Hefur sinnt veðurmælingum í 58 ár samfellt
Guðrún Sveinbjörnsdóttir á Mýri lætur af störfum
Guðrún Sveinbjörnsdóttir lætur nú af
störfum eftir 58 ára samfellda þjónustu við Veðurstofu Íslands. Guðrún er fædd
í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1942 og ólst þar upp við sveitastörf og að læra
að nýta öll hlunnindi sem sjórinn gaf. Eftir nám við Héraðsskólann á Reykjum í
Hrútafirði og í Reykjavík fór Guðrún í Bændaskólann á Hólum sem þá var afar
fátítt um stúlkur. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Tryggva
Höskuldssyni frá Bólstað í Bárðardal, sem þar stundaði einnig nám. Guðrún og Tryggvi hófu búskap á Mýri í
Bárðardal vorið 1963, en þar hafði fyrri ábúandi, Karl móðurbróðir Tryggva, séð
um að annast úrkomumælingar fyrir Veðurstofuna, en var um þetta leyti að bregða
búi.
Við flutninginn í Mýri tók Guðrún að sér að gera þessar mælingar, einungis 21 árs gömul, þótt hún hafi ekki formlega verið skráð fyrir þeim fyrr en 1971. Á Mýri eignuðust Guðrún og Tryggvi fjóra syni sem allir hafa erft dugnað og myndarskap foreldranna og sækja gjarnan þangað heim í fríum frá sínu daglega amstri enda Guðrún og Tryggvi gestrisin með afbrigðum; ekki bara við að taka á móti eigin afkomendum heldur stórum frændgarði, sveitungum og alls kyns ferðalöngum. Þá dvöldu mörg ungmenni hjá þeim sumarlangt við leik og störf auk fjölda barnabarna sem dvalið hafa langdvölum hjá ömmu og afa á Mýri á sumrin þar sem þau hafa lært að vinna og létta undir með eldri kynslóðinni. Oft var glatt á hjalla í Mýrareldhúsinu þar sem Guðrún bar fram veitingar, nær allar útbúnar með eigin höndum, og Tryggvi spilaði á harmonikkuna.
Mynd frá Mýri í Bárðardal. (Ljósmyndari: Elvar Ástráðsson)
Lengst af eftir 1969 var Mýri veðurfarsstöð sem fól í sér mælingar á hita og athuganir á vindi, skýjafari og fleiri veðurþáttum. Einu mælitækin voru hitamælar og úrkomumælir þótt einnig hafi alltaf verið spáð í vindátt og vindhraða á Mýri sem þar sem glöggskyggni Guðrúnar kom sér vel. Á árunum 2001–2013 var Mýri veðurskeytastöð, og fengust þaðan mikilvægar upplýsingar um veður við hálendismörk Norðausturlands.
Guðrún hefur sinnt starfi sínu af alúð og vandvirkni alla tíð en hún er af þeirri kynslóð veðurathugunarfólks sem lagði Veðurstofunni mikilsvert lið um langa hríð. Margir þeirra hafa verið að láta af störfum á síðustu árum. Starf veðurathugnarmannsins einkennist fyrst og fremst af mikilli bindingu því að veðurskeytin þurfa að berast á réttum tíma alla daga vikunnar, allan ársins hring, og því hefur gjarnan valist til þessara starfa fólk í sveitum landsins sem fyrir var bundið við búskap.
Veðurstofa Íslands þakkar Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur langt, farsælt og óeigingjarnt starf óskar henni velfarnaðar á komandi árum.