Mæliátak á Norðurheimskautssvæðinu
Í febrúarbyrjun hófst nokkurra vikna mæliátak á Norðurheimskautssvæðinu sem felst í auknum hefðbundnum mælingum til þess að fá sem heildstæðastar mælingar á svæðinu. Í framhaldinu verða gerða tilraunir með veðurspálíkön með það að markmiði að besta mælikerfið á heimsskautssvæðinu og öðlast betri skilning á áhrifum veðurathugana á heimskautssvæðum á gæði veðurspáa fyrir lægri breiddargráður.
Annað slíkt mæliátak verður á norðurslóðum í sumar og næsta vetur á Suðurheimsskautssvæðinu. Mæliátökin eru hluti af alþjóðlegu verkefni sem ber heitið Year of Polar Prediction (YOPP). Meiri upplýsingar um mæliátökin og YOPP er að finna á vefsíðu YOPP.Veðurstofan tekur þátt í átakinu með því að tvöfalda tíðni háloftaathugana. Veðurblöðrum er því sleppt fjórum sinnum á sólarhring frá Keflavíkurflugvelli nú í febrúar og mars, og tvisvar frá Egilsstaðaflugvelli. Í háloftaathugunum er hiti, daggarmark, vindhraði og vindátt mæld á meðan blaðran hækkar sig í gegnum lofthjúpinn. Veðurblaðran mælir í veðrahvolfinu og upp í heiðhvolfið. Myndræna framsetningu á mælingunum er hægt að skoða hér á vefnum .
Í viðbót við að auka háloftaathuganir þá styður Veðurstofan við sértækt mæliátak á hafsvæðinu fyrir norðan Ísland á sama tíma. Mæliátakið kallast The Iceland - Greenland Seas Project (IGP). Tilgangur þess er að mæla flæði á hita, raka og skriðþunga á milli sjávar og lofthjúps að vetrarlagi og hvernig veðurkerfi stjórna slíku flæði. Þetta er gert með rannsóknarskipi, NRV Alliance sem verður á hafsvæðinu í tæpa tvo mánuði og mælir í sjó og lofti og gerir reglubundnar háloftaathuganir. Auk þess mun rannsóknarflugvél í eigu British Antarctic Survey vera við mælingar í mars, en hún mun fljúga frá Akureyri yfir hafsvæðin norður af landinu.
Um helgina lá NRV Alliance við bryggju í Reykjavíkurhöfn og var verið að ljúka undirbúningi siglingar. Meðal annars var ýmsum mælitækjum komið fyrir auk þess sem að veðurfræðingar og haffræðingar mættu um borð. Sunnudaginn 4. febrúar var háloftaathugunarbúnaðurinn prófaður og gekk það mjög vel.
Ian Brooks (Prófessor við Háskólann í Leeds) kennir Chris Barrel og Annick Tepstra (doktorsnemi og nýdoktor við Háskólann í Austur-Anglíu) að framkvæmda háloftaathuganir. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen,