Hitamet það sem af er ári
Fáir mjög hlýir dagar hafa verið í sumar
Mjög hlýir dagar hafa verið fáir í sumar. Einn slíkur kom þó í gær á Norðausturlandi þegar hitinn fór víða vel yfir 20 stig. Hæstur mældist hitinn 25,0 stig á Mánárbakka, það er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu þetta árið. Það er sjaldgæft að hæsti hiti ársins mælist svo síðla sumars.
Á mönnuðu stöðinni á Þórunnarstræti á Akureyri hafði hæsti hiti sumarsins ekki náð 20 stigum, þar til í gær, þegar hitinn mældist 22,6 stig. En að meðaltali mælist hitinn 20 stig eða meiri 8 daga á ári á Akureyri. Hæsti hiti sem mælst hefur á mönnuðu stöðinni í Reykjavík í sumar er 17,9 stig, mælt þ. 10. júní. Hámarkshiti sumarsins í Reykjavík hefur ekki verið eins lágur síðan sumarið 2001.
Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meiri einhversstaðar á landinu hafa þó verið 27 í sumar og hafa oft verið færri. En í samanburði við sumarið í fyrra þegar slíkir dagar voru 57 í sumarmánuðunum þremur (og höfðu aldrei verið fleiri), eru þeir vissulega fáir.
Framhaldið – er von á fleiri hlýjum dögum?
Um helgina gera spár ráð fyrir óvenju hlýjum loftmassa yfir landinu öllu en einnig tiltölulega lygnu veðri, og í slíkum aðstæðum hær hiti sér yfirleitt ekk jafn vel á strik og þegar vindur knýr hnjúkaþey sem eykur hitastig hlémegin fjalla. Það er því ólíklegt að hitamet sumarsins, sem sett var í gær falli um helgina.