Mat á hnattrænum áhrifum loftslagsbreytinga
Ákvörðun tekin um vinnulag næstu ára
Í síðustu viku fór fram sextugasti fulltrúafundur Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar ( IPCC ) Á fundinum voru línur lagðar fyrir sjöunda matshring nefndarinnar um mat á hnattrænum áhrifum loftslagsbreytinga. Á fundinum var meðal annars tekin ákvörðun um að vinna eftir sambærilegu vinnulagi og áður hefur verið gert, á formi matsskýrsla þriggja vinnuhópa, samantektarskýrslu og einstaka sérskýrslum um sértæk málefni.
Yfir 300 fulltrúar frá 120 aðildarríkjum
tóku þátt í fundinum, sem fram fór í Istanbúl í Tyrklandi. Anna Hulda
Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá
Veðurstofu Íslands, sótti þingið fyrir Íslands hönd Íslands (mynd 1).
„Það er ljóst að vinna IPCC er mikilvægt innlegg inn í svokallaða hnattræna
úttekt, eða Global Stocktake,
aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Því skiptir miklu máli að
vinna nefndarinnar skili niðurstöðum sem hægt verður að nýta fyrir næstu
hnattrænu úttekt árið 2028“, segir Anna Hulda. „Það er hvetjandi að sjá
svo stóran hóp fulltrúa mismunandi landa saman kominn með viljann um að ná samstöðu
að vopni“, segir Anna.
Mynd 1. Anna Hulda Ólafsóttir sótti sextugasta fulltrúaþing IPCC í Istanbul
Áhersla lögð á aðlögun að loftslagsbreytingum
Hingað til hefur vinnulag nefndarinnar við að taka saman stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum falist í útgáfu mattskýrsla þriggja vinnuhópa, samantektarskýrslu og einstaka sérskýrsla. Á fundinum í ár var mikið rætt um hvort breyta skyldi vinnulaginu með það í huga að flýta fyrir niðurstöðum. Það fékk þó ekki hljómgrunn þegar upp var staðið og því var ákveðið að þrír vinnuhópar skyldu starfa, eins og verið hefur.
Vinnuhóparnir eru eftirfarandi:
- Vinnuhópur I (WGI): Fjallar um eðlisþætti loftslags
- Vinnuhópur II (WGII): Fjallar um áhrif, aðlögun og varnarleysi
- Vinnuhópur III (WGIII): Fjallar um mótvægisaðgerðir
Á fundinum var ákveðið að samantektarskýrsla sjöunda matshrings IPCC kæmi út árið 2029. Tímalína matsskýrsla vinnuhópanna þriggja var lögð í hendur ráðgjafanefndar IPCC (e. IPPC Bureau) og tekin til samþykktar á næsta fulltrúafundi IPCC. Það var þó ítrekað að skýrslurnar yrðu tilbúnar svo þær nýttust inn í næstu hnattrænu samantekt (e. Global Stocktake) sem fram fer árið 2028.
„Það er ljóst af umræðunni að mikil áhersla verður lögð á aðlögun að loftslagsbreytingum og í því samhengi var ákveðið að samhliða vinnu vinnuhóps II yrðu endurskoðaðar leiðbeiningar fá 1994 á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögun ásamt aðlögunarvísum, mælikvörðum og aðferðafræði,“ segir Anna Hulda.
Á fundinum var samþykkt að vinna sérstaka skýrslu um loftslagsbreytingar og borgir, sem gefa á út í byrjun árs 2027. Auk þess mun verkefnahópur um landsbókhald yfir gróðurhúsalofttegundir (e. National Greenhouse as Inventories (TFI)) vinna skýrslu um skammlífar gróðurhúsalofttegundir (e. short-lived climate Forcers) fyrir árið 2027. Einnig var samþykkt að standa fyrir sérfræðingafundi um tækni til þess að fanga og farga CO2 og vinna að því að móta aðferðafræði á því sviði fyrir lok árs 2027.
Nánar um Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar
Veðurstofa Íslands er landsskrifstofa IPCC á Íslandi í umboði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og sinnir skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hlutverki tengiliðs við nefndina.
IPCC var stofnuð árið 1988 að undirlagi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (e. World Meteorological Organization (WMO)) og Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Environment Program (UNEP)). Í nefndinni sitja 195 aðildarríki en fulltrúar þeirra hittast á fulltrúafundi að minnsta kosti einu sinni á ári. Fundirnir eru sóttir af hundruðum embættismanna og sérfræðinga frá viðeigandi ráðuneytum, stjórnsýslu- og rannsóknastofnunum frá aðildarlöndum og áheyrnarfulltrúum. Nefndin tekur samræmda ákvörðun um fjárhags- og vinnuáætlun IPCC, uppbyggingu skýrsla, vinnu- og verklagsreglur IPCC og uppbyggingu og umboð vinnu- og starfshópa IPCC.
IPCC skapar ramma fyrir stjórnvöld, vísindamenn og starfsfólk aðildarríkjanna til þess að vinna sameiginlega að áreiðanlegasta vísindalega mati heims á loftslagsbreytingum. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC gefa vísindalegar forsendur fyrir aðgerðum með það að markmiði að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kyoto- og Parísarsamninginn). Niðurstöðurnar leggja auk þess til vísindalegan grunn að áhættumati á loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim. Mynd 2 sýnir uppbyggingu IPCC.
Mynd 2: Uppbygging IPCC