Viðbætur og lagfæringar á vedur.is
Undanfarnar vikur og mánuði hafa margar viðbætur og lagfæringar verið gerðar á kvikum síðum hér á vefnum. Eftirfarandi eru helstu breytingarnar:
Auðveldara að skoða veðurþáttaspárnar
Veðurþáttaspárnar (vinda-, úrkomu- og hitaspár) byggjast á þremur mismunandi spálíkönum. Síðurnar sem sýna veðurþáttaspárnar birta nú kort úr öllum spálíkönum saman á einum sleða. Þannig skiptir sleðinn sjálfkrafa á milli spálíkana þegar notandinn færir sleðann.
Kortin birtast nokkuð hratt í vöfrum notenda þrátt fyrir að þau séu mörg. Það er sökum þess að einungis eru sótt spákort fyrir þann tíma sem notandinn er að skoða hverju sinni og líklegt er að hann skoði næst.
Kort merkt A eru nákvæmust en ná skemmst fram í tímann. Þau byggjast á 3 km reiknineti og sýna spár með 1 klst. millibili. Kort merkt B byggjast á 9 km reiknineti og sýna spár með 3 klst. millibili. Kort merkt C eru eins og B-kortin, en byggjast á ónákvæmari greiningu og eru fyrir vikið ónákvæmust. Kort A og B uppfærast 4 sinnum á sólarhring en kort C uppfærast 2 sinnum á sólarhring.
Smámyndir af veðurþáttaspám á forsíðu
Veðurþáttaspárnar á forsíðunni gefa notendum hugmynd um hvernig veðrið verður á landinu næstu klukkutímana. Þær virka einnig sem flýtileiðir á þessar undirsíður. Eftir birtingu smámyndanna á forsíðunni hefur notkun veðurþáttaspánna aukist verulega. Það var tilgangurinn enda eru þetta að öllu jöfnu nákvæmustu veðurspár sem fáanlegar eru fyrir Ísland.
Veðurstöðvalisti og upplýsingar
Á veðurstöðvasíðunum er hægt skoða stöðvalistann í stafrófsröð og landshlutaröð. Þaðan er auðvelt að komast á spásíðu, athugunarsíðu og upplýsingasíðu fyrir viðkomandi stöð.
Allar stöðvar saman á kortum
Hægt er skoða allar stöðvar viðkomandi landshluta saman á staðaspá- og athugunarkorti. Það er gert með því að velja „Allar stöðvar“ í fellivalinu sem er hægra megin ofan við kortin. Sökum þess hve stöðvarnar eru margar er einungis birtur punktur fyrir hverja stöð. Þegar músin er færð ofan á viðkomandi stöð birtast veðurupplýsingar í sprettiglugga við hliðina á punktinum.
Hægt að smella á Íslandskortin til að fara á undirkort
Hægt er smella á staðaspá- og athugunarkortið, sem sýna allt Ísland, til þess að fara á landshlutakortin. Það er gert með því að smella á bakgrunn kortsins til hliðar við veðurstöðvarnar.
Sérkort fyrir Djúpið
Útfærð hafa verið sérkort fyrir Djúpið, bæði staðaspákort og athugunarkort.
Spáritasíða
Útfærð hefur verið sérstök spáritasíða. Þar má sjá á einni síðu veðurspárit fyrir margar veðurstöðvar. Efst á síðunni er box þar sem hægt er að velja fyrirfram ákveðna hópa af spáritum eða velja spárit fyrir hvaða veðurstöð sem er. Spáritin birtast neðar á síðunni. Með því að nota leitarformið er hægt að setja upp síðu með spáritum fyrir hvaða veðurstöðvar sem spár eru framleiddar fyrir. Við hverja viðbót breytist slóði síðunnar. Með því að bókamerkja slóðina eða geyma hana á annan hátt er fyrirhafnarlaust hægt að sækja spárit fyrir sömu stöðvar síðar meir.
Upptökur af textaspá
Hægt er að hlusta á hljóðupptökur af flestum textaspám og -lýsingum. Það er gert með því að styðja á táknið sem er fyrir ofan textaspárnar. Þegar textaspá hefur verið skrifuð, en ekki hljóðrituð ennþá, er að sjálfsögðu ekki hægt að hlusta hana. Þá birtist tákn fyrir ofan textaspána sem gefur það til kynna.
Textaspár eru uppfærðar á vefnum strax eftir að þær hafa verið vistaðar af veðurfræðingi. Sökum þess hvernig vinnuferlið er hjá spáveðurfræðingum og tölvurum sem lesa inn spárnar getur stundum liðið svolítill tími þar til nýjar textaspár eru hljóðritaðar.
Athugasemdir veðurfræðings
Vakthafandi veðurfræðingur getur birt sérstaka athugasemd þegar ástæða er til. Við það verður vísunin á Athugasemd veðurfræðings á forsíðu mjög áberandi. Þegar músin er færð ofan á vísunina opnast sprettigluggi með athugasemdinni. Einnig er hægt að styðja á vísunina til að opna undirsíðu með athugasemdinni.
Athugasemdirnar geta verið margs konar, ábending til fólks um að ekkert ferðaveður verði næsta dag, hætt sé við hálku á götum, spá um hvenær stormur gangi niður og margt fleira. Þegar margir hringja til Veðurstofunnar og spyrja um hið sama er ábending gjarnan skrifuð í athugasemdirnar.
Vefmyndavélar á Höfn í Hornafirði og Hveravöllum
Til viðbótar við vefmyndavélina í Reykjavík hafa verið settar upp vefmyndavélar á Höfn í Hornafirði og Hveravöllum.
Úrkomu- og snjóupplýsingar
Hægt er að skoða kort sem sýna sólarhringsúrkomu, snjódýpt og ákomu. Einnig er hægt að sjá lista sem sýnir mestu mældu sólarhringsúrkomuna. Bent skal á að sólarhringsúrkoma er mæld frá kl. 9 til kl. 9 næsta dag.
Greiningarkort
Hægt er að skoða greiningarkort fyrir Ísland og Atlantshaf. Greiningarkort byggjast á mælingum veðurstöðva. Þau sýna þrýstilínur og hefðbundnar mælingar stöðva, vind, hitastig, úrkomu o.s.frv. Spáveðurfræðingar nota greiningarkort mikið í sínu starfi.
Háupplausna-veðurtunglamyndir
Á vefnum má nú finna nýjar veðurtunglamyndir. Blandað er saman háupplausnamyndum frá NOAA og lágupplausnamyndum frá EUMETSAT. Þetta eru hitamyndir sem eru óháðar birtu.
NOAA-hnettirnir eru á sporbaug um pólana í 850 km hæð. Eumetsat-hnettirnir eru sístöðuhnettir, þ.e.a.s. alltaf á sama stað, fyrir ofan miðbaug, í 36.000 km hæð. Sökum þess að NOAA-hnettirnir fara um pólana þá birtast myndir frá þeim á óreglulegum tímum og sífellt af mismunandi svæðum. Myndaræmurnar frá þeim eru mjóar sökum þess hversu lágfleygir hnettirnir eru.
Hraðvirkari síður yfir hægari tengingar
Ýmsar breytingar hafa verið gerðar sem miða að því að gera birtingu á kviku síðunum hraðvirkari yfir hægari tengingar, þ.á m. yfir ISDN og GPRS (með notkun gsm-síma). Það getur tekið dálítinn tíma að birta fyrstu síðuna, en þær næstu ættu að birtast talsvert hraðar. Þessi vefur var þó fyrst og fremst hannaður fyrir hraðari tengingar og mun því seint verða þægilegur yfir hægari tengingar. Samkvæmt kröfugreiningu er áformað að útfæra sérstakan vef fyrir farsíma og til að nota yfir hægar tengingar.
Fleiri viðbætur á döfinni
Ýmsar fleiri viðbætur eru á döfinni. Næst verða helstu síðurnar birtar á ensku á sérstökum undirvef. Á vefnum er ábendingasíða þar sem notendur geta sent inn óskir um nýja virkni eða ábendingar um bilanir.