Norrænu veðurstofurnar hyggja á samstarf um sameiginlegan rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna
Á sama tíma og nákvæmni veðurspáa hefur aukist, hefur reikniþörf við gerð veðurlíkana margfaldast á síðustu 10 árum.
Fundi forstjóra norrænu og baltnesku veðurstofanna á Veðurstofu Íslands lauk í dag. Á fundinum undirrituðu forstjórarnir viljayfirlýsingu um samstarf um rekstur reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna. Hollenska og írska veðurstofan eru einnig aðilar að samstarfinu. Þetta samstarf kemur til með að byggja á þeim árangri sem náðst hefur í samstarfi norrænu og baltnesku veðurstofanna á vettvangi NordNWP (Numerical Weather Predictions).Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, telur þetta samkomulag mjög mikilvægt varðandi frekari þróun í gerð veðurlíkana fyrir Ísland og athafnasvæði landsins í Norður-Atlantshafi, en ekki síður hvað varðar víðfemt þjónustusvæði Veðurstofunnar fyrir alþjóðaflugið. “Veðurstofan leitar stöðugt leiða til að bæta þjónustu sína við íbúa og atvinnuvegi landsins. Við viljum vera í stakk búin til að svara auknum kröfum um nákvæmari og ítarlegri veðurspár, bæði til að auka öryggi landsmanna og þeirra ferðamanna sem landið sækja. Loftslagsbreytingar kalla einnig á öflugri reiknigetu og meiri samvinnu við gerð loftlagssviðsmynda til þess að sem best mynd fáist á þær breytingar á veðráttu og veðurfari sem samfélagið stendur frammi fyrir og þarf að aðlaga sig að.”
Samstarfinu verður komið á í tveimur skrefum. Frá og með árinu 2022 mun
Veðurstofa Íslands, danska, írska og hollenska veðurstofan sameinast um rekstur
reiknilíkana og úrvinnslu veðurgagna. Samstarfið tekur svo á sig endanlega mynd
árið 2027, þegar allar 10 veðurstofurnar sameinast um reksturinn.
Forstjórar veðurstofanna heimsóttu tölvusal Veðurstofunnar. Ingveldur Björg Jónsdóttir, hópstjóri rekstrar, segir hér frá Cray öfurtölvunni Þór. Tölvan er í eigu dönsku veðurstofunnar, en afurðir hennar eru samnýttar af Veðurstofu Íslands og þeirri dönsku. (Ljósmynd: Haukur Hauksson)
Veðurstofur og "fjórða iðnbyltingin"
Forstjórar veðurstofanna funduðu einnig með fulltrúum frá ráðgjafafyrirtækinu Gartner, Volvo og hátæknifyrirtækinu Spire. Mark Raskinu, ráðfgjafi frá Gartner, gaf forstjórunum innsýn í möguleg áhrif „fjórðu iðnbyltingarinnar“ á þjónustu og starfsemi veðurstofa í framtíðinni. Andres Eugensson frá Volvo fór yfir hvaða möguleikar felast í samspili milli nettengdra bifreiða og þeirrar þjónustu sem veðurstofur veita almenningi. Theresa Condor frá Spire kynnti starfsemi fyrirtækisins og þá möguleika sem fólgnir eru í vaxandi fjölda örgervihnatta. Aðgangur að neti örgervihnatta getur stuðlað að betrumbættri greiningu á ástandi lofthjúpsins, ekki síst á svæðum þar sem hefðbundnum veðurmælingum verður illa komið við.