Tíðarfar í desember 2007
- stutt yfirlit
Tíðarfar í desember var hlýtt, úrkomusamt og rysjótt. Meðalhiti í Reykjavík var 1,3 stig og er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig, 2,6 stigum ofan meðallags. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 2,1 stig og -4,3 stig á Hveravöllum (2,0 stigum yfir meðallagi).
Úrkoma í Reykjavík mældist 196,5 mm og hefur ekki áður mælst meiri í desember, þetta er meir en tvöfalt meðalmagn mánaðarins. Úrkoma á Akureyri mældist 60 mm og er það 13% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 234 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma.
Þrátt fyrir þessa miklu úrkomu var ekki um met að ræða nema á fáum stöðvum, fyrir utan Reykjavík á þremur öðrum stöðvum sem mælt hafa í meir en 40 ár. Það er Andakílsárvirkjun (mælt frá 1950), Stykkishólmur (mælt frá 1856) og Mjólkárvirkjun (mælt frá 1959). Í Stykkishólmi má segja að um jöfnun mets sé að ræða því úrkoma í desember 1953 mældist 170,0 mm, en 170,8 mm nú.
Sólskinsstundir í Reykjavík voru 11 og er það í meðallagi. Ekkert sólskin mældist á Akureyri eins og venjulegast er í desember.
Stormasamt var í mánuðinum, einkum um vesturhelming landsins. Mælikvarða má sjá á línuritinu. Snjólétt var víðast hvar á landinu.