Fréttir
Hlaupvatn rennur yfir brúna yfir Skálm. Ljósmynd tekin um kl. 15 í dag. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)

Dregið hefur úr virkni í Mýrdalsjökli

Ennþá er innistæða fyrir venjubundnum hlaupum sem verða úr Mýrdalsjökli að sumri til og geta slík hlaup skapað hættu á svæðinu við Kötlujökul

29.7.2024

Uppfært 29. júlí kl. 11:30

  • Rafleiðni í Skálm minnkað verulega

  • Skjálftavirkni minnkað síðasta sólarhringinn

  • Engin merki um hlaupóróa síðasta sólarhringinn

  • Mælingar benda til þess að jökullinn er að jafna sig eftir jökulhlaupið og nálgist eðlilega bakgrunnsvirkni

  • Fluglitakóði fyrir Kötlu hefur verið færður niður á grænan

  • Ennþá er innistæða fyrir venjubundnum hlaupum sem verða úr Mýrdalsjökli að sumri til og geta slík hlaup skapað hættu á svæðinu við Kötlujökul

Rafleiðni í Skálm hefur minnkað verulega frá því í gær. Jarðskjálftavirkni hefur minnkað á sama tíma og engin merki hafa heldur sést um hlaupóróa undir jöklinum.

GPS mælir sem staðsettur á Austmannsbungu sýndi skýr merki á um breytingar í öskjunni sem sjást þegar um venjubundið jökulhlaup er að ræða. Engar slíkar breytingar sjást lengur.

Mælingar benda því til þess að jökullinn er að jafna sig og nálgist það sem er kallað eðlileg bakgrunnsvirkni. Það skal tekið fram að nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma.  

Fluglitakóði fyrir Kötlu hefur verið færður niður á grænan.

En líkt og gerðist í kjölfar stóra hlaupsins sem var í Múlakvísl 2011, má búast við því að virkni í Mýrdalsjökli haldist há með skjálftavirkni og tíðum minni jökulhlaupum í ár sem renna úr jöklinum í kjölfar hlaupsins í Skálm.

Mikilvægt er að benda á að ennþá er innistæða fyrir hefðbundnum hlaupum sem verða úr Mýrdalsjökli að sumri til. Slík hlaup geta farið niður farveg Múlakvíslar og skapað hættu á svæðinu við Kötlujökul. Bæði vegna vatnsmagns við jökuljaðarinn og svo vegna gasmengunar í nágrenni Múlakvíslar.


Uppfært 28. júlí kl. 12:00

  • Vatnshæð og rafleiðni í Skálm hefur minnkað talsvert síðan í gær

  • Engin merki um hlaupvatn í Jökulsá á Sólheimasandi eða Múlakvísl

  • Lítil skjálftavirkni undir jöklinum í gærkvöldi og nótt

  • Undir morgun mældust nokkrir skjálftar sá stærsti um 3 að stærð. Engin breyting varð á óróa í kjölfarið

  • Rafleiðni og vatnsrennsli í Markarfljóti vestan Mýrdalsjökuls hefur aukist lítillega síðasta sólarhringinn

  • Um óvenjulega atburðarás er að ræða hvað varðar hlaup úr Mýrdalsjökli

Vatnshæð og rafleiðni í Skálm hefur minnkað talsvert síðan í gær. Áfram dregur því úr áhrifum hlaupsins sem kom undan Sandfellsjökli í austanverðum Mýrdalsjökli sem hófst í gær. Engin merki sjást um hlaupvatn í Jökulsá á Sólheimasandi eða Múlakvísl.

Lítil skjálftavirkni mældist undir jöklinum í gærkvöldi og nótt. Undir morgun mældust nokkrir skjálftar, sá stærsti um 2,9 að stærð um kl. 6. Engin breyting varð á óróa í kjölfarið.

Merki um hlaupóróa mældust við Goðabungu í vestanverðum Mýrdalsjökli í gærkvöldi. Upptök óróans voru á svipuðum slóðum og jarðskjálftavirknin í morgun. Rafleiðni og vatnsrennsli í Markarfljóti vestan Mýrdalsjökuls hefur aukist lítillega síðasta sólarhringinn. Lítið magn af hlaupvatni er því að berast niður í Markarfljót úr Entujökli í vestanverðum Mýrdalsjökli, en miðað við óróan sem mældist í gærkvöldi mun það vatnsmagn ekki skapa neina hættu á svæðinu.

Ef engin frekari skjálftavirkni eða hlaupórói mælist, er ekki er von á frekari hlaupum undan Mýrdalsjökli að svo stöddu. Veðurstofan heldur þó áfram að vakta svæðið náið. Það skal tekið fram að nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma. Líkt og gerðist í kjölfar stóra hlaupsins sem var í Múlakvísl 2011,  má búast við því að virkni í Mýrdalsjökli haldist há með skjálftavirkni og tíðum minni jökulhlaupum í ár sem renna úr jöklinum.

Screenshot-from-2024-07-28-11-43-00

Mynd sem sýnir skjálftavirkni í Mýrdalsjökli frá því á miðnætti 26. júlí. Inn á kortið eru merkt vatnaskil jökulsins og einnig þekktir hlaupkatlar (MY)

Óljóst hvað olli svo stóru hlaupi

Um óvenju stórt hlaup var að ræða miðað við venjubundin hlaup á þessum slóðum. Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða hvað olli því að þetta mikið magn af hlaupvatni kom undan jöklinum. Það er þó ljóst að talsverð virkni hefur verið í norðurenda Kötluöskjunnar og olli því að hlaupvatn kom undan Mýrdalsjökli bæði vestan megin og austan megin.

Á gervitunglamyndum sést að sig hefur orðið í þekktum hlaupkötlum á Mýrdalsjökli. Það er hins vegar óljóst hvað veldur því að þetta mikið hlaupvatn ryðst fram niður í Skálm á þetta skömmum tíma. Að öllu jöfnu þarf um 2 milljónir rúmmetra af vatni að safnast saman í kötlum Mýrdalsjökuls áður en það hleypur fram. Miðað við fyrsta mat af umfangi hlaupsins í Skálm er um margfalt meira magn að ræða en í hefðbundnu hlaupi.

Vísindamenn munu leggjast yfir þau gögn sem safnast hafa til að fá betri mynd af því hvað orsakaði svo stórt hlaup. En eins og kom fram í fréttum í gær sjást engin merki í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi orsakað jökulhlaup að þessu sinni.



Uppfært 27. júlí kl. 21:00

  • Dregið hefur úr rennslinu í Skálm

  • Hlaupið hefur náð hámarki við þjóðveginn

  • Hlaupið í Skálm sambærilegt við hlaupið í Múlakvísl 2011 og sömuleiðis hlaupið sem var í Múlakvísl árið 1955

  • Nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma.

  • Ekkert í gögnum sem bendir til þess að eldgos hafi orsakað hlaupið í Skálm

Mælingar sýna að verulega hefur dregið úr rennslinu í Skálm. Mælirinn er staðsettur á brúnni yfir Skálm við þjóðveg 1 og því hefur hlaupið úr Mýrdalsjökli hafi náð hámarki þar. Samkvæmt allra fyrsta mati er talið að stærðargráðan á hlaupinu hafi verið um 1.000 m3/s við þjóðveginn.

Engin merki sjást um að hlaupvatn hafi borist í Múlakvísl eða aðrar ár undan Mýrdalsjökli.

Verulega hefur dregið úr óróanum sem fór að mælast um kl. 11 í morgun og því ekki við öðru að búast en að smám saman fari að draga úr rennslinu í Skálm. Nokkrir dagar geta liðið þangað til að rennslið í Skálm kemst í eðlilegt horf miðað við árstíma.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast náið með óróa og jarðskjálftavirkni undir jöklinum. Tekið getur allt að sólarhring fyrir þá virkni að komast aftur í það sem kallast „eðlileg bakgrunnsvirkni“, þannig að hægt verði að lýsa því yfir að þessari atburðarás sé lokið.

Eldgos ekki orsök jökulhlaupsins í dag

Engin merki sjást í gögnum Veðurstofunnar um að eldgos hafi orsakað jökulhlaupið sem varð í dag. Þó svo að um óvenju stórt hlaup hafi verið að ræða, er hlaupið vegna jarðhita í kötlum jökulsins, bræðsluvatn safnast fyrir sem síðar hleypur fram undan jöklinum. GPS mælir sem staðsettur á Austmannsbungu sýnir skýr merki um að breytingar sem mældust í öskjunni að um venjubundið jökulhlaup er að ræða. Þó er óljóst hvað veldur því að meira vatn fer af stað en almennt gengur og gerist úr slíkum hlaupum.

Landhelgisgæslan fór í eftirlitsflug með vísindamönnum frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands nú síðdegis til að kanna aðstæður. Í því flugi var staðfest að hlaupvatn kom einungis undan Sandfellsjökli og barst þaðan í farveg ánnar Skálm. Ekki var skyggni yfir Mýrdalsjökli til þess að staðfesta úr hvaða kötlum hlaupvatnið kom.

Myrdalsjokull_Skalm_27072024_kl1800

Mynd úr eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í dag. Á myndinni sjást upptök hlaupsins við jökulsporð Sandfellsjökuls í austurhluta Mýrdalsjökuls í fjarska. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 27. júlí kl. 17:00. Fréttin verður uppfærð síðar í kvöld.

  • Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum
  • Hlaupvatn kemur undan Sandfellsjökli eins og staðan er núna og fer niður í farveg Skálmar
  • Miðað ljósmyndir virðist hlaupið hafa náð hámarksrennsli við jökulsporðinn
  • Líklegast að þetta hlaup núna hafi ekki náð hámarki við þjóðveginn og umtalsvert meira hlaupvatn eigi eftir að koma undan jöklinum
  • Ekki hægt að útiloka að hlaupvatn komi undan jöklinum á fleiri stöðum og hlaupvatn berist niður í Múlakvísl
  • Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða

Í morgun sendi Veðurstofan frá sér tilkynningu um að aukin rafleiðni hafi mælst í ám umhverfis Mýrdalsjökul.

Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum. Jökulhlaup fór svo að mælast í ánni Skálm um kl. 13:20 í dag og það var stórt hlaup, mögulega stærra en síðasta stóra hlaup sem var árið 2011 og kom undan Kötlujökli í austanverðum Mýrdalsjökli.

Samkvæmt upplýsingum sem Veðurstofan fékk frá flugmanni kemur hlaupvatn undan Sandfellsjökli eins og staðan er núna og fer niður í farveg Skálmar. Miðað við þær myndir virðist hlaupið hafa náð hámarksrennsli við jökulsporðinn. Hlaupið á þó enn eftir að ná hámarki við þjóðveg 1.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni flæðir vatn yfir brúna yfir ánna Skálm og yfir Hringveginn á um kílómetra metra kafla austan við brúna. Starfsfólk frá Vegagerðinni og lögreglunni er komið á staðinn og búið er að loka hringveginum vegna hlaupsins. Vegurinn er farinn í sundur austan megin við brúna og skemmdir eru á brúarendunum sökum vatnsflaumsins. Vatn hefur einnig flætt yfir veginn niður í Álftaver.

Ekki hægt að útiloka að mun meira hlaupvatn komi undan jöklinum

Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn nokkrar klukkustundir að ferðast undir jöklinum og niður í árfarvegi. Seint í gærkvöldi sást óróamerki sem gæti verið upphafsmerki hlaupsins og þess vatnsmagns sem nú er komið niður í farvegi á ánni Skálm og flæðir yfir þjóðveginn. Órói jókst svo verulega um kl. 11 í morgun. Þessi aukni órói sem mældist í morgun gætu verið merki þess að von sé á enn meira hlaupvatni undan jöklinum. Þá er ekki hægt að útiloka að hlaupvatn komi undan jöklinum á fleiri stöðum og hlaupvatn berist niður í Múlakvísl.

Ekkert er hægt að fullyrða um hvenær megi búast við að hlaupið nái hámarki. Í hlaupi sem varð 2011, sem var óvenju stórt hlaup, liðu um 10 klukkustundir frá því að mikill samfelldur órói mælist þangað til að hlaupvatn kom undan jöklinum. Árið 2011 barst hlaupvatn í Skálm en einnig Múlakvísl. Ekki er hægt að fullyrða að þetta hlaup sem nú er í gangi hagi sér á sambærilegan hátt og hlaupið 2011. Það er þó líklegast að þetta hlaup núna hafi ekki náð hámarki og umtalsvert meira hlaupvatn eigi eftir að koma undan jöklinum. Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða.

20240727_153011

Mynd sem Veðurstofan fékk senda frá flugmanni sem flaug yfir svæðið um kl. 15 í dag. Myndin sýnir hlaupvatnið flæða yfir þjóðveg 1. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)

Fluglitakóði fyrir Kötlu færður upp á gult. Svæðið við Sólheimajökul rýmt

Vegna virkninnar í Mýrdalsjökli hefur fluglitakóði fyrir Kötlu verið færður upp á gult. Það þýðir að eldstöðin sýnir virkni umfram það sem telst til grunnvirkni. Almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa lýst yfir óvissustigi vegna hlaupsins í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi.

Vegna mikillar óvissu um áframhaldandi þróun á atburðum í Mýrdalsjökli og mögulegri hættu á jökulhlaupum niður Sólheimajökul, lagði Veðurstofan til við Almannavarnir að Sólheimajökull, svæðið framan við jökulsporðinn og þjónustusvæðið við enda Sólheimajökulsvegar verði rýmt. Tími til viðvörunar vegna yfirvofandi hlaups í Jökulsá á Sólheimasandi gæti verið mjög stuttur og áhætta á svæðinu mikil verði hlaup. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar ásamt vísindamönnum úr Háskóla Íslands vinna nú að því að greina gögn enn frekar til meta hver möguleg þróun virkninnar í Mýrdalsjökli geti orðið.

Hlaupvatn rennur yfir brúna yfir Skálm. Ljósmynd tekin um kl. 15 í dag. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica