Fréttir
Brúin á þjóðvegi 1 yfir Skálm. Myndin er tekin um hádegi í gær, 9. september, og sýnir hlaupvatn í ánni. Á fjær enda brúarinnar sjást mælitæki Veðurstofunnar sem fylgjast með vatnshæð og rafleiðni á staðnum. (Ljósmynd: Lögreglan á Suðurlandi)

Jökulhlaup í Skálm í rénun

Annar minni atburðurinn í kjölfar á jökulhlaupinu þann 27. júlí

10.9.2024

Jökulhlaup sem staðið hefur yfir í Skálm undanfarna sólarhringa er í rénun. Rafleiðni og vatnshæð í ánni fór hækkandi frá því á laugardaginn 7. september þar til í gær þegar mælingar byrjuðu að lækka aftur. Hækkuð rafleiðni er merki um jarðhitavatn í ánni. Jarðhitavatnið kemur undan Mýrdalsjökli. Síðan síðdegis í gær hefur rafleiðnin nálgast aftur eðlileg gildi og er þetta hlaup því í rénun.

Í lok júlí á þessu ári varð umtalsvert jökulhlaup í Skálm og flæddi áin yfir þjóðveg 1 á kafla. Í því hlaupi mældist talsverður hlaupórói á jarðskjálftamælum í kringum Mýrdalsjökul en svipaður hlaupórói hefur ekki mælst síðustu daga. Þetta er annar minni atburðurinn sem kemur í kjölfarið á því hlaupi, en annað lítið hlaup varð í ánni í kringum 10. ágúst.

Náttúruvárvakt VÍ heldur áfram að vakta hlaupið en beinir því til ferðafólks á svæðinu að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarveginum þar sem enn gæti verið gasmengun á svæðinu.

Grafskalm10092024

Rafleiðnimælingar í Skálm síðustu sjö sólarhringa.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica