Fréttir
ljósmynd
Öræfajökull 17. nóvember 2017. Ágúst J. Magnússon.

Almannavarnir viðhalda óvissustigi í nágrenni Öræfajökuls

Þó talin lítil hætta á umbrotum sem ógni flugi á næstu misserum

4.5.2018

Hátt í níu mánuðir er liðnir frá því að aukinnar virkni varð vart í Öræfajökli. Þann 17. nóvember 2017 var litakóði fyrir flug settur á gult og óvssustigi Almannavarna lýst yfir vegna aukinnar virkni í eldstöðinni, en Öræfajökull er virk eldstöð sem  tvisvar hefur gosið á sögulegum tíma, 1362 og 1727-28. 

Aukin virkni lýsti sér með skjálftavirkni, merki um gas í Kvíá og með myndun hringlaga ketils á yfirborði jökulsins í öskju Öræfajökuls.  Þetta benti til aukinnar jarðhitavirkni í öskjunni samanborið við síðustu áratugi.

Virknin var vel yfir skilgreindri bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar sem gæti leitt til eldsumbrota sem hefðu áhrif á flugumferð. Því ákvað Veðurstofa Íslands að breyta litakóða Öræfjökuls fyrir flug úr grænum í gulan. Samhliða því lýsti Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra yfir óvissustigi.

Í kjölfarið var vöktun á Öræfajökli aukin umtalsvert. Aukin vöktun gerir Veðurstofunni kleift að fylgjast betur með virkninni til að gefa út aðvaranir tímanlega.

Skjálfta- og jarðhitavirkni í Öræfajökli hefur haldist nokkuð stöðug undanfarna mánuði en stærð skjálfta þó farið minnkandi. Gildi úr rennslis- og leiðnimælingum hafa verið stöðug. Mælingar frá því í mars á jarðhitavirkni í öskjunni sýna þó mun minni virkni en þegar að sigketillinn myndaðist. Mælingar sýna ummerki mögulegrar þenslu í suðurhlíðum Öræfajökuls, en þrátt fyrir það eru engin merki þess að eldsumbrot séu yfirvofandi í nánustu framtíð.

Almannavarnir viðhalda óvissustigi í nágrenni Öræfajökuls

Að teknu tilliti til ofangreindra atriða, er það mat sérfræðinga að hætta á umbrotum í Öræfajökli, sem ógni flugi á næstu misserum sé lítil og því hefur Veðurstofa Íslands ákveðið að breyta litakóða flugs fyrir Öræfajökul í grænan.

Mikilvægt er þó að benda á að Almannavarnir viðhalda samt sem áður óvissustigi í nágrenni Öræfajökuls þar sem ennþá eru líkur á óvæntum flóðum, gasútstreymi eða aurskriðum.

Öræfajökull og önnur virk eldstöðvakerfi á Íslandi eru vöktuð allan sólahringinn af Veðurstofu Íslands. Öllum breytingum á virkni verður komið á framfæri um leið og þeirra verður vart. 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica