Fréttir
.
.

Kortlagning íslenskra eldfjalla, kynning vefsjár

27.1.2017

Undanfarin misseri hafa sérfræðingar á vegum þessara stofnana og vísindamenn víðs vegar að á landinu unnið að því að taka saman heildaryfirlit um virk eldstöðvakerfi á Íslandi, alls 32 talsins. Öllum upplýsingum hefur verið komið fyrir á vefsjá, en þar eru meðal annars hnitmiðaðar samantektir um virkni eldstöðvakerfanna, greinargerðir um þau, ýmis kort og ljósmyndir, auk þess sem virkni kerfanna er aðgengileg í rauntíma. Einnig eru settar fram hugsanlegar sviðsmyndir atburða framtíðarinnar. Um er að ræða „lifandi“ vefsjá þar sem þekking á eldstöðvakerfum landsins er gerð aðgengileg og reglulega uppfærð. Markmiðið er einnig að birta þar upplýsingar um áhættumat vegna eldgosa á Íslandi sem nú er unnið að, en Veðurstofan leiðir þá vinnu. Verkefnið var styrkt af Alþjóðaflugmálastofnuninni ICAO og rannsóknarverkefninu FUTUREVOLC undir 7. rammaáætlun Evrópusambandsins.

Þann 2. febrúar næstkomandi kl. 15:00 – 16:00 verður haldin kynning á vefsjánni á Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7. Evgenia Ilyinskaya eldfjallafræðingur mun segja frá tildrögum verkefnisins, hvaða efni er þar að finna og hvernig er best að nota vefsjána. Helsta markmiðið er að vefsjáin geti komið öllum að gagni, hvort sem er viðbragðs- og hagsmunaaðilum, nemendum á öllum skólastigum og almenningi. 

Streymt er frá kynningunni á facebook og vef Veðurstofunnar.

Evgenia Ilyinskaya

Evgenia Ilyinskaya eldfjallafræðingur.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica