Fréttir
mynd
Hofsjökull.

Loftmengun í íshellinum í Blágnípujökli

20.2.2018

Þann 14. febrúar 2018 birti Veðurstofan viðvörun á vef sínum vegna loftmengunar í íshelli í Blágnípujökli. Laugardaginn 17.2. fór annar hópur ferðafólks í hellinn og var styrkur lofttegunda þá mældur á ný.

Utan hellisins var styrkur brennisteinsvetnis (H2S) við 0 en eftir nokkurra mínútna göngu inn eftir hellisgólfinu var styrkurinn kominn yfir 20 ppm (milljónustu hluta). Síðan fór hann hækkandi og á 2 mínútna tímabili mældust mjög há gildi, á bilinu 120-183 ppm. Var þá snúið við enda er fólki bráð hætta búin í svo menguðu lofti; lyktarskyn hverfur og varanlegar skemmdir geta orðið á slímhúð í augum og öndunarfærum. Við útivinnu á vegum Veðurstofunnar er miðað við tafarlausan brottflutning starfsmanna ef styrkur H2S nær 100 ppm. 

Hjá Veðurstofunni hafa ekki verið skráðar fleiri mælingar á loftmengun í íshellinum en þær, sem getið er um í þessum fréttagreinum. Gögnin gefa því ekki til kynna hversu hátt H2S gildi geta farið eða hver hefur verið styrkur þessarar lofttegundar þegar aðrir hópar hafa farið í hellinn. Við ofangreindar mælingar reyndist styrkur súrefnis eðlilegur og bendir það ekki til koltvísýrlingsmengunar (CO2) þar sem mælt var, þótt ekki sé hægt að útiloka slíka mengun. Ekki eru vísbendingar um mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2) í hellinum. 

Þegar farið er í íshella á jarðhitasvæðum ber ávallt að hafa í huga hættu á loftmengun. Brennisteinslykt gefur H2S mengun til kynna og minnt er á að sumir hætta að finna lyktina þegar styrkur H2S fer yfir 20 ppm. Finni fólk fyrir höfuðverk, ógleði, ertingu í augum eða öðrum óþægindum við þessar aðstæður skal koma sér í ferskt loft hið snarasta.

Auk gasmælinga eru komnar fram greinilegar vísbendingar um nýlegt hrun ísfleka úr lofti hellisins og niður á gólf hans.

Bent er á töflu á vef Almannavarna um viðmiðunarmörk vegna eitraðra gastegunda





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica