Alþjóðaár jökla hafið
Sameinuðu þjóðirnar beina kastljósinu að jöklum á hverfandi hveli
- 21. mars er alþjóðadagur jökla og er ætlað að vekja athygli á jöklum og þýðingu þeirra.
- Jöklar á Íslandi hafa rýrnað um 900 km² frá aldamótum 2000, og um 70 litlir jöklar hafa horfið.
- Hofsjökull eystri tilnefndur á lista yfir jökla sem eru horfnir eða munu brátt hverfa
- Í tilefni af degi jökla er efnt til samkeppni á meðal barna og ungmenna. Leitað er eftir framlögum um mikilvægi, eðli, fegurð og hverfulleika jökla
- Formleg setning er í dag, 21. janúar á aðalskrifstofu Alþjóða Veðurfræðistofnunarinnar í Genf
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árið 2025 jöklum á hverfanda hveli, og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum.
Samanlagt flatarmál jökla landsins árið 2023 var 10.200 km² og hefur það minnkað um 900 km² frá aldamótunum 2000. Munar þar mestu um hörfun stærri skriðjökla Vatnajökuls, Langjökuls, Hofsjökuls og Mýrdalsjökuls. En einnig hafa um 70 litlir jöklar á Íslandi horfið á þessu tímabili, flatarmál þeirra flestra var á bilinu 0,1–3 km2 í upphafi þessarar aldar. Það er fyrirséð að fleiri jöklar muni hverfa á næstu áratugum og hefur Hofsjökull eystri á Suðausturlandi verið tilnefndur á alþjóðlegan lista yfir jökla sem eru horfnir eða eiga stutt eftir. Vefsíðunni er ætlað að vekja athygli á þessari þróun. Alþjóðlega Jöklarannsóknafélagið mun gefa út sérhefti á árinu sem tileinkað verður horfnum jöklum.
Efri mynd: Sultartungnajökull í sunnanverðum Vatnajökli 1991, ljósmynd: Colin Baxter.Neðri mynd: Sultartungnajökull í sunnanverðum Vatnajökli 2023, ljósmynd: Kieran Baxter.
Jöklaárinu var formlega hleypt af stokkunum í dag, 21. janúar á aðalskrifstofu Alþjóða Veðurfræðistofnuninni í Genf í Sviss í samstarfi við Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO) og fleirum.
Efnt til samkeppni meðal barna- og ungmenna.
Í tilefni af degi jökla er efnt er til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 10–20 ára. Óskað er eftir framlögum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru. Meðal vinninga eru ferðir á Sólheimajökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Sjá nánari upplýsingar á vef samkeppninnar.
Að samkeppninni standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi,
Jöklarannsóknafélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans,
Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands
og Náttúruminjasafn Íslands.
Ítarefni
Árið 2025 verður alþjóðaár jökla
2025 International year of glaciers´preservation
World glacier monitoring service
Alþjóðlegur grafreitur jökla stofnaður á Íslandi.
Alþjóðlegur dagur jökla 21. mars
Global glacier casualty list