Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni
- Eldgos hófst á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells kl. 23:14
- Fyrstu merki um kvikuhlaup sáust á mælum um kl. 22:30
Lengd gossprungunnar er áætlaður um 3 km og er syðri endi hennar við Sýlingarfell
- Eldgosið virðist hafa náð hámarki
- Gasmengun berst í suður yfir Grindavík
- Hlekkur á gasmengunarspá
Færsla kl. 01:45
Fréttaþráðurinn verður næst uppfærður kl. 10:00. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun birta færslur á Facebook ef miklar breytingar verða á virkni eldgossins í nótt.
Virknin í eldgosinu virðist hafa náð hámarki. Gossprunguna er hætt að stækka og samkvæmt þeim merkjum sem sjást á mælum Veðurstofunnar virðist ekkert benda til þess að virknin muni aukast.
Lengd gossprungunnar er metin vera um 3 km. Hraunstraumurinn dreifist bæði til austurs og vesturs. Ekkert hraunflæði er í átt til Grindavíkur. Á þessum tímapunkti eru um 500m frá hraunjaðrinum í vestur að Grindavíkurvegi.
Eldgosið nú er talsvert minna en síðasta eldgos sem hófst 22. ágúst. Áætlað hraunflæði á þessari stundu er um 1.300m3/s, en það var um 2.500m3/s í eldgosinu í ágúst.
Það sem vekur athygli
er að skjálftavirknin var ekki tekin að vaxa vikurnar fyrir gos líkt og hafði gerst
í fyrri atburðum. Kvikumagnið sem safnast hafði undir Svartsengi var svipað og
fyrir síðasta gos. Þróunin undanfarið hefur hins vegar verið sú að sífellt meira
magn af kviku hefur þurft að safnast fyrir til að koma af stað næsta atburði. Þetta
er vísbending um að það munstur sem sést hefur hingað til í fyrri eldgosum er mögulega
að breytast.
Færsla kl. 01:20
Gasdreifingarspá veðurvaktar: Norðanátt í nótt blæs gasmengun til suðurs af gosstöðvunum, en á morgun (fimmtudag) er spáð austlægari vindum, þ.a. gasmengun berst til vesturs og suðvesturs. Líkleg er að gasmengunar verði vart í Grindavík, Svartsengi og Reykjanesbæ.
Mynd sem sýnir hvar megi búast við gasmengun næstu 24 klst.
Færsla kl. 01:09
Endurskoðuð staðsetning gossprungunnar byggð á upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar.
Færsla kl. 00:21
Lengd gossprungunnar er áætlaður um 2.5 km og er syðri endi hennar við Sýlingarfell. Miðað við stöðuna núna er þetta eldgos minna en síðasta eldgos.
Ekki hægt að útiloka að gossprungan eigi eftir að stækka. Á þessari stundu eru engar vísbendingar að sjá á mælum Veðurstofunnar um að gossprungan sé að lengjast í suður.
Fyrsta myndin úr eftirlitsflugi með Landhelgisgæslunni. Ljósin í Grindavíkurbæ sjást í fjarska. Ljósin í Svartsengi hægra megin á myndinni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)
Mynd sem sýnir hraunstraum í vestur í átt að Grindavíkurvegi. Ljósin í orkuveri HS Orku í forgrunni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)
Færsla kl. 23:50
Smáskjálftahrina hófst um kl. 22:30 og um 22:37 mældust þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku sem voru skýr merki um að kvikuhlaup væri hafið.
Klukkan 23:14 opnaðist gossprunga á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Gosprungan stækkaði í norðaustur.
Fyrstu fréttir af
hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggur
sunnanvert í Stóra-Skógfelli. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík.
Stíf norðanátt er á svæðinu sem beinir gasmengun suður á bóginn yfir Grindavík.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið. Upplýsingar úr því flugi munu nánari mynd af stefnu hraunflæðis.
Kort sem sýnir áætlaða staðsetningu gossprungunnar kl. 23:40. Staðsetningin er byggð á radargögnum.