira

Ísland nú fullgildur aðili að EUMETSAT - 29.1.2014

Um miðjan janúar varð Ísland fullgildur aðili að EUMETSAT, evrópsku veðurtunglastofnuninni. Með fullgildingunni opnast ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.

Veðurstofan stefnir að því að fá sérfræðinga EUMETSAT hingað til lands á árinu til að halda námskeið og kynningu á þeim afurðum sem standa til boða en miklir möguleikar felast í því að fá enn frekari gögn úr gervitunglum til náttúruvöktunar.

Lesa meira

Jarðskjálftar í desember 2013 - 24.1.2014

Rúmlega 800 jarðskjálftar mældust á landinu í desember með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands. Skjálftahrinur urðu austan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, við Húsmúla á Hellisheiði og við Þórisjökul. Stærsti skjálftinn var í Kverkfjöllum, 3,1 að stærð.

Lesa meira

Skaftárhlaupið rénar - 22.1.2014

Fyrr í dag voru starfsmenn Veðurstofunnar í feltvinnu á Vatnajökli og þeir staðfestu að Skaftárhlaupið kom úr vestari katlinum. Rennsli Skaftár við Sveinstind heldur áfram að sjatna eftir að hámarki var náð þar snemma þann 20. janúar.

Eins og staðan er núna eru engin sjáanleg merki þess að hlaup sé að hefjast úr eystri katlinum. Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni.

Lesa meira

Ljósmyndir frá Skaftárhlaupi - 21.1.2014

Flóðið í Skaftá er talið hafa náð hámarki í gær. Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli. Þegar hleypur úr þeim rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Skaftárhlaup fara að stærstum hluta niður Eldvatn og rennslismælir við Ása hefur sýnt að þetta hlaup er lítið. Veðurstofunni bárust ljósmyndir sem teknar voru úr flugi í gær.

Lesa meira

Um Skaftárhlaupið - 20.1.2014

Rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið stöðugt síðan um hádegi í gær. Hlaupið náði niður í byggð síðdegis í gær og nær líklega hámarki í dag. Stærsti hluti hlaupsins fer í Eldvatn og þaðan í Kúðafljót en minni hlutinn fer í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur. Megn lykt er af ánni en magn brennisteinsvetnis getur getur verið hættulegt fólki nærri upptökum hlaupsins og er þá jafnvel lyktarlaust. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri kötlunum og fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls. Hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Lesa meira

Skaftárhlaup er hafið - 19.1.2014

Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár og mögulegt að flæði yfir vegi. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls. Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls.

Lesa meira

Tíðarfar ársins 2013 - 15.1.2014

Tíðarfar var lengst af hagstætt en þó telst vorið hafa verið óhagstætt víða um landið norðan- og austanvert og sumarið var lakara sunnanlands heldur en verið hefur um alllangt skeið.

Árið var fremur hlýtt, hiti var á bilinu 0,4 til 1,0 stig yfir meðallaginu 1961 til 1990. Ívið kaldara var þó heldur en hefur yfirleitt verið það sem af er nýrri öld. Suðvestanlands var það hið kaldasta frá árinu 2000 en í öðrum landshlutum var lítillega lægri eða mjög svipaður hiti á árunum 2005 og 2011. Úrkoma var í ríflegu meðallagi.

Lesa meira

Tíðarfar í desember 2013 - 2.1.2014

Tíð var óróleg í desember. Mikið kuldakast gerði dagana 4. til 8. en annars var hiti ekki langt frá meðallagi. Hiti var ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 á Austfjörðum en annars í því eða lítillega undir. Kaldast að tiltölu var á Vestfjörðum. Úrkoma var undir meðallagi suðvestanlands en annars yfir því, langmest þó á Austfjörðum.

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica