Ennþá snjóflóðahætta til fjalla
Eftir lægðagang undanfarið er töluverður snjór til fjalla á jöklum og hálendinu. Sleðamenn komu af stað snjóflóði í Skriðutindum á mánudag og segja mikið vera af flóðum á því svæði. Á fimmtudag í síðustu viku lentu menn í snjóflóði á Grímsfjalli.
Á laugardag og Hvítasunnudag snjóaði einnig talsvert til fjalla sumstaðar á N- og V- verðu landinu. Í fjöllum umhverfis Ísafjörð var um 20 cm nýsnævi til fjalla á mánudag. Á mánudag lenti göngumaður í snjóflóði í Hrafnagili (líka nefnt Grænagarðsgil) við Skutulsfjörð. Líklega setti hann flóðið af stað sjálfur upp undir brún og barst með því niður í gilkjaft.
Það er því ástæða til að minna á að enn er vetur til fjalla inn til landsins og sumstaðar talsverð snjóflóðahætta á jöklum og hálendinu. Einnig er minnt á að þótt lítill snjór sé til fjalla meðfram ströndinni, þá þarf ávallt að fara með gát þar sem nýsnævi er í bröttum brekkum. Það getur verið hættulegt að setja af stað lítið flóð, ef afleiðingar falls eru alvarlegar.
Nánari upplýsingar má finna á snjóflóðasíðunum á vefnum okkar.