Hvernig munu loftslagsbreytingar hafa áhrif á þitt nærsamfélag?
Loftslagsatlas Íslands opnar aðgengi að staðbundnum upplýsingum.
Loftslagsbreytingar hafa margvísleg áhrif á umhverfi og samfélög. Mikilvægt er að almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um þróunina og hvað hún gæti þýtt fyrir nærumhverfi og lífsskilyrði.
Loftslagsatlas Íslands hefur
verið gerður aðgengilegur á nýjum vef Veðurstofu Íslands. Atlasinn
veitir innsýn inn í hvernig loftslag á Íslandi gæti þróast og breyst til loka
aldarinnar. Gögnin út atlasnum er hægt að nýta á ýmsan máta til þess að meta viðkvæmni
samfélaga gagnvart loftslagsbreytingum og mögulegar áhættur sem þeim fylgja. Atlasinn
er þannig mikilvægt verkfæri til að styðja við stefnumótun og ákvarðanatöku í tengslum
við aðlögun að loftslagsbreytingum með breytta framtíð í huga.
Loftslagsatlas Íslands er formlegur farvegur fyrir viðurkenndar sviðsmyndir um það hvernig vænta má áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi. Hægt er að sækja gögn fyrir mismunandi loftslagsvísa og ólíkar sviðsmyndir um hnattræna losun á myndrænu formi, auk þess sem hægt er að hlaða þeim niður á annan máta.
„Ákall eftir opinberum, samræmdum gögnum er varða áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Ísland hefur orðið sífellt háværara og er Loftslagsatlas Íslands svar við því,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skriftstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.
Opinberar og samræmdar upplýsingar
Loftslagsatlas Íslands byggir á sviðsmyndum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda. Gögnin sem birtast í atlasnum hafa verið endurreiknuð fyrir Ísland og hafið umhverfis það.

Loftslagsatlas Íslands byggir á sviðsmyndum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) en í atlasnum hafa þær verið endurreiknaðar fyrir Ísland.
Hægt er að nálgast upplýsingar um hvernig loftslagsbreytingar gætu haft áhrif á hitafar, úrkomu og sjávarflóð á Íslandi til loka aldarinnar, miðað við mismunandi sviðsmyndir um hnattræna losun. Gögnin í atlasnum eru opin og aðgengileg öllum, á myndrænu formi í gegnum kortavefsjá og auk þess sem hægt er að hlaða þeim niður á öðrum sniðum.
„Með útgáfu Loftslagsatlas Íslands er loks komið verkfæri sem aðstoðar okkur við að taka réttar ákvarðanir til framtíðar, byggðar á vísindalegum gögnum. Atlasinn gerir okkur kleift að samræma stefnur og áætlanir þeirri breyttu framtíð sem við megum búast við,“ segir Anna Hulda.
Forsenda áhættumats vegna loftslagsbreytinga
Vísindanefndum loftslagsbreytingar staðhæfir í skýrslu sinni, frá árinu 2023, að „loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru“.
Breytingarnar munu halda áfram, óháð því hversu vel tekst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hnattræna vísu. Því er nauðsynlegt að huga að loftslagsþoli byggða, innviða, atvinnu og seiglu mismunandi hópa fólks og lífríkis gagnvart loftslagsbreytingum. Til þess að aðlögun að loftslagsbreytingum verði sem áhrifaríkust er mikilvægt að styðjast við heildrænt skipulag sem tekur mið af viðkvæmni- og áhættumati gagnvart loftslagsbreytingum. Svo að unnt sé að vinna og framkvæma slíkt mat á sem árangursríkastan hátt er þörf á skýrum og samræmdum upplýsingum, sem leitast er við að veita með útgáfu Loftslagsatlass Íslands.

Myndin gefur yfirsýn yfir virðiskeðju Loftslagsatlass Íslands. Fyrirliggjandi gögn um áhrif loftslagsbreytinga eru eru gerð aðgengileg með atlasnum. Þessi gögn er hægt að nota til þess að móta stefnu og skipulag. Skipulagsákvarðanir leiða af sér aðgerðir sem taka mið af breyttri framtíð. Aðgerðirnar skila sér til samfélagsins sem á að lokum í samtali um framþróun atlasins.