Fréttir
góðviðri
Góðviðri.

Góðviðri

það sem af er júlí

13.7.2007

Þótt tíðarfar hafi verið heldur dauft sums staðar á Norður- og Austurlandi þykir það með ágætum í öðrum landshlutum. Ýmsir spyrja hversu óvenjulegt þetta er.

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er mánuðinum er 12,9°C og er það 2,5°C yfir meðallagi. Fyrstu 12 dagana er mánuðurinn í 2. hitasæti frá og með 1949, nokkuð langt á eftir 1991, en þá var meðalhitinn 14,0°C sömu daga. Spurning er hversu lengi þessi hlýja tíð heldur út.

Ástandið á Akureyri er heldur daufara, meðalhitinn fyrstu 12 dagana er 9,7°C, en það er þó ekki nema 0,3°C undir meðallagi.

Hiti hefur ekki farið mjög hátt, hæsta hámark á mælana í reit Veðurstofunnar var 19,7°C. Það var 2. júlí og næsthæst komst hitinn í 19,0° þann 4. og 18,9° þann 3. Góðir þrír dagar það.

Hiti komst í 21,9°C á Skrauthólum á Kjalarnesi þann 3. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á höfuðborgarsvæðinu fram til þessa í júlí. Hæsti hiti á Akureyri það sem af er mánuðinum er 18,0°C, það var 6. júlí.

Hæsti hiti yfir landið (°C) á sjálfvirkum stöðvum einstaka daga 1.-12. júlí:

  dagur  hámark staður

  • 1.        19,8      Þingvellir og Húsafell
  • 2.        22,9      Þingvellir
  • 3.        21,5      Þingvellir
  • 4.        21,9      Skrauthólar á Kjalarnesi
  • 5.        20,9      Þingvellir
  • 6.        21,2      Brúsastaðir í Vatnsdal
  • 7.        18,9      Möðrudalur
  • 8.        24,2      Hjarðarland í Biskupstungum
  • 9.        24,6      Hjarðarland í Biskupstungum
  • 10.      22,4      Þingvellir
  • 11.      21,6      Patreksfjörður
  • 12.      20,6      Þingvellir
Aftur upp

Meðalhiti síðustu 30 daga í Reykjavík er 11,7°C, það sama og sömu daga 1991. Þetta er hlýjast tímabila 13. júní til 12. júlí að minnsta kosti frá 1949. 

Hiti fór rétt niður fyrir frostmark aðfaranótt 12. á Eyjabökkum, Þeistareykjum og á Möðruvöllum í Eyjafirði.


Úrkoma í Reykjavík mældist 5,0 mm fyrstu 12 dagana (féll öll á tveimur nóttum), en 9,2 mm á Akureyri.

Fyrstu 13 dagana í júlí hefur úrkoma frá 1949 verið minni (magn í mm):

        ár       mán. magn

  • 1978   7      4,8
  • 1986   7      4,5
  • 2002   7      4,1
  • 1956   7      3,4
  • 1957   7      1,7
  • 1959   7      1,7
  • 1963   7      1,6
  • 1981   7      1,1

Athygli vekur að þarna eru rigningasumarið 1975 og hálfrigningasumurin 1959 og 1981 með, en einnig öndvegissumur eins og 1956 og 1957. Spágildið er því ekkert.

Sé farið aftar bætast þessi ár við:

 

        ár       mán. magn

  • 1940   7      4,9
  • 1922   7      4,8
  • 1931   7      4,7
  • 1936   7      2,9
  • 1888   7      2,0
  • 1924   7      1,8
  • 1938   7      0,0
Aftur upp

Úrkoma var ekki mæld í Reykjavík 1907 til 1919.

Síðustu 30 daga hefur úrkoman í Reykjavík aðeins mælst 6,6 mm og hefur aldrei verið jafnlítil þetta sama 30 daga tímabil. Næstminnst varð úrkoman á þessu ákveðna tímabili 15,7 mm, það var 1888. Hins vegar er lengsti samfelldi þurrkur í Reykjavík 30 dagar, það var síðsumars 1960 og alloft hefur úrkoma verið minni en 6,6 mm á 30 daga tímabili.

Á Akureyri hefur úrkoma síðustu 30 daga mælst 9,2 mm og hefur 5 sinnum orðið minni á sama tímabili frá því að mælingar hófust þar 1927. Minnst 1936, 3,8 mm.


Sólskinsstundafjöldinn í Reykjavík fyrstu 12 dagana er 96,2 - 6 júlíbyrjanir gera betur frá 1949 og 10 ef farið er aftur til 1923. Nokkuð langt er upp í efstu töluna, 153 klst. þessa daga 1968.

Sé litið á síðustu 30 daga er sólsskinsstundafjöldinn í Reykjavík 246 og hefur hann 8 sinnum orðið meiri á tímabilinu 13. júní til 12. júlí frá 1923. Flestar voru sólskinsstundirnar 290, það var 1928. 

Aftur upp

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica