Fréttir
Flugeldar
Flugeldar á gamlárskvöld 2006 í Reykjavík.

Mjög góðar veðurspár fyrir áramótin

2.1.2008

Nokkur umræða hefur orðið um veðurspárnar fyrir áramótin og um þá ákvörðun að fresta því að kveikja í brennum á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld. Miðað við þau öryggismörk sem slökkviliðið hefur sett í sambandi við vindhraða er enginn vafi á því að veðurspárnar voru mjög góðar og ákvörðunin hárrétt.

Að morgni gamlársdags voru spár þannig að gert var ráð fyrir vindhraða um eða innan við 10 m/s fram til kl. 20 en eftir það færi að hvessa og að eftir kl. 21 mætti búast við vindhraða um eða yfir 15 m/s. Tekið skal fram að hér er átt við meðalvind en ekki hviður.

Á fundi sem veðurstofustjóri átti með slökkviliðsstjóra, lögreglu, brennustjórum o.fl. kl. 11 á gamlársdag var þessum spám komið á framfæri. Þar var einnig gert ráð fyrir að vindhraði næði hámarki, um 20 m/s, milli kl. 1 og kl. 4 á nýársnótt en þá færu skil yfir og lygna myndi í kjölfarið. Allt þetta gekk eftir eins og sjá má ef athuganir á Veðurstofunni eru skoðaðar fyrir þetta tímabil. (Það er gert með því að smella í reitinn Skoða athuganir síðustu daga og færa svo vísinn undir myndinni á 00 milli mánudags og þriðjudags.)

Auðvitað er það svo að vindur er afar breytilegur innan höfuðborgarsvæðisins og í vindátt úr suðaustri, eins og var um þessi áramót, er víða nokkurt skjól. Hins vegar var samstaða um það hjá öllum aðilum sem að stjórnun brenna komu að skynsamlegast væri að taka eina ákvörðun fyrir allt svæðið og var það gert. Ljóst er að hér tókst sérstaklega vel til og skammtímaveðurspár sýndu enn einu sinni mikilvægi sitt.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica