Fréttir
Jarðskjálftahrina NA við fagradalsfjall
Mikil smáskjálftavirkni hefur átt sér stað Norðaustan við Fagdralsfjall í dag

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi

30.7.2022

Upppfært 02.08.2022 kl 17:49

Niðurstöður aflögunarlíkana sem gerð voru í dag benda til að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli liggi mjög grunnt eða í kringum 1 km undir yfirborðinu. Kvikuinnflæðið er nokkuð ört, en það er nálægt tvöfaldur hraði frá því sem var í aðdraganda fyrra goss í febrúar/mars 2021. Það virðist vera að hægja á aflögun og skjálftavirkni eins og staðan er núna en á seinasta ári var það einn af forboðunum fyrir eldgosið. Innskotið nú er meðfram nyrðri huta kvikugangsins frá í fyrra og nær frá miðju gangsins hálfa leið að Keili. Líkurnar á því að það gjósi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall á næstu dögum eða vikum hafa því aukist og eru taldar verulegar.

Igram_20jultil1aug_reyk

InSAR mynd gerð úr Sentinel-1 gervitunglamyndum og spannar tímabilið 20. júlí til 1. ágúst 2022. Myndin sýnir vel kvikuinnskotið milli Keilis og Fagradalsfjalls ásamt aflögun samhliða M5.47 jarðskjálftanum sem varð við Grindavík þann 31. júlí 2022. Litaðar línur sýna aflögun sem tengist því kvikuinnskoti við Fagradalsfjall sem hófst í kringum 30. júlí síðastliðinn. InSAR myndin sýnir 16 cm af tilfærslu til norðvesturs sem tengist innskotinu.


Uppfært 31.07.2022 kl 15:27

Jarðskjálftahrinan sem hófst um hádegi í gær norðaustan við Fagradalsfjall heldur áfram, en alls hafa mælst tæplega 3000 skjálftar með sjálfvirku staðsetningarkerfi Veðurstofunnar frá því að hrinan hófst. Þar af eru fjórir skjálftar yfir stærð 4. Skjálftarnir voru fyrst á um 6-8 km dýpi en frá því klukkan 18 í gærkvöldi hefur skjálftavirknin grynnkað og haldist stöðug á um 2-5 km dýpi. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig óróinn fór að aukast um 12:30 í gær.

Skjalftar3107

Kvikuinnskotið við Fagradalsfjall veldur spennubreytingum norðaustan við Grindavík og vestan við Kleifarvatn og framkallar þar skjálfta. Þessir skjálftar eru gjarnan kallaðir gikkskjálftar. Þar sem skjálftarnir við Kleifarvatn eru nær höfuðborgarsvæðinu geta þeir fundist greinilegar þar þrátt fyrir að vera aðeins minni að stærð. Meðfylgjandi kort sýnir staðsetningar á yfirförnum skjálftum frá því hrinan hófst.

Virkni3107

GPS gögn sýna aflögun á stöðvum í næsta nágrenni við virknina. Aflögunin er í samræmi við að kvikugangur sé að myndast. Þessari atburðarás svipar mjög til virkninnar í desember 2021 en virðist þó ekki vera alveg jafn kröftug. Áfram verður fylgst vel með svæðinu.


30.07.2022

Í hádeginu í dag hófst kröftug jarðskjálftahrina með mikilli smáskjálfta virkni rétt norðaustan við Fagradalsfjall skammt norðan við Fagradalshraun. Stærsti skjálfti hrinunnar mældist af stærð 4,0 kl. 14:03. Skjálftarnir eru nú að mælast á um 5-7 km dýpi. Skjálftarnir hafa fundist í Reykjanesbæ, Grindavík, á Höfðuborgarsvæðinu og allt upp í Borgarnes. Talið er þetta stafi vegna kvikuhlaups sem er að eiga sér stað norðaustan við Fagradalsfjall á 5-7 km dýpi.

Vegna hrinunnar er aukin hætta á grjóthruni. Nú þegar hafa nokkrir skjálftar mælst yfir 3 stigum og í jarðskjálftum sem þessum getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður fallið. Enn hafa ekki borist tilkynningar um nýlegt grjóthrun á svæðinu. Ef öflugri skjálftar verða, aukast líkur á grjóthruni. Fólk er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum, nálægt bröttum sjávarbjörgum og forðast svæði þar sem grjót getur hrunið. Ríkislögreglustjóri í samvinnu við Lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi

 Almannavarna og eins hefur VONA tilkynning verið gefin út og færð yfir á gult fyrir Krísuvík. Veðurstofan mun fylgjast náið með framvindu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica